mánudagur, október 29, 2012

Hassbolti

Á sunnudaginn eignaðist Milli forlátan hassbolta henni til mikillar gleði.  Milli er bolta hundur mikill og finnst afskaplega gaman að sækja bolta sem ég fleygi út í loftið.  Þetta verður þó að gerast í öruggu umhverfi svo að hún geti einbeitt sér.  Þess vegna heimsækjum við stundum Joseph í vinnuna en þar er stór garður sem hægt er að hlaupa um.  Á sunnudaginn vorum við að leika með bleikan bolta, ein eitt skiptið kom Milli afar hróðug til baka með gulan tennisbolta sem  hún hafði fundið í grasinu og hún vildi bara leika með hann, svo að við tókum hann með heim og hann fór í boltakörfuna í stofunni.  Nokkrum klst síðar kemur Ása heim úr heimsókn og segir "Mamma, það er rosalega mikil hasslykt í stofunni"* og viti menn, það var alveg rétt hjá henni. Við gátum þó ekki fundið út hvaðan hún kom og ég lagði til að kannski væri þetta af imolíu sem ég hafði verið að brenna fyrr um daginn. 

Í dag var það sama sagan og eftir mikið þef fann ég út að lyktin kom frá nýja boltanum sem Millie hafði fundið.  Eftir miklar pælingar mundum við að svæðið sem að Joseph vaktar er notað fyrir þjálfun lögregluhunda og við getum okkur þess til að boltinn sé þeirra þjálfunartæki.

*Mér finnst ég verði að útskýra núna af hverju Ása þekkir hasslykt en það er vegna nágranna okkar sem búa í þarnæsta húsi.  Þau eru hassfólk mikið og reykja sér til skemmtunar úti í garði þannig að lyktin fer ekki framhjá neinum.  Löggan er búin að brjóta niður hurðina þeirra einu sinni en þau reykja samt bara áfram glöð í bragði.

Segiði svo að það sé ekki allt að gerast hérna í Sheffield

Fréttaskot: Kona skemmdi ekki Bítlana

Voðalega hefur Paul McCartney setið lengi á þessum sannleika að Yoko Ono hafi ekki skemmt Bítlana, hann gæti nú hafa ælt þessu út úr sér fyrr til að losa hana undan þessarri ægilegu ábyrgð.

föstudagur, október 26, 2012

Að vinna heima

Undanfarna mánuði hef ég verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að vinna mest heima við tölvuna mína.  Ég fer í lest til Manchester 1-2svar í viku á fundi og þess háttar en annars er ég bara hérna heima að tölvast.  Við þetta eru ýmsir kostir en einnig ókostir sem hérna verðar frekar reifaðir:

Kostir:
Ég get farið út að labba með Millie á morgnana og hitt hundavini okkar
Ég get unnið í náttfötunum/hundagöngufötunum
Ég get hlustað á asnalegustu tónlist í heimi á meðan ég vinn og þarf ekki að nota headphones OG ég get sungið með (nema þegar Joseph er heima)
Ég er heima þegar Ása kemur heim og þá get ég spurt hana skemmtilegra spurninga eins og "Hvernig var í skólanum í dag?" og "Geturðu komið með tebolla handa mér?"

Ókostir:
Ég get unnið í náttfötunum - ekki smart að eyða heilum degi í náttfötunum er það?
Stundum tala ég mjög mikið við Millie af því að hún er eina lifandi veran í kringum mig (eins og lesendur vita þá er hún heyrnarlaus)
Stundum þarf ég að þrífa ofninn meira en ég þarf að vinna
Það eru lítil skil á milli heimilis og vinnu - þetta hélt ég alltaf að væri bara eitthvað nýaldarröfl en þessi skil eru mjög mikilvæg.

Já þannig er nú það.

föstudagur, október 19, 2012

The Button Tin

Segir nú af ferðum mínum til Rotherham þar sem ég eyddi síðasta Sunnudegi í að læra að búta til Vintage fylgihluti hjá Gemma Nemer í The Button Tin, ásamt Lizzie og Zoey.  Í krúttlegasta litla húsi í Rotherham er lítil vinnustofa þar sem hægt er að sækja eins dags námskeið hjá Gemmu í að búa til allt mögulegt.  Hún kennir fólki að sauma kjóla, búa til skartgripi og hatta.  Ein af megin ástæðunum sem ég ákvað að blogga um þetta á íslensku er að sýna ykkur myndirnar af vinnustofunni og því sem við bjuggum til.  Það var rosalega notalegt að eyða þarna degi við að sauma og hlusta á gamla tónlist.  Það var mikið um tedrykkju og í lok dagsins var boðið upp á kökur.  Gemma er mjög hjálpleg og vinaleg, endilega heimsækið bloggið hennar.  Ef þið komið í heimsókn þá getum við skellt okkur á námskeið kannski.


The Button Tin er í þessu litla húsi sem er inn í öðru stærra húsi. Mér skildist á Gemma að þetta væri gamalt viktorianskt hús sem var rekið sem markaður.  Núna eru litlar búðir og kaffihús í plássinu sem umlykur The Button Tin.


 Plássið er fagurlega skreytt með fallegu vintage dóti.


 Zoey gerði þessar litlu eyrnalokka og stóra blómið er hárspenna.



 Ég bjó til dökkbláa armbandið og hvítu næluna.  Græna armbandið er sýnishorn frá Gemma.

Eins og sést var mikið te drukkið á meðan á föndrinu stóð.

Fjallaferðir Þórdísar og Millie

Jæja litlu mýs.

Í gærkvöldi, þegar ég var andvaka, las ég nokkur af gömlu bloggunum mínum og skemmti mér gríðarlega vel.  Í fyrsta lagi var ég rosalega fyndin og í öðru lagi var fullt af kommentum í gamla daga frá góðu fólki.  Þetta var áður en Facebook kom og eyðilagði allt.  Mig langaði að vita hvort að einhver les ennþá þetta blogg, ef svo er viljiði kvitta í komment.  Það væri voða gaman að sjá ykkur.

Í fréttum er það helst að ég og Milli vorum að koma af hundafundi og nú er ég að reyna að koma mér af stað í vinnu en mundi allt í einu að ég þurfti að blogga smá.  Aðalfréttirnar eru nú samt að ég ætla að kaupa mér bíl fyrir Hong Kong peninginn minn þannig nú eyði ég mörgum stundum á netinu að skoða bíla. Mig vantar lítinn bíl sem er samt með nógu stóru skotti fyrir einn hund eða kannski tvo hunda.  Þegar bíllinn er kominn í höfn ætlum ég og Milli nefnilega að brenna yfir í The Peak District sem er bara korters keyrsla í burtu.  Ég sé fyrir mér í hillingum að það verði svona "The Great Outdoors" (sagt með skoskum hreim) stemming.  Ég er farin að skoða gönguskó á netinu líka þannig að það styttist í að ég verði fjallakona mikil.  Djöfull verður það spennandi!!

kveð í bili

föstudagur, október 12, 2012

Millie

Mér finnst ég verði að kynna lesendur bloggsins fyrir henni Millie.  Ásdís, þetta verður eina færslan sem ég skrifa um Millie, ég lofa!

Millie er mikið gæðablóð sem hefur búið hjá okkur í næstum ár.  Þegar við fluttum í þetta hús þá kynntumst við hundinum honum Reebok sem er alveg ofsalega kátur og vinalegur, næstum eins og gangandi auglýsing fyrir hunda.  Eftir að hafa knúsað Reebok kannski aðeins of mikið fyrir smekk eigenda hans ( ég held að þau hafi haft smá áhyggjur af því að við ætluðum að stela honum frá þeim) þá ákváðum við að fá okkur hund.  Við ákváðum að fá okkur eldri hund frá dog rescue og byrjuðum að leita á Internetinu.  Hér kemur smá viðvörun, það eru óteljandi margir hundar í Dog Rescues hérna í Bretlandi og þeir eru allir voða sætir og mann langar að taka þá alla heim.  Hérna þurfti Joseph aðeins að skerast í leikinn því ég og Ása sátum kvöld eftir kvöld og skoðuðum vefsíður og sögðum awwwww eigum við að taka þennan og þennan og þennan. 

Síðan kynnti vinkona mín hún Lynne okkur fyrir Wiccaweys sem sérhæfir sig í að taka inn Fjárhunda (Border Collie og aðra Collie Hunda) og þar fundum við hana Millie. Við keyrðum síðan niður til Kettering og hittum hana og leist svona agalega vel á hana að hún kom með okkur heim.

Þegar heim var komið kom í ljós að Millie var um það bil hræddasti hundur sem ég hef nokkurn tíma komist í kynni við og það var næstum ómögulegt að fara með hana í göngutúr.  Hún var hrædd við fólk, hjól, bíla, ruslatunnur og bara allt sem varð á okkar vegi.  Þannig að draumurinn sem ég hafði séð fyrir mér að verða svaka hundakona sem skokkaði, labbaði og hjólaði með hundinn minn var pínu ónýtur.  Ég var í staðinn toguð í allar áttir, inn í garða, yfir götur og var orðin alveg uppgefin og tognuð í hægri hliðinni. 

Fólkið á Wiccaweys hafði látið í það skína að Millie hefði ekki átt sjö dagana sæla í sínu fyrra lífi en við leiddum það eitthvað hjá okkur af því að hún var svo róleg þegar við hittum hana.  Hún kemur frá Írlandi og hefur greinilega átt að verða fjárhundur af því að það er búið að klippa oddinn af vígtönnunum á henni.  Hún er heyrnarlaus og höld á vinstra framfæti þar sem hún hefur annað hvort flækst í vír eða lent í refagildru.  Hún er mjög hrædd við ókunnuga sem þýðir líklega að einhver hefur verið vondur við hana í den.

Núna er næstum ár síðan að við hittum Millie fyrst og hún er eins og allt annar hundur.  Hún er reyndar enn hrædd við skokkara og fólk á hjóli en er orðin bara svaka hugrökk og við röltum hérna um hverfið í ró og næði (svona oftast).  Við erum búnar að eignast fullt af hundavinumog mætum á hverjum morgni í hunda labb með 4 öðrum konum.  Þegar maður verður hundaeigandi þá lendir maður í því að verða meðlimur í félagi hundaeigenda og fer að spjalla við ókunnugt fólk með hunda og bjóða góðan daginn og svona - afar krúttlegt allt saman.

Þetta er stutt saga um hana Millie gæðablóð.  Hún er svo stór hluti af okkar daglega lífi að mér fannst ég þurfa að kynna hana fyrir ykkur.

þriðjudagur, október 09, 2012

"Sem heitir réttu nafni"...

Af hverju eru íslenskir fjölmiðlar svona staðfastir á því að allir fái að vita "rétt nafn" listamanna?  DV er nú búið að tyggja á því hvað rétt nafn Lady Gaga sé núna sem dögum skiptir.  Ég tók líka eftir þessu þegar fréttir bárust enn af Marilyn Manson að íslenskir fjölmiðlar þurftu að koma á framfæri réttu nafni hans og þáverandi konunnar hans Dita von Teese.  Google segir mér að það séu, á víðáttum alnetsins, 17,300 skipti þar sem orðaröðin "sem heitir réttu nafni" er notuð.

Hvað er málið?  Svör óskast í kommenti?

föstudagur, október 05, 2012

Meiri myndir

Best að skella inn fleiri myndum sem ég náði í á símanum hans Joseph.  Ég verð að viðurkenna að ég er ennþá alveg rosa þreytt og samt er vika síðan við lentum.  Viljiði segja mér að þetta sé alveg eðlilegt og að ég sé ekki eymingi takk takk.

 Þarna er ég og fleira fólk í Hong Kong.



 Nathan Road, þar sem hótelið okkar var.
 Kona í gulu pilsi.
 Joseph var enn pínu skemmdur eftir rútuferðina eins og sést.
 Þetta fína listaverk var á almenningsklósettinu hjá honum stóra Búdda. Joseph dundaði sér við að taka mynd af því á meðan hann róaði taugarnar eftir rútuferðina ógurlegu.  Ég beið fyrir utan og hélt að hann væri strokinn eða kannski bara í yfirliði.

 Ég var rosalega hrifinn af þessarri styttu af því að hún er með svo góðlegt augnaráð. 
 Þórdís á viskustígnum, sjáiði ekki alla viskuna!
 Joseph og hermaður hanans.  Haninn er kínverska stjörnumerkið hans Josephs sem kemur engum á óvart.
Joseph gekk til liðs við Wing Chun klúbb í tvær vikur og eignaðist voða góða vini.

þriðjudagur, október 02, 2012

Loksins myndir

Ég er nú meiri svikahrappurinn.  Lofa öllu fögru en ekkert gerist.  Mér til afsökunar hef ég mikla þreytu sem hlýst af því að kenna félagsfræðikenningar hinum megin á hnettinum og tæknilega örðugleika við að ná myndum af símanum mínum.  Fartölvan mín vildi bara ekkert kannast við að það væru neinar myndir á símanum mínum í Hong Kong.  Ég hef núna kynnt símann fyrir alvöru tölvunni minni og þau virðast vera betri vinir.  Ég ætlaði að kaupa mér myndavél í Hong Kong en þreytan og bónusbuddan hann Joseph komu í veg fyrir það. 

Núna erum við komin heim við mikinn fögnuð fjölskyldumeðlima og vina og í stuttu máli var ferðin algert æði.  Við fengum svaka flott hótelherbergi með stæsta rúmi sem sögur fara af.  Síðan við komum heim erum við endalaust að slást í okkar litla rúmi og tautum í svefnrofunum "we definitely need a bigger bed".  Einn veggurinn á hótelherberginu var bara einn stór gluggi með svaka flottu útsýni yfir Kowloon, sem kætti okkur mikið. 

Þessar ferðir eru oft dulítið skrýtnar af því að það fer svo mikil orka í að komast yfir í rétt tímabelti og síðan að þurfa að kenna annan hvern dag 2x3kls fyrirlestra í senn. Þannig að það fór mikill tími í að plana allt það sem við ætluðum að gera en síðan var ekki alveg nóg fylgt eftir.  Við náðum þó að heimsækja Lamma Island og Lantau Island sem eru eyjar fyrir utan Hong Kong.  Þá komumst við á bát, við mikinn fögnuð frá mér (þarf að fara að redda mér fleiri bátsferðum) og síðan smá rútuferð upp á fjall, við lítinn fögnuð Josephs af því að hann varð voða bílveikur og neitaði næstum að fara aftur í rútuna svo við kæmumst heim.  Ég hélt á tímabili að við þyrftum að setjast að á Lantau Island.

Á Lantau Island heimsóttum Po Lin Monastery og Risastóru Búddastyttuna.   Ég var alveg hugfangin af styttunni.  Hún er hol að innan og þar er safn þar sem má ekki tala né taka myndir.  Ég held svei mér þá að þetta sé eftirminnilegasti staður sem ég hef heimsótt.
Á Lamma Island vorum við bara í væflinu, fundum okkar litlu strönd þar sem ég tíndi skeljar og hitti hund sem ég tók myndir af (já ég er orðin þannig manneskja sem tekur myndir af ókunnugum hundum - hjálp óskast)

Heyrðu, hérna eru nokkrar myndir til að gleðja ykkur.  Ég set inn fleiri þegar ég næ í símann hans Josephs. Hann er með magnaðar myndir af mér þegar við heimsóttum the path of wisdom.  Stay Tuned