föstudagur, febrúar 23, 2007

Allt eða ekkert?
Ég held nú ótrauð áfram einræðum mínum varðandi klámþingið og viðbrögð við því sem má lesa á nánar öllum bloggsíðum á Íslandi. Eftir að hafa fylgst með rifrildum, rökræðum og almennu skítkasti fólks á milli fór ég aðeins að spá í eitt. Af hverju finnst sumu fólki að annað hvort eigi það að vera allt eða ekkert - svart eða hvítt?
Sumt fólk spyr, ætlar Radisson SAS hótelið núna að fara að ritskoða allar ráðstefnur sem það hýsir og velja úr gestum sínum?...og síðan er tekið eitthvað dæmi eins ætlar það t.d. að neita að hýsa þing finnskra leikskólakennara af því að þeir kenna múmínálfafræði í finnskum leikskólum, bara af því að sú stefna hugnast ekki eigendum Radisson SAS?? Eru þessar tvær samkundur alveg sambærilegar??
Síðan er voða vinsælt að drita yfir feminista og spyrja ...fyrst þið eruð á móti klámþingi/klámi af hverju eruð þið ekki eins sýnilegar í að berjast á móti ... t.d. hnattvæðingu/þrælahaldi/hvalveiðum/nautaati ....og talar þannig að ef maður hefur valið sér að taka þátt í baráttu fyrir/gegn einhverju þá verði maður að taka allan pakkann.
Ég man sérstaklega eftir því síðarnefnda þegar ég var í Amnesty á sínum tíma og var á rölti með undirskriftalista og stóð í að vekja athygli á mannréttindabrotum... þá fannst fullt af fólki að ég ætti frekar eða jafnvel líka að berjast gegn t.d. fóstureyðingum, demantasölu og flassara sem þá gekk laus í Fossvogi (man sérstaklega eftir öllum þessum dæmum... en þau voru ótal fleiri).
Nei ég var bara svona að spá..... góða helgi gott fólk

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Ég verð að segja að ég er ánægð með að þetta klámþing hafi verið blásið af því að ég tel að því felist ákveðin skilaboð til klámiðnaðarins, þ.e. að fólki sé ekki sama hvað gengur á innan þessa iðnaðar. Það væri óskandi að klámiðnaðurinn, þ.e. sá armur hans sem segist selja, sem mætti kannski nefna "free range", "organic", "fairtraide" og "no cruelty to...", erótík og klám, taki þetta til greina og noti tækifærið og taki aðeins til í bakgarðinum hjá sér.

Ég viðurkenni alveg að hugtakið klám og erótík eru sveigjanleg og alltaf verður til eitthvað sem heitir adult entertainment þar sem allir eru voða hamingjusamir og una glaðir við sitt, jafnt framleiðendur sem og starfsmenn. Það er bara þannig að það er svo stutt í hin dökku hlið klámiðnaðarins þar sem hreinlega er litið á fólk sem söluvöru fyrst og fremst og vanvirðing fyrir einstaklingnum er í hávegum höfð.

Þessi vegalengd er sérstaklega stutt á Internetinu og hver hefur ekki lent í því að hafa farið inn á síðu og þá fyllist skjárinn af pop-up gluggum með mis-fallegum skilaboðum. Og síðan eru svo kallaðar linkasíður þar sem hægt er að fylgja linkum umhverfis jörðina á 80 dögum án þess að verða nokkurn tíma stopp á sömu síðunni. Á þessum linkasíðum eru auglýsingar með þeim ógeðslegustu lýsingum sem ég hef nokkurn tíma séð (ég gerði pínu rannsókn á þessu) þar sem boðið er upp á nauðgunarklám, unglingaklám, dýraklám, ofbeldisklám og þar viðgengst ótrúleg hugmyndaríki í að finna sem mest niðurlægjandi orð yfir konur, karla, kynþætti, samkynhneigða og hvaða þjóðfélagshópa sem fyrirfinnast á jörðinni.

Þetta er meðal annars ástæða fyrir því að ég treysti klámiðnaðnum afar takmarkað í því sem hann segist gera að að markmiði, þ.e. að sjá til þess enginn hljóti skaða af því að starfa innan hans. Því ef þú hefur linka á síðunni þinni að einhverjum þeim viðbjóði sem ég nefni hér að ofan og ef þú kallar einstaklinga öllum illum nöfnum þá á ég mjög bágt með að trúa því að þú rekir viðskipti sem eru virðingarverð.

Þess vegna ætti klámiðnaðurinn að reyna að breyta þessu innan frá og segja nei við þessum linkum og gæta þess að virðingarverðar vefsíður hafi ekki þessar ógeðslegu lýsingar og efni á þeim. Það væri líka gott að koma þessum breytingum á framfæri við hinn almenna borgara og gera allt sem í valdi stendur til að sjá til þess að enginn sem starfar innan hans beri skarðan hlut frá borði. Klámiðnaðurinn þarf að taka ábyrgð á þessu ofbeldi og vanvirðingu sem viðhelst innan hans ef hann vill láta taka sig alvarlega sem skemmtiiðnað sbr. adult entertainment.

Það væri óskandi að klámiðnaðurinn tæki þessi viðbrögð Íslendinga sem eitthvað sem væri vert að skoða nánar og hægt væri að nota til að bæta ástandið, en afgreiddi þetta ekki einungis sem eitthvað kynkuldaraus í mussukerlingum eins og mér sýnist að sé reyndin, allavega á fremur mörgum bloggsíðum. Þetta er nefnilega ekki svo einfalt en auðvitað er alltaf auðveldast að afgreiða gagnrýni á þennan hátt.

með bestu kveðju
Getur mbl.is aðeins farið að róa sig í öllu draslinu og auglýsingunum sem þeir hlaða á síðuna sína...það ætlar alveg að líða yfir tölvuna mína þegar ég fer þar inn. Ha?

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Missti ég af einhverju? Stendur einhversstaðar skrifað að við eigum öll að vera stanslaust á barmi fullnægingar? Ég spyr bara vegna þess að undanfarið finnst mér ekki þverfótandi fyrir hálfnöktum konum og kynlífsskilaboðum upp um alla veggi. Í háskólanum hjá mér er farið að bjóða upp á námskeið í súludansi, á næturklúbbi einum hér í bæ eru skjáir þar sem fáklæddar stúlkur sveiflast upp og niður súlur, á þeim er kveikt nótt sem nýtan dag og nota bene þetta er næturklúbbur - ekki strippstaður, síðan eru auglýsinga veggspjöld með hálfnöktum konum þar sem stendur brunettes vs blondes, síðan eru hundrað milljón trilljón raunveruleikaþættir þar sem hálfnaktar konur eru spásserandi upp um fjöll og firnindi og flassandi rassi og brjóstum.... og mér finnst þetta bara verða orðið svo þreytt og sorglegt.

Ég sá þátt um daginn á bbc3 þar sem var verið að skoða klám og unglinga og gegnumgangandi var að ungt fólk í dag, sérstaklega ungir karlmenn, hafa ótrúlega brenglaðar hugmyndir um kynlíf og hvað það felur í sér eftir að hafa horft á klám í blöðum, í símanum sínum, á internetinu og í sjónvarpinu. Þeir virkilega halda að helsti draumur ungra stúlkna sé að fá að veita þeim munnmök og stunda kynlíf með öðrum stúlkum meðan þeir horfa glaðir á.

Kynlíf fyrir þeim, eins kynlíf eins og það birtist í klámi, snýst um að stelpurnar framkvæmi eitthvað fyrir þá að horfa á...fyrir þá að njóta. Þetta snýst ekkert um stelpurnar og hvað þær vilja...þær eru bara þarna fyrir þá. Þessarri hugmynd hefur verið haldið svo rækilega að okkur sl. ár að stelpur halda að kynlíf snúist um að þóknast strákum fyrst og fremst og þær sem vilja það ekki eru stimplaðar sem forpokaðar mussukerlingar. Í þættinum var rætt við tvær stúlkur sem voru hluti af stærri hóp af unglingum sem komu reglulega saman um helgar og þeim leist illa á blikuna að þær gætu verið með í þessum hóp mikið lengur því þær voru ekki til í margt það sem strákarnir töfsuðu um í tíma og ótíma. Og þá kemur þetta "if you cant beat them join them" hugarfar og þegar þær gefast upp fyrir því þá verður þetta allt auðveldara og allir geta haldið áfram að vera góðir vinir og þær jafnvel halda að þetta hafi nú bara verið góð hugmynd og sé bara dulítið sexy og gaman.

Síðan halda stelpur að með því að stunda súludans og munnmök að þá séu þær kúl og í góðum málum. Það vill enginn vera eitthvað púkó í venjulegum bol og buxum á meðan hægt er að vera í silfurnærbuxum, netabol og háum stígvélum úti á djamminu. Svo segja þær að að með því að sýna líkama sinn sem mest þá öðlist þær sjálfstraust og vald og geti djammað með strákunum sem jafningjar þeirra því þær eru svo skemmtilegar og frjálslegar. Það sorglega er að þrátt fyrir að konur haldi að þeim hafi gefist aukið frelsi og vald í kynferðismálum þá er alltaf verið að endurvinna sömu gömlu hugmyndirnar að konan eigi að vera til sýnis og afnota fyrir kallinn.

Ég veit ekki af hverju og hvernig þetta gerðist að sjálfsmynd ungra kvenna fór að verða algerlega háð kynlífi og að vera sexy og til taks 24/7. Ég veit heldur ekki af hverju að kynlíf er orðið aðalmálið í öllu þessa dagana? Ég veit bara að eftir að hafa lesið orðaskipti á þónokkrum bloggsíðum varðandi klám ráðstefnu sem á að halda í Reykjavík bráðum að það fauk í mig og hér hef ég ritað það sem hefur verið að berjast um í kollinum á mér í undanfarið. Skítt með það þó að það sé ekki heil brú í þessarri röksemdarfærslu og kannski meikar þetta engan sens en þetta er nú einu sinni mín bloggsíða þannig ég læt þetta fjúka.

Góðar stundir

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Þessa villu fæ ég upp þegar ég er að reyna að spila viss lög á windows media player sem ég er nýbúin að updeita í 10 að ég held. Og það skemmtilega er að þetta eru þau lög sem ég keypti af MSN music UK í gegnum einmitt Windows Media Player. Síðan þá er MSN music UK búið að loka og ég sit uppi með fullt af lögum sem ég get ekki spilað þrátt fyrir að hafa borgað fyrir þau. Og ég finn ekkert um hvert þetta MSN music fór eða hvern er hægt að hafa samband við. Það er það sem ég segi...það er alltaf eitthvað verið að plata mann..grrrr...fávitar

Ef einhver sem dettur hérna inn veit eitthvað um hvernig er í pottin búið með þetta þá væri ég mjög til í að heyra ...

laugardagur, febrúar 03, 2007

Hvernig getur staðið á því að það sem heitir skv pakkanum Yoghurt Coconut Clusters er skv innihaldslýsingu 75% mjólkursúkkulaði og einungis 1% jógúrtduft? Ég kippti þessu með úr heilsu-snarls-rekkanum í Tesco þar sem ég kaupi alltaf jógúrt húðaðar rúsínur handa mýslunni sem hún tekur með í skólann. Maður þarf greinilega að fara að lesa innihaldslýsingar af meiri móð...kannski eru egg ekkert egg...kannski eru þau bara 78% maís...

Það er alltaf eitthvað verið að plata mann...