föstudagur, febrúar 28, 2003

Núna í dag er rigning sem er kannski ekki í frásögur færandi hérna í Englandi. Ég var hinsvegar búina að gleyma því að hún væri til og þess vegna varð þetta dálítið áfall. Ég hef reyndar ekki frá neinu að segja svo sem en ákvað láta aðeins frá mér heyra. Ég og Ása erum alltaf eitthvað að vesenast og ég reyni að hafa ofan af fyrir henni með því að fara í bæinn og fara í hringekju og síðan á bókasafnið þar sem hún getur leigt spólur og bækur. Hún leigði hina stórskemmtilegur Disney mynd um hann Hróa Hött og spurði mig síðan hvort að Hrói Hött væri ekki Pizza Hött á ensku:) Þetta kætti mína litlu sál ósegjanlega og ég ákvað að deila þessu með ykkur.
Ég fór út að borða í gærkvöldi með henni Ásu sem er hérna í Brunel líka að leggja stund á Medical Anthropology. Við vorum saman í mannfræðinni heima og ákváðum að láta loks af því verða að hittast, við erum nú bara búnar að vera í sama skóla síðan í október en erum svo rosa busy að við getum aldrei hist;) Það fór voða vel um okkur á uppáhalds indverska veitingastaðnum mínum og við héldum heim á leið glaðar í bragði.
Ef eitthvað gerist þá læt ég ykur vita.

Spider-Woman

miðvikudagur, febrúar 26, 2003

Hún ungfrú Ása er núna að skrifa bréf til pabba síns. Þetta er sú sama Ása sem nennti ekki að læra að skrifa en núna ryður hún úr sér stöfum og heilu orðunum. Stafirnir eru ekkert alltaf í réttri röð en það skiptir nákvæmlega engu máli finnst okkur hérna. Orðin eru ýmist á ensku eða íslensku og teikningarnar eru alveg stórglæsilegar.
Nú þegar ég er búin að monta mig yfir hversu stórgáfað barnið mitt er þá vil ég láta alla vita sem vilja heyra að vorið er komið og grundirnar gróa. Í dag var voða hlýtt og ég fór í bæinn án peysu, bara bol og gallajakka og var bara ekkert kalt. Keypti mér sólgleraugu þó að sólin væri nú ekki alveg að drepa mig en betra er að vera viðbúinn. Það er nú það ... ekkert meira í fréttum nema bara allt gott!

Spider-Woman hin bjartsýna

þriðjudagur, febrúar 25, 2003

Nú þarf ég aðeins að röfla aðeins ;) Ég er nefnilega dyggur lesandi mbl.is þar sem ég er svona útflutt manneskja. Þar var voða skrýtin frétt í dag um mann sem var dæmdur í 7 ára fangelsi fyrir tvær líkamsárásir á sambýliskonu sína. Í fyrra skiptið ákvað dómari að árásin hafi verið tilefnislaus en í annað skiptið reitti konan manninn til reiði og var það dæmt honum til refsilækkunar. Í þetta seinna skipti "réðist hann einnig á konuna á heimili hennar, handleggsbraut hana og skar með hnífi á vinstri augabrún og vinstra megin á háls svo hún hlaut þar djúpt 4,7 sentímetra langt sár og slagæð og bláæð skárust í sundur." (mbl.is 25.02.03). En af því að konan var að reita hann til reiði þá er þetta ekki alveg jafn alvarlegt!!!! Það er metið til refsilækkunar... nú er ég farin að hljóma eins og rispuð plata en ég bara á ekki til fleiri orð til að lýsa því hvað ég er hneyksluð. Handleggsbrjóta og skera fólk á háls og í andlit.... það er nú ekki nógu gott en fyrst þú varst svona reiður þá skil ég það vel!!! Þessar kellingar eru alltaf eitthvað að röfla og reita mann til reiði!!! Hneyksl hneyksl!!!
Annars er bara allt við það sama hérna í Tanglewood... ég og Ása skiptumst á að spila tölvuleiki, hún er orðin mjög glúrin spilari og spilar grimmt allskonar leiki á bbc.co.uk, ef einhverjir lesendur eiga börn á þessum aldri þá ættuð þið að tékka á þeim. Henni finnst einnig mjög skemmtilegt að sitja við hliðina á mér og horfa á mig spila og kemur oft með góð ráð ef að mamma er eitthvað að pirrast... heyrðu mamma það er allt í lagi að hún dó (persónan mín) hún lifnar bara við aftur og þá sækjum við dótið hennar. Alger gullmoli þetta barn og svona stórgáfuð.
Jæja gott fólk
lifið í lukku en ekki í krukku

Yours sincerely
Spider-Woman

mánudagur, febrúar 24, 2003

Þá er maður búinn að jafna sig eftir erfiðu helgina og reynir bara að lifa lífinu lifandi á ný. Ása tása er í skólafríi þessa viku og finnst það bara fínt. Hún þarf af þeim sökum að koma með mér í tíma á morgun en henni og skólafélögum mínum finnst það bara voða gaman. Af okkur er það að frétta að við fórum inn í Southall í gær þar sem búa bara Indverjar og fólk frá þeim slóðum heims. Þar er götumarkaður sem spilar indverska tónlist, selur indverskan mat, fatnað og matvörur. Allir þar voru Indverskir í útliti nema ég, Ása og svona 7 aðrir hvítingjar. Ása vakti mikla athygli með hvíta hárið og vegna þess hvað hún er mikið krútt. Hún skemmti sér hið besta og ég líka og við héldum glaðar heim á leið þar sem ég eldaði ungverska gúllassúpu. Svona var þetta nú fjölmenningarlegur dagur. Í dag gerðist mest lítið nema hvað við fórum á bókasafnið og tókum spólur og bækur og svo er ég að dunda mér við að spila tölvuleik á netinu í kvöld. Ég er alveg með afbrigðum tapsár stúlka og fer bara í fýlu ef þetta gengur ekki alveg eins og ég vil.. Er það nú mannfræðingur!!! Ætli sófamannfræðingarnir í den hafi líka fengið svona fýluköst þegar mannæturnar neituðu að gera eins og þeir vildu?? Best að reyna að finna það út sem snöggvast. Annars allt gott hér í Englandinu góða!!

Bless kex

Spider-Woman

laugardagur, febrúar 22, 2003

Úfffffffffffffff.........voða erfið þynnka í gangi á þessum enda í dag. Ég er alveg að gefast upp á öllum þessum timburmönnum og ætla aldrei að drekka aftur;) Í þetta skipti meina ég það alveg. Allavega.... við fórum semsagt út á lífið í gær í Uxbridge og máluðum hann rauðan...from top to bottom... Við þrjár íslensku stúlkurnar stóðum okkur sannarlega vel í landkynningunni og mér finnst að ferðamálaráð ætti að borga okkur ágætis fjárhæðir fyrir greiðann. Ekki nóg með að við værum sætastar í bænum heldur vorum við líka fyndnastar og skemmtilegastar. Ég og Karenbeib áttum í löngum samræðum við hann Matthew en skildum mest lítið hvað hann var að segja vegna þess að hann var svo hás og við heyrðum ekkert fyrir tónlistinni. Við létum það ekki aftra okkur og hófum samræðulistina upp á æðra plan og ræddum Snorra Sturluson and the sagas. Þetta var alveg brilliant kvöld og fyrrihluti dags hefur farið í að rifja upp og hlæja að allri vitleysunni. Eftir leigubílaferðina þá komum við í Safeway hérna á horninu eins og vanalega og ég held að ég geti ekki farið þangað í svona tvær vikur... rétt til að leyfa þeim að gleyma allri steypunni sem fór fram þar í gærkvöldi.
Ég hef fengið kvörtun vegna síðustu færslu frá manneskju sem finnst að fólk sem býr í heimsborgum eigi ekki að skrifa um íslenskar landbúnaðarafurðir. Við þessa sömu manneskju vil ég bara segja.... að allur heimsborgarabragurinn er ekki á færi námsmanna þar sem hann er svo dýr...sniffffff.... Við bara vinnum borðum og sofum hérna í Uxbridge og í staðinn fyrir að fara í Bónus þá förum við í Tesco.... Lestu bara eitthvað annað blogg Helga ef þér finnst ég vera eitthvað sveitó og leiðinleg... ;)
Gvuð!! Landlordinn okkar var að koma og húsið er í rúst af því að húsmóðirin er þynnri en tyggjóplata. Sem betur fer kom hún ekki inn því þá hefðum við ábyggilega verið reknar út á götu.
Annars er bara allt gott úr Tanglewood Close held ég bara og ég sendi kveðjur heim,,, hafið það sem best litlu snillingar!

Spider-Woman hin þunna

fimmtudagur, febrúar 20, 2003

Mér finnst enskar agúrkur vondar og ég sakna íslensku agúrkunnar í allri sinni dýrð. Ég bið hér með um að einhver skili þessum orðum til Guðna Ágústssonar sem að ég dýrka og dái. Ef hann er upptekinn við að dæma fegurð búfénaðar þá má bara skilja eftir skilaboð á dyrinni. Blah... það er svo sem ekkert að frétta héðan, karenbeib er að sækja systu á flugvöllinn as we speak, ætli við förum ekki síðan á pubbinn. Við erum nebblega búnar að finna nýjan pubb hérna í nágrenninu sem heitir The Turks Head. Veit ekki hvað það er með alla þessa pöbba sem heita The King's head og Queen's head, en þetta er greinilega voða vinsælt. Það væri kannski ekki svo vitlaust að Vestmanneyingar stofnuðu útibúið Höfuð Tyrkjans svona til að minna á Tyrkjaránið og allt það. Bara hugmynd svona í skammdeginu. Það er hlýrra í dag þannig þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af að við verðum úti...blah blah blah ég nenni ekki að blogga meira í dag, þetta er allt sama steypan.
Vaya con Dios alle sammen

Hinn lati armur
Spider-Woman

miðvikudagur, febrúar 19, 2003

Vá hvað er kalt hérna í London þessa dagana, þetta er alveg hrikalegt og ég er farin að efast stórlega um að það muni nokkurn tímann hlýna! Ég er ekki að djóka það er ógeðslega kalt....ég hélt að ég myndi verða úti áðan þegar ég var að bíða eftir strætó. En það var voða gott að koma heím úr vinnunni og kuldanum og fá heita tómatsúpu hjá Þórdísi...hún er svo mikil perla.
Ég fer að vinna á morgun og svo fer ég í 5 daga frí....Fannsa sis er nefnilega að koma í heimsókn á morgun jibbískibbídú...ég hlakka alveg rosalega til að hitta hana. Fer og sæki hana á Heathrow kl. 19:30 á morgun...20 mín með strætó þangað....mjög þægilegt að sækja fólk á flugvöllinn héðan úr Uxbridge...við skulum nú vona að það verði allt með kyrrum kjörum þar.
Jæja krúttin mín....blogga meira síðar

Karenbeib skrifar úr kuldanum í Londres

þriðjudagur, febrúar 11, 2003

Góðan daginn allan daginn

Ég sé að hún karenbeib hefur látið á sér kræla og látið vita af sér og sínum högum. Ég komst því miður ekki á Íslendingafélagsþorrablótið vegna anna við barnauppeldi og húsmóðurstörf eins og mér einni er lagið. Ása er bara hress fyrir utan það að hún vill ekki læra að skrifa, henni finnst þetta hinn mesti óþarfi og bara hreinlega leiðinlegt að vera að skrifa stafi þegar maður getur gert margt annað skemmtilegra. Ef einhver á í pokahorninu einhver ráð með að kenna börnum að skrifa þá er sá hinn sami beðinn um að hafa samband. Tekið skal fram að ég er búin að reyna allt sem mér dettur í hug, mútur, hótanir, hrós og skammir.. En það gengur ekki baun. Núna er ég búin að kaupa pakka fyrir hana sem hún má opna eftir að heimalærdómi er lokið og það kemur í ljós hvernig það gengur.
Ég var að byrja aftur í skólanum í dag og fór í fyrsta tíma hjá góðu konunni eins og hún er kölluð hérna í Tanglewood. Það er feministakonan sem leyfir stúdentum að koma með börn í tíma, þ.e.a.s mér því ég er eini stúdentinn í Englandi, virðist vera, sem á barn. Hún mundi meira að segja eftir mér síðan í haust og spurði hvernig uppeldið og skólagangan hennar Ásu gengju.
Síðan fór ég í bæinn og þá hringir Maggie móðir Jozephs og spyr mig hvernig þetta sé eiginlega með alla þessa hermenn á Heathrow flugvelli. Ég kem alveg af fjöllum en þá segir hún mér að það sé mikið terror alert í gangi og herlið sé á Heathrow til að gæta öryggis allra. Mér líst ekkí á þetta þar sem hann Jozeph er að vinna þarna við öryggisvarðastörf en nú eiga allir sem vettlingi geta valdið að krosslegja fingur og óska að allt fari vel.
Alþjóðamálin eru ekki beysin þessa dagana, stríð og hryðjuverk virðist vera það sem öllum dettur í hug að finna sér til dægrastyttingar. Mér persónulega finnst að allir ættu að taka upp skemmtilegri iðju en það er víst lítið hlustað á eitt stk. mannfræðigrey í Englandi.

Jæja hafið það gott alle sammen

hinn áhyggjufulli armur spider-woman

mánudagur, febrúar 10, 2003

Sælt veri fólkið...ég verð nú að byrja á því að biðjast afsökunar á skrifleysi mínu..reyni að vera duglegri héðan í frá.
Það er allt gott að frétta af karenbeib...ég ætla nú aðeins að segja ykkur hvað ég hef verið að gera síðan ég skrifaði síðast fyrir e-m mánuðum síðan...úff ég er nú alveg hrikaleg :/
Ég byrjaði s.s. að vinna um miðjan nóvember eftir mikið strögl við að finna vinnu...ég var reyndar bara 2 vikur í þeirri vinnu því ég fékk aðra betur launaða og var snögg að skipta. Ég er í allt í lagi vinnu...vinnan kannski ekki mest spennandi..er að vinna við data entry sem þýðir að ég sit og pikka upplýsingar inn í tölvu allan daginn. Það er allt í góðu...allavega mjög fínt fólk sem ég er að vinna með...svona flest allt...reyndar ekki yfirmaðurinn minn...hún er mjög stressuð og ofan á allt stressið þá held ég að hún sé líka á breytingarskeiðinu þ.a hún skiptir skapi eins og henni sé borgað fyrir það...frekar erfið gella.
Ég er að vinna í bæ sem heitir Slough...hann er ekki svo langt í burtu ef maður er á bíl...en þar sem að ég ferðast um strætó þá er þetta klukkutíma ferð. Dagurinn minn gengur þannig að ég vakna klukkan sex...ég er ekki að grínast!!! þetta er náttúrulega algjör geðveiki! fer út kl 6:40 í strætó og svo í annan strætó til Slough og er mætt í vinnuna kl átta. Ég fæ nú oftast far heim þ.a það nú strax betra...er komin heim svona um sex, sjö leytið.
En ég ætla nú ekkert að röfla meira um það.
Ef þið voruð ekki búin að frétta af því þá eyddi ég jólunum með sætasta strákinum mínum í París...við vorum þar í fimm frábæra daga:) Æðsilegur tími...og við höfðum það rosaleg gott.
Ég fór á þorrablót Íslendingafélagisins hér í London á laugardaginn..það var mjög gaman og maður hitti þarna fullt af fólki sem maður hefur ekki séð í langan tíma og hafði ekki hugmynd um að byggi hér í Londres.
Jæja nú er ég að spá í að fara að koma mér í rúmið þar sem ég er enn hálf dösð eftir djamm helgarinnar....er sko búin að vera frekar stjörf í allan dag. Ég, Atli og Dísa skelltum okkur nefnilega á lókalinn (local pöbbinn okkar sem heitir Prince of Wales) og urðum smá hífud hihihihi of svo var það blótið á laugardaginn tralalaala hik.....held sko að ég sé að verða aðeins of gömul til að fara á djamm tvo daga í röd....ég meina maður er nú orðinn 22F hihihihi
Þar til síðar
Anna Karen

þriðjudagur, febrúar 04, 2003

Hún Ása tása er mikill spekingur þegar hún tekur sig til og hérna koma nokkur gullkorn um dauðann.

Ég var að knúsa hana um daginn og þá sagði hún eitthvað á þessa leið: Mamma það er langt þangað til þú deyrð er það ekki? Þú deyrð ekkert fyrr en þú ert orðin gömul og ég er orðin stór. Nokkrum stundum síðan sagði hún: Veistu mamma að þegar þú deyrð þá verð ég eins og Lína (Langsokkur) og sef með fæturna á koddanum. Fyrir þá sem ekki þekkja sögurnar um Línu Langsokk þá á hún ekki mömmu og sefur með fæturna á koddanum og þá á það náttúrulega við um alla sem eiga ekki mömmu!

Ég er búin að vera voða dugleg í leikfimi og sturturnar eru mér enn mikið gleðiefni og allt fína sjónvarpsefnið og tónlistin sem maður getur valið úr miklu úrvali. Annars er ég búin að vera í miklu skrifræðisstríði hérna í Brunel sem ég fer ekki frekar út í vegna hversu leiðinleg saga þetta er. Ég vil bara segja til námsmanna á Íslandi að ég sakna bara Lánasjóðsins eftir þetta allt saman og Nemendaskrá Háskólans er bara alveg draumur í samanburði. Reyndar lenti ég aldrei í neinu veseni með þær en heyrði um nokkur vesen sem ég læt óskýrð hér. Bretland er með sönnu land skrifræðis og ég segi bara Húrra húrra húrra fyrir því hvað Bretar eru duglegir að standa í röð, annars væri borgarastyrjöld.
Allt ætlar um koll að keyra í Englandi í dag yfir þættinum um Michael Jackson sem var sýndur í gær. Hann Mikki er svei mér skrýtin skrúfa og minnti mig allra helst á unglingspilt sem veit ekki hvort hann er enn krakki eða fullorðinn. Öll röksemdarfærsla var í mjög barnalegum dúr og minnti mig stundum á hana Ásu tásu þegar hún er að neita því að hafa klippt Ponyhestana sína þrátt fyrir að ég hafi séð hana gera það! Hann Mikki fór ekki í neinar lýtaaðgerðir og hélt því alveg statt og stöðugt fram að útlit hans væri því um að kenna að hann hefði simply vaxið úr grasi! Hann er óhemju "egocentrískur" og skilur ekki þegar er verið að gagnrýna hann enda held ég að enginn geri neitt mikið af því að gagnrýna hann hvort sem það er fyrir að veifa ungabörnum út um glugga eða halda náttfatapartý með börnum. Hann veit að það er rangt en samt vill ekki heyra neina gagnrýni og verður bara þver ef eitthvað er verið að setja út á og þykist ekki skilja hvað vandamálið er! Sem sé hann virkar á mig sem unglingaveikur ofdekraður piltur sem á of mikið af peningum!
Þannig er nú það! Síðan er búið að vera í fréttum geimskutluslysið og þetta er allt tuggið ofan í mann aftur og aftur og ég er næstum viss um að ég gæti bara byggt geimskutlu eftir þessar útskýringar allar. Las góða grein í Guardian í dag þar sem höfundur spyr: Af hverju heyrum við allt um 7 geimfara sem láta lífið í geimskutlusprengingu en bara nokkur orð um 7 ungmenni sem láta lífið í snjóflóði í Canada? Fer ekki meira út í það en þetta er eitthvað til að hugsa um að mínu mati.

Annars eru Bretar ekki á eitt sáttir um stríðið sem hann Blair vill endilega fara í með vini sínum Bush og mikil mótmæli eru plönuð á 15, febrúar inni í London. ég held ég haldi mig heima enda treysti ég mér ekki að fara með Ásu alla leið inn í London í svona heit mótmæli. Verst að missa af því.
Loksins heyrðist eitthvað frá honum Saddam sjálfum í viðtali sem Tony Benn tók við hann. Það var ansi hressandi tilbreyting frá málaflutningi hershöfðingja, leyniþjónustumanna og stríðsbrjálaðra forseta. Nefni engin nöfn en það er allt farið að hljóma eins og rispuð klisjuplata með flottum frösum sem hann Bush tyggur ofan í mann í tíma og ótíma.

Þá er ég búin að koma frá mér því sem mér lá á hjarta og sem betur fer er ekkert kommentakerfi á þessari síðu þannig að þið getið ekkert sagt til baka og gagnrýnt neitt! HAH! HAH! Þannig á að hafa þetta, múgurinn á bara að þegja eins og sumum einræðisherrum finnst heyr heyr ;) Það skal samt tekið fram að þessar skoðanir endurspegla ekki endilega skoðanir annarra íbúa í Tanglewood

Eigið góðar stundir

hinn pólítski armur spider-woman