þriðjudagur, febrúar 04, 2003

Hún Ása tása er mikill spekingur þegar hún tekur sig til og hérna koma nokkur gullkorn um dauðann.

Ég var að knúsa hana um daginn og þá sagði hún eitthvað á þessa leið: Mamma það er langt þangað til þú deyrð er það ekki? Þú deyrð ekkert fyrr en þú ert orðin gömul og ég er orðin stór. Nokkrum stundum síðan sagði hún: Veistu mamma að þegar þú deyrð þá verð ég eins og Lína (Langsokkur) og sef með fæturna á koddanum. Fyrir þá sem ekki þekkja sögurnar um Línu Langsokk þá á hún ekki mömmu og sefur með fæturna á koddanum og þá á það náttúrulega við um alla sem eiga ekki mömmu!

Ég er búin að vera voða dugleg í leikfimi og sturturnar eru mér enn mikið gleðiefni og allt fína sjónvarpsefnið og tónlistin sem maður getur valið úr miklu úrvali. Annars er ég búin að vera í miklu skrifræðisstríði hérna í Brunel sem ég fer ekki frekar út í vegna hversu leiðinleg saga þetta er. Ég vil bara segja til námsmanna á Íslandi að ég sakna bara Lánasjóðsins eftir þetta allt saman og Nemendaskrá Háskólans er bara alveg draumur í samanburði. Reyndar lenti ég aldrei í neinu veseni með þær en heyrði um nokkur vesen sem ég læt óskýrð hér. Bretland er með sönnu land skrifræðis og ég segi bara Húrra húrra húrra fyrir því hvað Bretar eru duglegir að standa í röð, annars væri borgarastyrjöld.
Allt ætlar um koll að keyra í Englandi í dag yfir þættinum um Michael Jackson sem var sýndur í gær. Hann Mikki er svei mér skrýtin skrúfa og minnti mig allra helst á unglingspilt sem veit ekki hvort hann er enn krakki eða fullorðinn. Öll röksemdarfærsla var í mjög barnalegum dúr og minnti mig stundum á hana Ásu tásu þegar hún er að neita því að hafa klippt Ponyhestana sína þrátt fyrir að ég hafi séð hana gera það! Hann Mikki fór ekki í neinar lýtaaðgerðir og hélt því alveg statt og stöðugt fram að útlit hans væri því um að kenna að hann hefði simply vaxið úr grasi! Hann er óhemju "egocentrískur" og skilur ekki þegar er verið að gagnrýna hann enda held ég að enginn geri neitt mikið af því að gagnrýna hann hvort sem það er fyrir að veifa ungabörnum út um glugga eða halda náttfatapartý með börnum. Hann veit að það er rangt en samt vill ekki heyra neina gagnrýni og verður bara þver ef eitthvað er verið að setja út á og þykist ekki skilja hvað vandamálið er! Sem sé hann virkar á mig sem unglingaveikur ofdekraður piltur sem á of mikið af peningum!
Þannig er nú það! Síðan er búið að vera í fréttum geimskutluslysið og þetta er allt tuggið ofan í mann aftur og aftur og ég er næstum viss um að ég gæti bara byggt geimskutlu eftir þessar útskýringar allar. Las góða grein í Guardian í dag þar sem höfundur spyr: Af hverju heyrum við allt um 7 geimfara sem láta lífið í geimskutlusprengingu en bara nokkur orð um 7 ungmenni sem láta lífið í snjóflóði í Canada? Fer ekki meira út í það en þetta er eitthvað til að hugsa um að mínu mati.

Annars eru Bretar ekki á eitt sáttir um stríðið sem hann Blair vill endilega fara í með vini sínum Bush og mikil mótmæli eru plönuð á 15, febrúar inni í London. ég held ég haldi mig heima enda treysti ég mér ekki að fara með Ásu alla leið inn í London í svona heit mótmæli. Verst að missa af því.
Loksins heyrðist eitthvað frá honum Saddam sjálfum í viðtali sem Tony Benn tók við hann. Það var ansi hressandi tilbreyting frá málaflutningi hershöfðingja, leyniþjónustumanna og stríðsbrjálaðra forseta. Nefni engin nöfn en það er allt farið að hljóma eins og rispuð klisjuplata með flottum frösum sem hann Bush tyggur ofan í mann í tíma og ótíma.

Þá er ég búin að koma frá mér því sem mér lá á hjarta og sem betur fer er ekkert kommentakerfi á þessari síðu þannig að þið getið ekkert sagt til baka og gagnrýnt neitt! HAH! HAH! Þannig á að hafa þetta, múgurinn á bara að þegja eins og sumum einræðisherrum finnst heyr heyr ;) Það skal samt tekið fram að þessar skoðanir endurspegla ekki endilega skoðanir annarra íbúa í Tanglewood

Eigið góðar stundir

hinn pólítski armur spider-woman

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home