mánudagur, júlí 28, 2003

Jæja gott fólk
Þá er ég komin "heim" eftir góða dvöl í gamla landinu. Ég á að vera að vinna í rannsókn og ritgerðasmíð en ætla mér að skrifa pínu og svo fer ég að byrja. Ég vil byrja á að þakka öllum sem ég hitti samveruna, sérstaklega móður minni sem hýsti mig og gaf mér þessa fínu vetrarskó. Skósafnið mitt tók mikinn vaxtarkipp í Íslandsdvölinni og stækkaði um þrjú skópör sem öll gegna mikilvægum hlutverkum. Ég fékk semsagt vetrarskó, hælaskó og netskó. Netskórnir gera tánum kleift að anda í heita landinu, svo eru hælaskórnir svona bandaskór, voða fínir við pils og vetrarskórnir... tja... það segir sig sjálft held ég bara. Það er af sem áður var þegar maður var á sínum andspyrnuárum og fór um allt í hermannaskóm, skipti þá engu hvort um var að ræða brúðkaup, útilegur eða bara einfalt djamm. Það voru einfaldir tímar skal ég segja ykkur.
Annað er það að frétta að við erum búin að kaupa okkur bíl hérna í landinu með vinstri umferðinni. Það var fíni bíllinn sem talað er um hér fyrr í mánuðinum sem varð fyrir valinu. Lítill hvítur Ford Fiesta og það er líklega það eina sem ég get sagt ykkur um hann í bili. Það er verið að redda tryggingar og skráningarmálum og fyrr fæ ég hann ekki á götuna. Hann er nefnilega skráður í N-Írlandi og þess vegna er hann víst svona lítið keyrður. Veit ekki með N-Írana hvort þeir fara sinna ferða bara labbandi eða í strætó eða hvort að hlutfall gamall kvenna sem fara í kirkju einu sinni í viku bílandi er mjög hátt þar.
Jæja elsku fólk á Íslandi hafið það sem best og það var gaman að hitta ykkur öll.

spider-woman

P.S. Það voru allir voða fúlir viðmóts í Flugstöð Leifs Eiríkssonar... hvað er með það???? Er verið að búa ferðamenn undir víkingaandann sem á að ríkja á Íslandi? (Svona, ég ætla að stela konunni þinni og brenna húsið þitt attitude) Ef einhver veit á þessu skýringar er sá/sú hinn sami/hin sama (voða erfitt að vera svona feministi) vinsamlega beðin/n um að hafa samband!

mánudagur, júlí 14, 2003

Hjálp hjálp ég er að bráðna.
Ég hef enga hugmynd um hversu heitt er úti en ég er alveg við það að gefast upp hérna í Uxbridge i þessum hita. Maður labbar um léttklæddur og samt kemur maður heim í svitabaði og pínu kátur af því að það er búið að flauta svo mikið á mann. Karlmenn margir saman í bíl, sérstaklega virðist það loða við iðnaðarmenn á pallbílum, eru aldeilis ófeimnir við að hrópa kalla og flauta á konur þar sem þær labba um í sakleysi sínu. Svona er maður nú hot ;)
Ég og Ása komum heim til Íslands 16. júlí nk (leiðréttist hér með) sem er bara á miðvikudaginn. Hlakka voða mikið til að sjá ykkur öll sömul.

kv

spider-woman

mánudagur, júlí 07, 2003

Æ afsakið afsakið alla daga!
Ef einhvern nennir enn að fara hérna inn og athuga hvað er í gangi þá er ég voða þakklát því ég geri mér grein fyrir að við erum ekki búnar að vera neitt duglegar að blogga undanfarið og skömmumst okkar hrikalega. Það er bara mest lítið í fréttum hérna megin hafsins, ég og Ása komum heim þ. 16.júní, ég fer aftur 26.júní en Ása verður áfram og dundar sér sitthvað í faðmi föður síns og annarra fjölskyldumeðlima á Íslandi næstu 6 vikurnar. Það er nefnilega sumarfrí hjá henni krúttu þessar vikur. Þá ætlar mamma hennar að leggjast alvarlega í netspilamennsku og gera voða fína rannsókn/ritgerð. Síðan byrja ég í University of Surrey í október, ef guð lofar. Ég er að líta eftir bílum hérna í Englandi og prófaði einn í gær og ekki fór betur en svo að ég keyrði utan í gangstéttarbrún, ég var nefnilega að passa mig svo mikið að vera vel til vinstri. Ég átti í mestu vandræðum með að skipta um gír þar sem gírstöngin er vinstra megin og ég er ein af rétthentustu (er þetta orð??) manneskjum sem stigið hafa á þessa jörð, þó ég sé örveygð (sjá færslu að neðan um bogamennskuraunir mínar í Brunel).
Ég hef enga hugmynd um bíla og segi bara it looks nice, það er það sem ég hef til málanna að leggja í þeim efnum. Jozeph er ekki mikið betri þó hann sé karlmaður og eigi að hafa þetta í sér.
Ása var að fá umsögn frá skólanum eftir þetta síðasta ár og fékk þessa líka fínu umsögn, barnið er náttúrulega mikil snillingur og með eindæmum gáfuð og held ég að hún hafi það frá mér ;) Hún var reyndar lasin í síðustu viku greyið en er að jafna sig smátt og smátt.
Jæja læt þetta duga í bili og lofa að vera duglegri!


spider-woman