sunnudagur, maí 27, 2007



Jæja þá er farið að róast hjá mér og þá er kominn tími til að kommenta aðeins á þennan nauðgunarleik sem virðist hafa tekið Ísland með stormi. Best er að taka það fram að ég er ekki að verja þennan leik á neinn hátt, ég er aðeins að velta honum fyrir mér og deili þessum vangaveltum með ykkur.
Ég googlaði þennan leik og hann er komin frá japönsku leikjafyrirtæki sem virðist vera framleiðandi af mjög “sérhæfðum” leikjum. Þeir virðast framleiða leiki sem eru ætlaðir fyrir japanskan markað og þá aðallega svo kallaða hentai leiki sem eru erotiskir/klám manga leikir. Manga eru japanskar teiknimyndir sömu gerðar og t.d. Princess Mononoke og Pokemon. Hentai leikir eru ekki leikir sem almenningur á vesturlöndum þekkir mjög vel, þeir eru ekki seldir í leikjaverslunum og myndi ég áætla að um væri að ræða leiki sem eru frekar mikið á jaðrinum. Ég þekki ekki hversu útbreiddir þeir eru í Japan en veit að Japanskir leikir geta verið mjög góðir en líka “mjög sérstakir” enda framleiddir fyrir allt annað samfélag og allt aðra menningu.

Internetið hefur verið dásamað fyrir gera jaðarmenningum auðveldara fyrir að skapa sér sess og sérstaklega hefur verið einblínt á tónlistarmenn í því samhengi. Allir tónlistarmenn geta nú dreift sinni tónlist án þess að vera með plötusamning og tónlistaráhugamenn geta skipst á tónlistarskrám og skoðunum. Einnig hefur verið bent á að baráttuhópar geti núna gert baráttu sína sýnilegri og komið skilaboðum sínum á framfæri. En um leið og Internetið gerir hlutina auðveldari fyrir “sakleysingja” sem berjast fyrir góðum málstað og tónlistarmenn sem berjast í bökkum þá má gera ráð fyrir því að jaðarmenningar sem eru minna “viðurkenndar” muni líka finna þar stað til að breiða út boðskap sem er af öðrum toga. Hentai er ekki nýtt af nálinni í Japan en með tilkomu Internetsins hefur það dreifst um heiminn og er núna aðgengilegt fyrir alla sem hafa aðgang að nettengdri tölvu. Þannig hefur þessi “leikur” borist til Íslands og ég held að það sé alveg óþarfi að álykta að núna sé allt á leið til glötunar. Alveg eins og blómálfaáhugamenn skiptast á upplýsingum á netinu svo gerir hentai áhugafólk.

Varðandi þennan leik þá las ég um hann gagnrýni og hérna virðist á ferðinni fyrirbæri sem er varla hægt að kalla tölvuLEIK…þar sem það virðist ekki vera mikið challenge á ferðinni og mér sýnist að sá sem situr við stjórnvölinn geti ekki tapað heldur hafi allt vald í sinni hendi. Þannig ég efast stórlega um að tölvuleikjaáhugamenn muni flykkjast um þennan leik að einhverju viti þar sem að leikja-elementið virðist vanta að mestu leyti. En þar sem umfjöllun á mbl.is hefur séð vel um að auglýsa þennan leik kæmi mér ekki á óvart að fyrir forvitnissakir muni niðurhal á honum á Íslandi aukast. Skiptir engu þó að hann hafi verið fjarlægður af torrent.is það er hægt að nálgast hann á ótal marga aðra vegu þar sem síður eins og torrent eru út um allt.


*þessi mynd að ofan er ekki úr leiknum

sunnudagur, maí 20, 2007

Þetta er allt að koma - en þangaði til verður lítið bloggað. Ég skil ekki ennþá hvernig ég komst hingað en held að hjálp Mýslu og Jozephs hafi vegið hvað mest.

Síðan kann ég þessum listamanni einnig miklar þakkir en hann hefur bjargað geðheilsu minni margoft með hressandi reiðum lögum og með hann í heyrnartólunum hef ég raðað inn mörgum ágætis orðum. Það hefur fátt gert mig jafn brjálaða í skapinu og þessi doktorsritgerð og þar sem að hún er alveg óáþreifanleg er erfitt að fá útrás fyrir reiðina á henni og þá hefur rokktónlist alveg bjargað málunum. Þangaði til ég blogga næst verðiði bara að hlusta á hann og dansa með :D

þriðjudagur, maí 08, 2007

Í dag á mýsla allra landsmanna afmæli og er níu ára gömul. Hún heldur upp á daginn með sushi veislu með súkkulaðiköku í eftirrétt. Mýslan lengi lifi húrra húrra húrra

föstudagur, maí 04, 2007

Nú eru, að mér skilst, nokkrar vikur þangað til reykingabann tekur gildi á veitingastöðum á Íslandi. Það kom nefnilega í ljós að fólki þótti ekki gott að láta blása reyk yfir sig í tíma og ótíma og núna verður það bráðum bara alveg bannað. Ég sem tómstundareykingakona hef aldrei látið reykingar fara mikið í taugarnar á mér en hinsvegar er önnur mengun sem getur gert mig alveg brjálaða og það er andleg mengun sem felst í því að þurfa að sitja undir röfli í fólki um útlendinga. Það virðist nefnilega vera að fólk sem hefur hvað mesta þörf fyrir að tjá sig um þessi mál á afar erfitt með að hugsa aðeins útfyrir allar klisjurnar og margtuggnu steypuna sem það hefur heyrt hjá öðrum skoðanasystkinum sínum.

Allra verst finnst mér það fólk sem heldur því fram að það hafi enga fordóma gagnvart (hér má setja 1 stk þjóðernishóp eða bara alla útlendinga ef því er að skipta) og sé ekki rasisti. Það sem er nefnilega mergurinn málsins er að fordómar og rasismi eru ekki bara 1 stk af hugmynd sem hefur haldist óbreytt í hundruð ára. Hvort tveggja er safn hugmynda sem breytast frá degi til dags og þess vegna er mikilvægt að: í fyrsta lagi að gera sér grein fyrir að allar manneskjur hafa fordóma og í öðru lagi að það er naudsynlegt að bera kennsl á og íhuga sína eigin fordóma með reglulegu millibili. Því um leið og fólk heldur að það sé algerlega fordómalaust þá er voðinn vís. Fordómar eru nefnilega svo "sneaky" og þeir láta á sér bera á ólíklegustu stundum.

Ég hef gengið með þennan pistil í maganum síðan ég var að las litla ritgerð sem fjallaði um rasisma. Í þessarri ritgerð fjallaði nemi um og fordæmdi þrælahald en tók síðan til við að alhæfa um að innflytjendur í Bretlandi að þeir rottuðu sig saman í hverfum, herjuðu á Breta með ghettovandræðum, væru allir á bótum og meinuðu konunum sínum að fara einar síns liðs út að versla.

Þessi höfundur virtist nefnilega þess fullviss að hann hefði enga fordóma, hann var jú ekki fylgjandi þrælahaldi og fannst sú grimmd sem viðgekkst varðandi blökkufólki á þeim tíma alger fjarstæða. Þess vegna hafði hann sofnað á verðinum og gleymt að íhuga þær hugmyndir sem hann hafði um annað fólk sem stóð honum nær í tíma og rúmi. Það sem hann var að telja upp í ritgerðinni hélt hann að væru staðreyndir því að fordómar voru það svo sannarlega ekki. Þess vegna fannst honum alveg rakið að láta þessar hugmyndir flakka. Síðan sé ég fyrir mér að ef spjallið berst einhvern tíma að innflytjendum þá geti þessi ágæti nemandi básúnað þessar hugmyndir yfir vini og vandamenn sem geta síðan komið þeim áleiðis lengra og lengra. En það er svo sem í lagi því enginn þeirra hefur neina fordóma.

Málið er hinsvegar að enginn er undanþeginn og þá meina ég enginn.
Hér koma nokkrar algengar ástæður fyrir því að fólk telur sig vera algerlega fordómalaust en ég verð að segja að þú ert ekki fordómalaus þótt þú:

Sért heimsforeldri
Hafir farið sem skiptinemi
Hafir farið erlendis í háskólanám
Sért háskólagenginn
Hafir unnið fyrir Rauða Krossinn í Malawi
Hafir farið í safarí um Afríku
Eigir erlenda vini
Eigir erlendan maka
Ættleiðir börn erlendis frá
Hafir farið til Singapour í 3 vikur
og svo mætti áfram telja....


Góða helgi