föstudagur, júlí 02, 2010

Fyrsti pistill um feminisma

Feminismi hefur mér verið hugleikinn um árabil, síðan ég sótti tíma í Kynjafræði í háskólanum. Það sem mér fannst áhugaverðast við að læra kynjafræði var að þar voru sett spurningamerki við hugmyndir og kennisetningar sem ég hafði tekið sem gefnum hlut.

Ég hef tekið eftir því undanfarið að feminismi er smátt og smátt að verða að skammaryrði og að konur og karlar stynja hátt yfir öllu sem er feminískt eða kynjað og tal um mussukerlingar og feminasista fer hátt. Þetta veldur mér áhyggjum þar sem ég tel að feminismi hafi gjörbylt lífi kvenna og karla til hins betra. Ég tel að það megi gera gott betur á þessum vettvangi og lýsi því hér með yfir að ég er feministi – ég sé að staða kynjanna er ekki jöfn og vil breyta því.

Það virðist vera algengur misskilningur að feminismi sé bara ein hugmynd og að feministar séu allir með sömu skoðanir og baráttumál. Því fer fjarri og þó svo að fólki líki ekki hugmyndafræði eins feminista er óþarfi að afskrifa feminisma með einu og öllu.

Ég sé feminisma eins og gott og fjölbreytt hlaðborð. Þar er langbest að smakka allt! Það eru miklar líkur á að þér finnist sumt ekki bragðast vel, í suma rétti vantar aðeins meira salt og stundum er of mikil/lítil sósa. Það er alltaf hægt að breyta réttunum þegar heim er komið til að þeir falli betur að þínum smekk. Ef þú borðar ekki kjúkling þá sleppirðu því bara.

Þad eru þúsund og ein stefna og ótalmargar hugmyndir sem rúmast innan feminisma. Þær miða allar að því að breyta því kynjaða hugmyndakerfi sem við búum við sem getur verið mjög þrúgandi, jafnt fyrir konur sem karla. Þessu kerfi viðhöldum við síðan kynslóð fram af kynslóð því það er okkur svo tamt og við tökum ekki eftir því lengur. Fyrir mitt leyti tek ég öllum ábendingum sem miða ad því að umbylta thessu kerfi fagnandi, ég er ekki alltaf sammála þeim öllum en lít svo á ad margt smátt geri eitt stórt í að breyta kerfinu sem við búum við.

Sumir feministar berjast fyrir launajafnrétti, sumir feministar berjast gegn kynbundnu ofbeldi, vændi, nauðgunum. Sumir feministar berjast gegn staðalímyndum, klámi og þrældómi. Sumir feministar berjast gegn klámiðnaðinum en setja fram hugmyndir um feminískt klám. Sumir feministar berjast gegn kynferðisfrelsi, þ.e.a.s. réttindum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgenderfólks. Ég gæti haldið áfram í allan dag en læt hér staðar numið.

Ég held að allir geti fundið sinn samastað innan feminisma. Ef þér líka ekki áherslurnar í þínu feministafélagi – þá seturðu bara á stofn þitt eigið án þess að dissa hið fyrra því það eru miklar líkur á að einhversstaðar séuð þið sammála.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home