fimmtudagur, september 20, 2012

Góðan daginn allan daginn,

Við lentum í heilu lagi í Hong Kong, eftir voða fínt flug.  Síðan þá hefur tíminn liðið hjá í hálfgerðri þoku, þar sem við erum bæði að glíma við RISA jetlag!  Kennslan hefur gengið vel, nemendurnir eru æði og mjög áhugasöm.  Við erum ekki búin að túristast mikið enn sem komið er, dagurin í dag hefur mestur farið í að liggja í rúminu og horfa á sjónvarpið (ég veit að það má eiginlega ekki þegar maður er í útlöndum en þetta varð að gerast, annars myndi ég líklega fara að skæla í fyrirlestrunum á morgun og ég vil ekki hræða nemendurna góðu). 
Joseph er sem stendur í fatahreinsuninni að reyna að frelsa kljólana mína frá afar enthusiastic konu sem þvær allt í tætlur og hann gleymdi að segja henni að þeir væru dry clean only þannig að þeir koma líklega til baka nokkrum númerum minni.  En þar sem hún er voða nice og er vinkona okkar þá fyrirgefum við henni það.  Hún man meira að segja eftir okkur síðan í fyrra af því að við heitum sama nafni, þ.e.a.s. hún og ég.  Ég heiti nefnilega stundum Vivian í útlöndum af því að það er þægilegra.

Á hverjum morgni er Tai Chi kennsla í hótel garðinum, Joseph fer alla morgna og ég fer þá morgna sem ég er ekki að kenna.  Kennarinn er hann Master Cheung sem varð ægilega glaður að sjá joseph aftur.  Með honum er alltaf hópur af eldri borgurum sem taka þátt eða horfa á. Síðan er alltaf gömul kona með myndavél sem smellir af í gríð og erg og eftir fyrsta tímann sendi Cheung okkur myndir af okkur sem við erum búin að flissa yfir í nokkra daga.  Ég festi eina hérna, hún er ekki sú fyndnasta (sorry Ásdís, ég skal sýna þér þær seinna, ég vil ekki að þú verðir rekin úr vinnunni fyrir fliss í tíma og ótíma)
Látum þetta duga í bili, lofa að vera duglegri að skrifa og taka myndir.



fimmtudagur, september 13, 2012

Sæl og bless

Jæja litlu mýs.

Fyrst að þið hafið rekið inn nefið þá er það ábyggilega til að fylgjast með ævintýrum okkar hjónakorna í Hong Kong.

Eins og í fyrra, þegar þið gátuð fylgst með ferðalaginu á Facebook, þá er ég að fara að kenna stuttan kúrs í Kenningum í Félagsfræði við City University of Hong Kong fyrir hönd Sheffield Hallam University þar sem ég er stundakennari.

Mín aðalvinna er samt við The University of Manchester, nánar tiltekið Manchester Institute of Innovation Research þar sem ég vinn við rannsóknir já já.

Hong Kong er skemmtilegasti staður sem ég hef komið til og ég bilaðist af hamingju þegar Sheffield fólkið bað mig að fara aftur. Við fljúgum af stað á morgun og hér sit ég, allt í drasli, ekkert búin að pakka og hef mig ekki í neitt. 

Mig langaði að byrja á því að birta mynd af okkur sem við tókum í fyrra á ströndinni á Lamma Island sem er rétt fyrir utan Hong Kong.  Þetta er uppáhaldsmyndin hennar Ásdísar systur og mig langaði að gleðja hana :)