föstudagur, febrúar 25, 2005

Á meðan ég man....þetta með reykingabannið hennar Sivjar... ég verð nú aðeins að tjá mig um það eftir að hafa lesið rifrildi og fyrirlestra á vefsíðum, kommentakerfum og málefnum.is undanfarið. Þau rök sem mér finnst best eru eitthvað á þessa leið:

“Sko.... mér finnst alveg óþolandi að þegar maður fer út að skemmta sér eða á kaffihús þá þarf maður að fara í sturtu og þvo fötin sín þegar maður kemur heim”.... já akkúrat það sem mér finnst þegar ég er búin að fara í leikfimitíma... þá þarf ég að fara í sturtu og þvo fötin mín.... enda er ég löngu búin að gefast upp á þessari leikfimivitleysu.

Númer tvö er að vitna í einhverja könnun um hversu margir myndu fara oftar út á lífið eða á kaffihús ef reykingar yrðu bannaðar, eða halda því sama fram um sjálft sig. Almennt er fólk voða upptekið af vinnu, skóla, börnum og áhugamálum og finnst kannski bara alveg ágætt að hanga heima og horfa á sjónvarpið eða vídeó í staðinn fyrir að fara á kaffihús, enda er alltaf leiðilegt veður og engin bílastæðahús sem eru sambyggð kaffihúsum. Það er voða auðvelt fyrir fólk að segja já við þeirri spurningu í hita reykingahaturs, en kannski þarf að velta betur fyrir sér fleiri ástæðum fyrir því að fólk fer ekki út á lífið eða á kaffihús. Þannig að fara á kaffihús er bara almennt vesen, skítt með reykinn. Síðan fer sumt fólk bara ekki út á lífið enda er það hið mesta rugl, fullt af fullu fólki útum allt að vesenast þannig að lets face it... sumt fólk er bara boring og nennir ekki neinu en finnst gott að kenna reykingum um allt.

Er ekkert hægt að ræða að skipta kaffihúsum og skemmtistöðum í reyk/reyklaus pláss og þá meina ég ekkert hálfkák eins og að hafa reyk/reyklaus borð hlið við hlið með handriði á milli. Þarf alveg að hafa algeran fasisma í þessarri umræðu allri????

Það að skipta á milli hefur gefist mjög vel á mínum háskólapöbb sem er nýbúið að breyta í reyk og reyklaust og reykplássið er með megaloftræstingu, þannig að ef maður stendur undir henni þá sogast hárið á manni upp í ásamt öllum reyknum. Það er opið á milli en það er ekki að finna neinn reyk í reyklausa rýminu. Barinn er reyklausa megin þannig að starfsfólkið er hólpið fyrir reyknum. Síðan skröltir fólk þarna á milli eftir behag, eftir því hvort það er að reykja eða ekki og allir eru vinir, og ef fólki er illa við að fara í sturtu og þvo fötin sín þá er þetta alveg tilvalið.

spider-woman
Nú er komið að skylduræknisbloggi. Það er nákvæmlega ekkert að frétta héðan, ég er bara að vinna að sk.review document sem eru drög að 3 köflum doktorsritgerðar minnar sem ég þarf að skila áður en ég kem heim um páskana og svo þarf ég að verja verkið þegar ég kem til baka fyrir þartilgerðri nefnd. Nefndin síðan ákveður hvort að ég fæ að halda áfram náminu. Reyndar er ég svo heppin að nefndin mín er skipuð einkar almennilegu fólki. Aðalgagnrýnandinn skrifaði til að mynda doktorsritgerð sína um Gothfólk og hér er hlekkur á bókina sem hann svo gaf út í kjölfarið. Það er vel við hæfi því eins og sum ykkar vita þá förum við Jozeph stundum á gothstaði að skemmta okkur og höfum komið okkur upp ágætis gothfataskáp fyrir þau tækifæri. Kannski maður dressi sig bara upp fyrir nefndina :D

Mýsla er hress og Jozeph líka og ég líka og þar með er það upptalið

geisp

spider-woman---- alveg tóm

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Í fréttum er það helst að ég hef ákveðið að nota bloggvettvang þennan til að koma út úr skápnum og viðurkenna að ég er hef óhemju gaman af væmnum lögum. Þar má helst telja rokkballöður ýmisskonar svona eins og voru vinsælar þegar ég var unglingur í sífelldri ástarsorg og hlustaði á rólegt og rómantískt áður en ég fór að sofa.

Þessa játningu mína má rekja til þess að við gerðumst núna áðan svo fræg að borga napster fyrir að fá að downloda lögum af netinu fyrir 69pí stykkið. Þetta er náttúrulega alveg fatal dæmi því svona buff eins og ég verða alveg óð og byrja í einhverju nostalgíukasti að leita að lögunum síðan í gamla daga. Fyrst á listanum var Carrie með hinni feykivinsælu hljómsveit Europe sem hélt tónleika í Laugardagshöll þegar ég var ca 13 ára, þangað fór ég í joggingalla og horfði með andakt á þá flytja m.a. The Final Countdown.
Þvínæst komu lögin Never Say Goodbye og I'll be there for you með Bon Jovi - þvílík gleði, síðan set ég inn lögin af nýja Guns'n'Roses disknum mínum og svo get ég sett saman playlista með öllum þessum demöntum og kallað hann tja..... rólegt og rómantískt.
Held samt ég verði ein um þessa nostalgíurómantík því Jozeph er ekki jafn spenntur og ég fyrir þessarri músík... enda var hann svo ungur greyið, hann skilur þetta ekki ;) Hann bara felur andlit í höndum sér og stynur þungan og hugsar til baka þegar hann hélt að ég væri í alvöru svolítið kúl og röff.

Those were the days my friend....

spider-woman (fjórtán á ný)

ps. ef þið munið eftir einhverjum góðum ballöðum endilega látið vita í kommenti

mánudagur, febrúar 14, 2005

Ósköp var grátið mikið í sófanum hérna í Guildford í gærkvöldi. Tilefnið var þetta, sem sagt voru í gær sýnd myndbrot af 100 "sorglegustu" atvikum í bíómyndum og sjónvarpi hérna í Bretlandi. Ég er eins og flestir vita mikil áhugamanneskja um grát og sat þess vegna við frá átta um kvöld til rúmlega ellefu og felldi ófá tárin. Ég kaus í kosningunni á sínum tíma eftirfarandi og mér til mikillar gleði komust allar myndirnar að í sæti:

Cinema Paradiso - í endann þegar hann horfir á filmurnar sem gamli bíómaðurinn hafði klippt saman, allar ástarsenurnar sem höfðu verið klipptar út í gegnum tíðina til að þóknast kaþólsku kirkjunni. (58. sæti)

Love Actually - þegar Emma Thompson uppgötvar að maðurinn hennar gaf hálsmenið einhverri annarri konu. (90. sæti)

Four Weddings and a funeral - Þegar John Hannah les ljóðið eftir W.H. Auden í kirkjunni yfir kistu kærastans síns (26. sæti)

Breaking the Waves - Þegar Emily Watson fer og sefur hjá sjómönnum til að gera manninum sínum kleift að ganga á ný, þeir misþyrma henni svo illilega að hún deyr. (42.sæti)

Brief Encounter - í endann þegar þau þurfa að kveðjast og eiga nokkrar mínútur saman og einhver óþolandi skellibjalla sest hjá þeim fyrir smá slúður og eyðileggur kveðjustundina (18.sæti)

Síðan komu inn gullmolar eins og Terms of Endearment, Forrest Gump, Love Story og The Remains of the Day og að klukkutíma liðnum kom Jozeph með klósettrúllu og setti við hliðina á mér. Hann kallaði jafnframt fram öðru hvoru.... er allt í lagi með þig?
Ég verð reyndar að viðurkenna mikil vonbrigði með topp tíu listann þar sem voru meira og minna myndir sem ég felldi engin tár yfir. Eins og td Titanic.... hver grét yfir þeirri mynd? Ég var ólétt þegar ég sá Titanic og ég sem grét alla meðgönguna leit á Titanic sem þriggja tíma hlé frá gráti og felldi bara ekki eitt einasta tár! Síðan voru margar myndir sem komu mér mjög á óvart eins og Braveheart, The Gladiator og mega ruslmyndin Mr Holland's Opus sem ég og Ásdís höfum gert grín að síðan við sáum hana fyri hundrað árum. (Beautiful Cole)

En ég náði nokkuð góðum gráti, sérstaklega þegar þau byrjuðu að tala um Cinema Paradiso þá opnuðust flóðgáttirnar og ég grét alveg frá henni og yfir í Jerry MacGuire.... "you had me at hello".

Svona er maður nú einföld sál... en að gráta er gott fyrir sálina...

spider-woman í vökvaþurrð

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Alveg óvart datt ég inn á síðu þar sem voru myndir úr íslenskri leiksýningu og þá varð ég svo þakklát fyrir að það er ekki skylda að fara í leikhús. Öll þessi togstreita, ást í leynum, sifjaspell og framliðið fólk og MJÖG skýr framburður gera mig ósköp þreytta.

Í þessu tilefni samdi ég íslenskt örleikrit:

Faðir og sonur eru á útgerðarskrifstofu úti á landi

Faðir: Svo þú ætlar þér að flytja suður?
Sonur: Já, það eru engin tækifæri hér lengur.... þorpið er að deyja smátt og smátt....
Faðir: En hvað með Sonju og barnið?
Sonur: Þau verða hér... hún vill hvort eð er ekkert með mig hafa
Faðir: Þú veist hvað útgerðin stendur höllum fæti
Sonur: (hækkar róminn) Ég var aldrei búin að lofa einu né neinu...
Faðir: en hvað með móður þína? Hvað heldurðu að hún segi um þetta, fárveik konan?
Sonur: Hún hefur alltaf skilið mig betur en þú... þú varst aldrei heima í öll þessi ár... alltaf að vinna .... eða hjá Lóu hans Geirs
(Föður er augljóslega brugðið)
Sonur: Já ... við vitum öll af henni, en mamma vildi aldrei segja neitt því hún myndi vernda þig fram í rauðan dauðann...

(nú heyrist bankað á hurðina)



með leikhúskveðju

spider-woman

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Nú búum við eins og lesendur vita í miðbæ Guildford í Surrey sýslu og hérna býr aðallega mjög ríkt eldra fólk og ungt vel efnað fólk sem vinnur í London og kýs að búa hér því það er stutt að fara með lestinni inn til Waterloo. Í Surrey eru fleiri lögreglumenn á hvern íbúa en annarstaðar í Bretlandi og ég hef séð fleiri lögreglumenn í Guildford í þessa 6 mánuði sem ég hef búið hér heldur en í þau 2 ár sem ég bjó í London. Hérna býr ríkt fólk sem vill fá að vera í friði fyrir lögbrjótum og þess vegna hefur lögreglan í Guildford tekið upp á því að varpa myndum af óróaseggjum á hlið verslunarmiðstöðvarinnar. Þetta sá ég í fréttum í gær og var svo sem ekki hissa því Guildford er hið mesta hægrisinnaða yfirstéttarbæli (ritskoðað) en ég varð hinsvegar mjög pirruð! (9.2.2005 *hóst* aðeins orðin rólegri og búin að breyta aðeins samkvæmt athugasemdum föður míns.)

ASBO (Anti-social behaviour order) er nýtt refsikerfi sem hefur verið tekið upp í mörgum bæjum og borgum þar sem fólki yfir 10 ára aldri getur verið ávísað ASBO fyrir að gerast sekt um andfélagslega hegðun. Td að vera full á almannafæri, pissa á götuna, vera með ólæti, veggjakrot og allt sem getur talist ónæði við almenning. Ef að persóna sem er með ASBO er tekin aftur af lögreglu á hún á hættu fangelsisvist. Oftast felst í ASBO að afbrotamanninum er bannað að fara á ákveðna staði, t.d í miðbæinn og myndir af honum/henni eru gerðar opinberar til að fólk geti örugglega þekkt hann/hana og hringt á lögregluna ef að honum/henni dettur í hug að fara í bæinn aftur. Til dæmis má nefna einn ógæfumann sem var fullur í miðbænum og meig á götuna. Nú hefur lögreglan í Guildford tekið upp þá nýbreytni að varpa myndum af ASBO fólki á hlið verslunarmiðstöðvarinnar hér í bæ. Auk myndar er stutt lýsing á afbroti, t.d var fullur og pissaði á götuna og er fólk vinsamlegast beðið um að hringja í lögregluna svo að hún geti komið og handtekið hann og stungið í steininn.

Ég á því miður mjög fá prenhæf orð til að lýsa því sem mér finnst um þetta. En vil þó segja það að mér blöskraði alveg hrottalega. Fyrir mér er þetta eitt skýrasta dæmi um gríðarlega skiptingu milli ríkra og fátækra í Bretlandi. Ógæfufólki er nú meinað að umgangast þá sem betur hafa það. Það á bara að vera heima hjá sér í fátækrahverfinu og þar má það pissa á götuna eins og það vill. Með þessum úthlutunum á ASBO er verið að takmarka rými þeirra sem eru með vesen og aðskilja frá þeim sem betur hafa það og reynt er að takmarka ferðir þeirra við hverfið sem þeir búa í. Með því getur vel efnaða og vel uppalda fólkið haldið áfram að lifa í sinni sápukúlu i fallega bænum sínum vitandi það að fátækrahverfin eru langt í burtu og enginn sem þar býr kemst út án þess að eiga á hættu að vera stungið í steininn.

Það er til fólk hérna í Bretlandi sem á svo ótrúlega erfitt og er í svo miklu rugli, kynslóð eftir kynslóð og býr í ömurlegum hverfum, með brotnar rúður og lekandi þök. Þar eru færri löggur, lélegri heilsugæsla, verri skólar, feður, mæður, bræður og systur í fangelsi, óléttar unglingsstúlkur og eiturlyfjavandi. Krakkar læra frá unga aldri að berja frá sér og allir standa saman sem einn maður gegn löggunni. Enginn hefur minnsta áhuga á að aðstoða þetta fólk eða reyna að koma á einhverjum samskiptum - bara skella á liðið ASBO, þ.e.a.s. alla yfir 10 ára og birtum svo myndir af þeim svo örugglega allir viti hver hefur gerst sekur um hvað. Barnaníðingar hafa nafnleynd og svo má segja um flesta aðra afbrotamenn en þeir sem gerast sekir um veggjakrot eiga ekki lengur rétt á einkalífi.
Það hefur enginn áhuga á að ráðast að rót vandans sem er áratuga gamall og á rætur að rekja til atvinnuleysis, fátæktar og vonleysis sem er ríkjandi hjá þeim sem skipa lægstu stéttir bresks samfélags. Þessi grein í Guardian útskýrir mjög vel óréttlætið í þessu - betur en ég því ég hreinlega of æst til að skrifa skipulega um þetta mál.


kv

spider-woman litla mannsins

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Í fréttum er þetta helst:

Mýsla er núna búin að horfa á allar Star-Wars myndirnar og flautar og syngur nú stefið hans Svarthöfða í gríð og erg. Hann er sem sagt uppáhalds persónan hennar og féllu þónokkur tár þegar hann dó í lokin. Hún hresstist þó nokkuð þegar við sögðum henni að það færi fyrir honum eins og Ben Kenobi, þ.e. að hann dó eiginlega ekki heldur var meira svona andi sem leiðbeindi að handan. Síðan var líka eiginlega gott fyrir hann að vera laust við hjálminn og öndunaraðstoðina þannig að honum liði eflaust betur að vera andi. Hún var einnig nokkuð ánægð með hann áður en hann varð vondur, þegar hann var þekktur sem Anakin Skywalker. Hún á núna geislasverð og kann að gera geislasverðshljóðið..wroom wroom þegar hún sveiflar því. Jozeph sat með henni í gegnum allar myndirnar og sagði henni söguna alla frá upphafi til enda og útskýrði ef eitthvað var of flókið.... þvílík þolinmæði.

Ég er vinna að umsókn til Rannís og er hægt og sígandi að missa vitið á að stara á þetta umsóknareyðublað þar sem ég þarf að útskýra í nokkrum orðum allt um fjölþáttökuleiki og hlutverkaleiki og af hverju ég ætla að rannsaka þá. Það bara er ekki hægt að setja í nokkur orð því ég er næstum viss um að enginn í dómnefndinni veit eitthvað um þessa leiki og þetta verður án efa nokkuð ruglingslegt fyrir þeim án kynningar. Síðan er ég ekki heldur ekki að skoða áhrif tölvuleikja á börn sem allir hafa voða miklar skoðanir á þannig að þetta er heldur vonlaust held ég. Því ég er jú auðvitað að keppa við alla sem eru að rannsaka gen, sjúkdóma, aðhlynningu, fátækt, nýbúa, fatlaða og samkynhneigða... sem sagt allar gagnlegar rannsóknir eiga jú forgang en eitthvað svona dund getur náttúrulega bara farið í rass og rófu...
Sem sagt........pirringur all around!

Jozeph er að vinna og er þar að auki byrjaður í háskólanámi hjá Open University þar sem hann leggur stund á félagsvísindi, þannig að við verðum eflaust svona fólk sem rannsakar gagnslausa hluti og eigum aldrei pening. Húrra fyrir því!!!

kv frá Guildford

spider-woman

ps það er komið kommenta kerfi á enska bloggið þannig að þið ykkar sem viljið ekki kommenta á íslensku endilega látið ljós ykkar skína á ensku