miðvikudagur, júlí 14, 2010

Hvað er í gangi í Álftanesskóla?

Á feministapóstlistanum barst mér póstur frá konum sem vildu draga athygli að svokölluðu stráka- og stelpuvalfögum sem eru í boði fyrir nemendur Álftanesskóla. Eftirfarandi lýsingar eru teknar beint upp úr námsskrá Álftanesskóla:

“Stelpuval
Þessi valgrein verður kennd að hluta til með valgreininni Strákaval. Rætt verður um ólík viðhorf og áhugamál kynjanna. Í Stelpuvali verður farið í helstu áhugamál stelpna s.s : Hvað er í tísku? Spáð verðu í fatnað, skó, liti, förðun og heilsa. Förðun. Undirstöðu námskeið í förðun. Dagsförðun, kvöldförðun og málað eftir myndum eða jafnvel láta sköpunargleðina ráða ríkjum. Farið verðu í umhirðu og þrif húðar.
Hvað er fræga fólkið, hér á landi og erlendis, að gera þessa dagana? Skoðuð
verða slúðurblöð og farið á netið til að fylgjast vel með öllum.

Þátttakendur
Stelpur í 8., 9. og 10. bekk
Námsmat
Námsmatið byggir á virkni í tímum og umræðum. Lokamat verður á formi
einkunnarinnar lokið/ólokið og umsögn
Námsgögn
Eigin förðunarvörur
Kennari: Guðrún Ólafía Þorleifsdóttir


Strákaval
Þessi valgrein verður kennd að hluta til með valgreininni Stelpuval. Rætt verður um
ólík viðhorf og áhugamál kynjanna.
Í Strákavali verður farið í helstu áhugamál drengja s.s:
Helstu úrslit helgarinnar
Bílar og bílaíþróttir
Tækni og vísindi
Þátttakendur
Strákar í 8., 9. og 10. bekk
Námsmat
Námsmatið byggir á virkni í tímum og umræðum. Lokamat verður á formi
einkunnarinnar lokið/ólokið og umsögn
Kennari: Svavar Ó Pétursson”

(
http://www.alftanesskoli.is/Files/Skra_0042634.pdf blaðsíða 11 and 12)

Ég held að þetta tali nú alveg fyrir sig sjálft en mig langar aðeins að ræða þetta.

Hvað er eiginlega í gangi hér? Er sem sagt búið að ákveða núna fyrir fullt og allt að kynin hafi ólík viðhorf og áhugamál og er síðan farið að út í að festa þessi áhugamál í sessi. Er sem sagt búið að ákveða að stelpur hafi ekki áhuga á tækni, vísindum og íþróttum og þær eigi bara að vera heima að mála sig og fylgjast með hvað fræga fólkið er að gera? Er heilsa og tíska eitthvað sem er ekki fyrir stráka?

Hér er ekki einungis verið að ýta undir löngu dauðar staðalmyndir heldur beinlínist verið að viðhalda þeim í gegnum skólastarf, þar sem jafnrétti ætti að vera ofar öllu! Þessi skilaboð sem þarna er verið að senda ungu fólki eru alveg út úr kortinu og ég yrði mjög reið ef að Ása kæmi heim með þessa námsskrá. Ása hefur mjög mikinn áhuga á vísindum og tækni og er farin að finna fyrir því frá jafnöldrum að þetta sé kannski ekki nógu stelpulegt að hafa áhuga á þessu en sem stendur er henni alveg sama – ég yrði brjáluð ef að þessi sömu skilaboð kæmu síðan frá skólanum sjálfum.

Síðan vil ég líka bæta við að mér finnst ekki vera metnadarfullt skólastarf að kenna krökkum að lesa íþróttaúrslit og slúður.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home