föstudagur, mars 26, 2004

Veikindavikan ógurlega!

Það er svo sem ekki mikið að frétta héðan þar sem að veikindi hafa sett mark sitt á síðastliðna viku. Ása byrjaði með háan hita á mánudagsmorgun og uppköst og endaði á spítalanum yfir nótt með vökva í æð. Hún er að skríða saman og er ekki lengur með hita en þá fæ ég þennan líka svaka hita og flensu og mér líður eins og mín síðasta stund sé upprunnin.
Það var ákveðin upplifun að vera á spítala í Englandi skal ég segja ykkur, það voru allir voða almennilegir skal ég segja ykkur og buðu upp á óendanlegt magn af tea and toast og allskonar tegundir af jam. Við fengum eigið herbergi og Ásu fannst eiginlega bara gaman á spítalanum því hún gat valið á milli 200 vídeomynda og svo sat hún bara í rúminu og skemmti sér hið besta. Hún var reyndar voða lasin til að byrja með en hresstist óðum eftir að vökvinn var kominn upp.
Ég sit hérna í neurofen vímu og er þess vegna mjög heiladauð og læt þetta duga í bili.

Góðar stundir

spider-woman

miðvikudagur, mars 17, 2004

Elsku fólk fjær og nær

Ég gerði mér allt í einu grein fyrir að ég gleymid alveg að segja ykkur frá þegar móðir mín var hérna og við ásamt Ásu tásu fórum í indverska Shikh brúðarveislu. Við reyndar fórum ekki í brúðkaupið sjálft heldur í veisluna sem var daginn fyrir brúðkaupið(brúðkaupið stendur í 3 daga nefnilega). Við fórum í Chura sem er einskonar brúðarveisla, þar sem fjölskylda móður brúðarinnar er að senda hana af stað í faðm mannsins.
Þannig er mál með vexti að systir Parm vinkonu minnar var að fara að gifta sig og þess vegna vildi Parm endilega bjóða okkur til að sjá traditional Shikh brúðkaup. Jozeph var að vinna þannig ´mamma kom bara með í staðinn. Við mæðgur vorum voða nervus þegar við vorum að nálgast húsið, ég var helst nervus yfir að gera kannski einhvern skandal í brúðarveislunni og skemma fyrir öllum með því að gera eitthvað sem ekki má. Einnig bjóst ég við allskonar hefðum og dagskrá og allt yrði voða stíft eins og er stundum í brúðkaupum heima og allt voða heilagt þangað til allir eru orðnir drukknir.
Ekki alveg.
Skömmu eftir að við mættum fór húsið að fyllast af fólki og búið var að tjalda yfir garðinn, þar sem voru borð og stólar og matur var framreiddur. Ég og mamma settumst náttúrulega þangað og gæddum okkur á indversku góðgæti ýmiskonar. Síðan vorum við á elífu flakki inn og út úr húsinu því það var alltaf eitthvað að gerast inni sem við vildum ekki missa af. Fyrst voru konurnar í móðurætt brúðarinnar að syngja við útidyrahurðina til að móðga karlmenn í föðurætt hennar og meina þeim inngöngu. Þegar þeir voru loks komnir inn með fullt af gjöfum settust þeir úti í tjald að borða og drekka og hreyfðust minnst þaðan.
Síðan byrja konur að strá marglitum sandi í mynstur á litla fjöl á gólfinu og brúðurinn settist þar og var nudduð með turmerik paste til að jafna húðlitinn á meðan konurnar sungu og héldu yfir henni efnisbút. Á meðan á öllu þessu stóð var líka DJ að spila bhangra danstónlist og fólk að borða, karlar að drekka og börn að hlaupa út um allt. Þetta var semsagt ekki eins heilagt og ég hélt heldur frekar óreiðukennt og við vissum minnst hvað var að gerast, ég og móðir mín.
Eftir nokkra stund reis brúðurin á fætur og síðan var farið að taka upp gjafir og dreifa á stofugólfið svo allir gætu séð hversu vel hún var búin til að flytja að heiman og á meðan á því stóð var fólk allstaðar að, inni og úti, ekkert endilega að fylgjast með þessu og aldrei hreyfðust kallarnir og konurnar sungu. Eftir þetta var gjöfunum komið fyrir einhversstaðar og nokkrar konur byrjuðu að dansa með kerti á höfðinu í einskonar vasa. Þær sungu og klöppuðu og skiptust á að dansa með kertin. Aldrei hreyfðust kallarnir fyrr en að því kom að setja á hina verðandi brúður armbönd sem hún á að bera fyrsta mánuð eftir brúðkaup. Síðan fóru þeir aftur út í tjald. Á meðan á þessu stóð var í sífellu verið að ota að okkur mat, DJ-inn spilaði nútíma indverska danstónlist og konurnar sungu. Ása hljóp um allt með krökkunum og heyrðist með ákveðnu millibili "excuse me!!!" inni í mannþrönginni og þar var ungfrú Ása að pota sér á milli alls fólksins.
Þetta var voða flott og fínt brúðkaup og við skemmtum okkur vel þó að við værum hálf týndar í hvað væri að gerast. Pabbi brúðarinnar var mjög duglegur við að koma okkur á besta stað til að ég gæti tekið myndir af öllu saman og ýtti þá bara syngjandi konunum frá og bjó til stað fyrir okkur.
Við mættum klukkan sex og vorum til tíu um kvöldið og ég borðaði á mig gat af allskonar réttum en þegar við vorum að fara sagði Parm okkur að nú væri þetta rétt að byrja og aðalrétturinn að koma á borðið. Við urðum hálf kindarlega yfir að fara svona snemma en hún sagði okkur að það væri fullt af fólki farið en aldrei minnkaði mannmergðin í húsinu, þvi alltaf bættist við. Það var sem sagt ekki endilega mæting stundvíslega klukkan sex eins og við héldum, heldur mátti bara droppa við þegar maður vildi.

Þetta var hin besta skemmtun og ég mun reyna að koma myndum á netið til að sýna ykkur dýrðina.

Góðar stundir

spider-woman

þriðjudagur, mars 16, 2004

Jáhm!

Ég sé að hún frænka mín hefur eitthvað um þetta væl í mér að segja og í dag verð ég að segja að ég er bara mun hressari enda komist að því að vera einmana er mjög pródúktívt. Maður fer að gera allt til að vera ekki að láta sér leiðast, ´þ.á.m. að fara í leikfimi sem ég gerði áðan, læra sem er alltaf gott, taka til og skrifa blogg:)
Eins og einhver sagði í Hálsaskógi: 'Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott'.

Einnig má bæta því við að í dag er hitastigið nálægt 17 C, sól á himni og vor í lofti. Gaman gaman.


Hlakka til að sjá ykkur öll.

spider-woman (verðandi kroppur og ofurhúsmóðir)

mánudagur, mars 15, 2004

Þá er tími játninga genginn í garð. Það upplýsist hér með að ég spider-woman er bæði fordómafull, mjög meðvituð og líka drullu einmana. Þessar fullyrðingar útskýrast allar í neðangreindri frásögn.

Nú síðan Karenbeib flutti aftur til gamla landsins, Jozeph hóf að vinna á kvöldin og nágrannakona mín hún Zuzana flutti er ég ósköp einmana. Mig vantar sem sagt félaga sem finnst gaman að drekka bjór, horfa á sjónvarpið og spjalla um öll heimsins mál, slúðra, fara á kaffihús og skoða föt. (ég segi skoða föt því það er það sem ég geri í stað þess að kaupa). Ég var eitthvað að væla yfir þessu við konu sem er í doktorsnáminu með mér og hún stakk upp á því að ég myndi reyna að finna einhvern svona mömmuhóp svo ég geti hitt aðrar mömmur. Mömmuhóp?!? Það er líklega það síðasta sem mér hefði dottið í hug því að ég lít ekki fyrst og fremst á mig sem mömmu einhvers.

Ég sæi í anda að ef Jozeph væri einmana á Íslandi að honum yrði ráðlagt þetta, því í fyrsta lagi er þetta ekki til í heimi karlmanna held ég og í öðru lagi myndi einhver ráðleggja honum að fara í einhverja bardagalist því að er það sem hann hefur gaman að og myndi líklega kynnast öðrum gaurum þar til að fara með á pöbbinn. Ekki það að Jozeph myndi fara á pöbbinn en þið skiljið hvað ég er að fara.

Mig langar helst að hitta einhvern sem hefur gaman að ofantöldu en ekki sitja einhversstaðar og ræða agavandamál, skólagöngu barna, hvernig á að venja á kopp og svona. Ég held að ég yrði þá fyrst voða voða voða einmana og myndi fá smá þrýsting því það er fátt leiðinlegra en hópur af konum að tala um börn. Ég segi það og skrifa og stend við það. En í ljósi þess að ég er móðir hennar Ásu fannst þessari konu alveg rökrétt að ég myndi bara skreppa snöggvast í mömmuhóp og verða alveg voða ánægð. Og ég er það fordómafull að ég er búin að ákveða að ofangreind málefni séu það eina sem er rætt hjá mömmuhópnum.

Ég sagði konunni það að ég hefði ekkert til málanna að leggja í mömmuhóp og hún varð pínu kindarleg því hún sem yfirlýstur feministi hafði dottið í gryfjuna sem er svo djúp. Og það er gryfjan sem lætur mann draga fólk í dilka. Allar konur sem eru mömmur finnst rosa gaman að tala um börn og þeirra málefni en öllum köllum sem eru pabbar finnst gaman að ??? hmmm hvað passar hér. Það er nefnilega meira alltumlykjandi að verða mamma en pabbi.



spider-woman
og farnir aftur? ÞÆÐ
Vei íslensku stafirnir eru komnir aftur!!!!
ÞÆÐ prufa
??????... prufa
hmmm

föstudagur, mars 12, 2004

Jæja litlu vinir
Þá er móðir mín farin heim, sniff og snökt. Það var voða gott að hafa hana og ég vildi að hún hefði geta verið lengur. En eins og Ása segir þá þýðir ekkert að tala um það.
Það er ósköp lítið að frétta hérna í Englandi, það gengur allt sinn vanagang. Það er reyndar vona á gestaflóði um páskaleytið og þá munu Karenbeib og Atli kíkja við í Tanglewood og vonandi verður tekinn einn bjór við snúrustaurinn eins og í gamla daga. Mér heyrist Tóta líka vera á ferðinni um sama leiti og þá er bara að fara með hana á prinsinn held ég! Síðan koma Anna og Benni og þá verður líklega rúntað um charity búðir og mér heyrist að Anná sé búin að plana H&M ferð, þetta er einskonar pílagrímaför fyrir hana. Síðan fer ég til Íslands og verð í viku og þremur dögum eftir að ég kem heim kemur Hrund í heimsókn yfir helgi og þá verður aldeilis slett úr klaufunum og ábyggilega nokkrir bjórar teknir við snúrustaurinn.
Þannig að góðir dagar eru framundan.

Bless í bili

spider-woman

föstudagur, mars 05, 2004

Ég er greinilega á rangri hillu í lífinu, sæki um í leiklistarskólann þegar ég kem heim það er alveg pottþétt.
Annars er mamma hérna hjá okkur núna þannig það verður lítið bloggað á næstunni - ég vil jafnframt afsaka hér og nú hversu langt er síðan að ég bloggaði síðast. Nú reyni ég bara að halda ykkur ánægðum með því að taka próf á Internetinu.

Your future occupation by meteoric
Your name
Your future occupationActor/actress
Yearly income$275,428
Hours per week you work14
EducationOver 6 years of college
Created with quill18's MemeGen 3.0!



bestu kveðjur

spider-woman