miðvikudagur, júlí 14, 2010

Hvað er í gangi í Álftanesskóla?

Á feministapóstlistanum barst mér póstur frá konum sem vildu draga athygli að svokölluðu stráka- og stelpuvalfögum sem eru í boði fyrir nemendur Álftanesskóla. Eftirfarandi lýsingar eru teknar beint upp úr námsskrá Álftanesskóla:

“Stelpuval
Þessi valgrein verður kennd að hluta til með valgreininni Strákaval. Rætt verður um ólík viðhorf og áhugamál kynjanna. Í Stelpuvali verður farið í helstu áhugamál stelpna s.s : Hvað er í tísku? Spáð verðu í fatnað, skó, liti, förðun og heilsa. Förðun. Undirstöðu námskeið í förðun. Dagsförðun, kvöldförðun og málað eftir myndum eða jafnvel láta sköpunargleðina ráða ríkjum. Farið verðu í umhirðu og þrif húðar.
Hvað er fræga fólkið, hér á landi og erlendis, að gera þessa dagana? Skoðuð
verða slúðurblöð og farið á netið til að fylgjast vel með öllum.

Þátttakendur
Stelpur í 8., 9. og 10. bekk
Námsmat
Námsmatið byggir á virkni í tímum og umræðum. Lokamat verður á formi
einkunnarinnar lokið/ólokið og umsögn
Námsgögn
Eigin förðunarvörur
Kennari: Guðrún Ólafía Þorleifsdóttir


Strákaval
Þessi valgrein verður kennd að hluta til með valgreininni Stelpuval. Rætt verður um
ólík viðhorf og áhugamál kynjanna.
Í Strákavali verður farið í helstu áhugamál drengja s.s:
Helstu úrslit helgarinnar
Bílar og bílaíþróttir
Tækni og vísindi
Þátttakendur
Strákar í 8., 9. og 10. bekk
Námsmat
Námsmatið byggir á virkni í tímum og umræðum. Lokamat verður á formi
einkunnarinnar lokið/ólokið og umsögn
Kennari: Svavar Ó Pétursson”

(
http://www.alftanesskoli.is/Files/Skra_0042634.pdf blaðsíða 11 and 12)

Ég held að þetta tali nú alveg fyrir sig sjálft en mig langar aðeins að ræða þetta.

Hvað er eiginlega í gangi hér? Er sem sagt búið að ákveða núna fyrir fullt og allt að kynin hafi ólík viðhorf og áhugamál og er síðan farið að út í að festa þessi áhugamál í sessi. Er sem sagt búið að ákveða að stelpur hafi ekki áhuga á tækni, vísindum og íþróttum og þær eigi bara að vera heima að mála sig og fylgjast með hvað fræga fólkið er að gera? Er heilsa og tíska eitthvað sem er ekki fyrir stráka?

Hér er ekki einungis verið að ýta undir löngu dauðar staðalmyndir heldur beinlínist verið að viðhalda þeim í gegnum skólastarf, þar sem jafnrétti ætti að vera ofar öllu! Þessi skilaboð sem þarna er verið að senda ungu fólki eru alveg út úr kortinu og ég yrði mjög reið ef að Ása kæmi heim með þessa námsskrá. Ása hefur mjög mikinn áhuga á vísindum og tækni og er farin að finna fyrir því frá jafnöldrum að þetta sé kannski ekki nógu stelpulegt að hafa áhuga á þessu en sem stendur er henni alveg sama – ég yrði brjáluð ef að þessi sömu skilaboð kæmu síðan frá skólanum sjálfum.

Síðan vil ég líka bæta við að mér finnst ekki vera metnadarfullt skólastarf að kenna krökkum að lesa íþróttaúrslit og slúður.

þriðjudagur, júlí 06, 2010

Best að halda áfram á svipuðum nótum. Eitt sem hefur lengi brunnið á mér og það er þessi ægilega aðför að konum í fjölmiðlum og þjóðlífi á Íslandi nýverið. Það virðist sem karlar komist upp með að vaða upp um allt á skítugum skónum við lítil viðbrögð (mesta lagi eitthvað röfl hér og þar). Hinsvegar vílar fólk ekki fyrir sér að tjalda fyrir utan hjá stjórnmálakonum (Þorgerður og Steinunn Valdís) sem viðhafa svipuð vinnubrögð og mótmæla með hrópum og köllum þangað til þær segja af sér. Ég hef séð lítil viðbrögð frá karlkyns stjórnmálamönnum sem hafa verið ásakaðir um svipaða hluti. Seinast þegar ég vissi hafði Gísli Marteinn ekki haft tíma til að athuga hverjir styrktu hann – á eitthvað að fara að tjalda fyrir utan hjá honum? Ekki að ég sé að mæla því bót að heimili fólks verði vettvangur hrópa og mótmæla og enn síður vil ég mæla bót að það sé leyndó hver styrkir stjórnmálafólk. Vildi bara benda á að þarna er ákveðið misræmi og það virðist vera að konur séu dæmdar harðar en karlar.

Æsingurinn yfir öllu sem Sóley Tómasdóttir lætur frá sér fara er nú efni í aðra bloggfærslu og jafnvel líka bara 300 blaðsíðna bók. Það virðist vera að hún megi nú bara ekki segja neitt núorðið þá verður allt vitlaust. Hvað með það að henni hafi brugðið þegar hún frétti að hún gengi með strák – ég er viss um að hugsanir yfir óléttu og kyni barna eru nú bara alveg algengar og allt í lagi að viðurkenna þær. Langflestu fólki tekst nú að komast yfir þessar hugsanir á nokkrum mínutum/dögum og elskar börnin sín alveg jafn mikið og kemur þeim til manns.

Ég viðurkenni hér með að ég hafði miklar efasemdir um mína óléttu, hélt að ég yrði alveg ómöguleg móðir og hugsaði mikið um að ef þetta yrði strákur þá myndi ég bara kannski ekkert vita hvernig ætti að ala hann upp. Ég er samt örugg að Ása hefði verið Ásbergur þá hefði ég nú bara hysjað upp um mig og tekist vel til. Þetta eru bara alveg normal hugsanir fólks sem er að fara út í eitthvað sem er eins óþekkt og foreldrahlutverkið. Get a grip people!!!

föstudagur, júlí 02, 2010

Fyrsti pistill um feminisma

Feminismi hefur mér verið hugleikinn um árabil, síðan ég sótti tíma í Kynjafræði í háskólanum. Það sem mér fannst áhugaverðast við að læra kynjafræði var að þar voru sett spurningamerki við hugmyndir og kennisetningar sem ég hafði tekið sem gefnum hlut.

Ég hef tekið eftir því undanfarið að feminismi er smátt og smátt að verða að skammaryrði og að konur og karlar stynja hátt yfir öllu sem er feminískt eða kynjað og tal um mussukerlingar og feminasista fer hátt. Þetta veldur mér áhyggjum þar sem ég tel að feminismi hafi gjörbylt lífi kvenna og karla til hins betra. Ég tel að það megi gera gott betur á þessum vettvangi og lýsi því hér með yfir að ég er feministi – ég sé að staða kynjanna er ekki jöfn og vil breyta því.

Það virðist vera algengur misskilningur að feminismi sé bara ein hugmynd og að feministar séu allir með sömu skoðanir og baráttumál. Því fer fjarri og þó svo að fólki líki ekki hugmyndafræði eins feminista er óþarfi að afskrifa feminisma með einu og öllu.

Ég sé feminisma eins og gott og fjölbreytt hlaðborð. Þar er langbest að smakka allt! Það eru miklar líkur á að þér finnist sumt ekki bragðast vel, í suma rétti vantar aðeins meira salt og stundum er of mikil/lítil sósa. Það er alltaf hægt að breyta réttunum þegar heim er komið til að þeir falli betur að þínum smekk. Ef þú borðar ekki kjúkling þá sleppirðu því bara.

Þad eru þúsund og ein stefna og ótalmargar hugmyndir sem rúmast innan feminisma. Þær miða allar að því að breyta því kynjaða hugmyndakerfi sem við búum við sem getur verið mjög þrúgandi, jafnt fyrir konur sem karla. Þessu kerfi viðhöldum við síðan kynslóð fram af kynslóð því það er okkur svo tamt og við tökum ekki eftir því lengur. Fyrir mitt leyti tek ég öllum ábendingum sem miða ad því að umbylta thessu kerfi fagnandi, ég er ekki alltaf sammála þeim öllum en lít svo á ad margt smátt geri eitt stórt í að breyta kerfinu sem við búum við.

Sumir feministar berjast fyrir launajafnrétti, sumir feministar berjast gegn kynbundnu ofbeldi, vændi, nauðgunum. Sumir feministar berjast gegn staðalímyndum, klámi og þrældómi. Sumir feministar berjast gegn klámiðnaðinum en setja fram hugmyndir um feminískt klám. Sumir feministar berjast gegn kynferðisfrelsi, þ.e.a.s. réttindum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgenderfólks. Ég gæti haldið áfram í allan dag en læt hér staðar numið.

Ég held að allir geti fundið sinn samastað innan feminisma. Ef þér líka ekki áherslurnar í þínu feministafélagi – þá seturðu bara á stofn þitt eigið án þess að dissa hið fyrra því það eru miklar líkur á að einhversstaðar séuð þið sammála.