mánudagur, mars 15, 2004

Þá er tími játninga genginn í garð. Það upplýsist hér með að ég spider-woman er bæði fordómafull, mjög meðvituð og líka drullu einmana. Þessar fullyrðingar útskýrast allar í neðangreindri frásögn.

Nú síðan Karenbeib flutti aftur til gamla landsins, Jozeph hóf að vinna á kvöldin og nágrannakona mín hún Zuzana flutti er ég ósköp einmana. Mig vantar sem sagt félaga sem finnst gaman að drekka bjór, horfa á sjónvarpið og spjalla um öll heimsins mál, slúðra, fara á kaffihús og skoða föt. (ég segi skoða föt því það er það sem ég geri í stað þess að kaupa). Ég var eitthvað að væla yfir þessu við konu sem er í doktorsnáminu með mér og hún stakk upp á því að ég myndi reyna að finna einhvern svona mömmuhóp svo ég geti hitt aðrar mömmur. Mömmuhóp?!? Það er líklega það síðasta sem mér hefði dottið í hug því að ég lít ekki fyrst og fremst á mig sem mömmu einhvers.

Ég sæi í anda að ef Jozeph væri einmana á Íslandi að honum yrði ráðlagt þetta, því í fyrsta lagi er þetta ekki til í heimi karlmanna held ég og í öðru lagi myndi einhver ráðleggja honum að fara í einhverja bardagalist því að er það sem hann hefur gaman að og myndi líklega kynnast öðrum gaurum þar til að fara með á pöbbinn. Ekki það að Jozeph myndi fara á pöbbinn en þið skiljið hvað ég er að fara.

Mig langar helst að hitta einhvern sem hefur gaman að ofantöldu en ekki sitja einhversstaðar og ræða agavandamál, skólagöngu barna, hvernig á að venja á kopp og svona. Ég held að ég yrði þá fyrst voða voða voða einmana og myndi fá smá þrýsting því það er fátt leiðinlegra en hópur af konum að tala um börn. Ég segi það og skrifa og stend við það. En í ljósi þess að ég er móðir hennar Ásu fannst þessari konu alveg rökrétt að ég myndi bara skreppa snöggvast í mömmuhóp og verða alveg voða ánægð. Og ég er það fordómafull að ég er búin að ákveða að ofangreind málefni séu það eina sem er rætt hjá mömmuhópnum.

Ég sagði konunni það að ég hefði ekkert til málanna að leggja í mömmuhóp og hún varð pínu kindarleg því hún sem yfirlýstur feministi hafði dottið í gryfjuna sem er svo djúp. Og það er gryfjan sem lætur mann draga fólk í dilka. Allar konur sem eru mömmur finnst rosa gaman að tala um börn og þeirra málefni en öllum köllum sem eru pabbar finnst gaman að ??? hmmm hvað passar hér. Það er nefnilega meira alltumlykjandi að verða mamma en pabbi.



spider-woman

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home