þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Nú búum við eins og lesendur vita í miðbæ Guildford í Surrey sýslu og hérna býr aðallega mjög ríkt eldra fólk og ungt vel efnað fólk sem vinnur í London og kýs að búa hér því það er stutt að fara með lestinni inn til Waterloo. Í Surrey eru fleiri lögreglumenn á hvern íbúa en annarstaðar í Bretlandi og ég hef séð fleiri lögreglumenn í Guildford í þessa 6 mánuði sem ég hef búið hér heldur en í þau 2 ár sem ég bjó í London. Hérna býr ríkt fólk sem vill fá að vera í friði fyrir lögbrjótum og þess vegna hefur lögreglan í Guildford tekið upp á því að varpa myndum af óróaseggjum á hlið verslunarmiðstöðvarinnar. Þetta sá ég í fréttum í gær og var svo sem ekki hissa því Guildford er hið mesta hægrisinnaða yfirstéttarbæli (ritskoðað) en ég varð hinsvegar mjög pirruð! (9.2.2005 *hóst* aðeins orðin rólegri og búin að breyta aðeins samkvæmt athugasemdum föður míns.)

ASBO (Anti-social behaviour order) er nýtt refsikerfi sem hefur verið tekið upp í mörgum bæjum og borgum þar sem fólki yfir 10 ára aldri getur verið ávísað ASBO fyrir að gerast sekt um andfélagslega hegðun. Td að vera full á almannafæri, pissa á götuna, vera með ólæti, veggjakrot og allt sem getur talist ónæði við almenning. Ef að persóna sem er með ASBO er tekin aftur af lögreglu á hún á hættu fangelsisvist. Oftast felst í ASBO að afbrotamanninum er bannað að fara á ákveðna staði, t.d í miðbæinn og myndir af honum/henni eru gerðar opinberar til að fólk geti örugglega þekkt hann/hana og hringt á lögregluna ef að honum/henni dettur í hug að fara í bæinn aftur. Til dæmis má nefna einn ógæfumann sem var fullur í miðbænum og meig á götuna. Nú hefur lögreglan í Guildford tekið upp þá nýbreytni að varpa myndum af ASBO fólki á hlið verslunarmiðstöðvarinnar hér í bæ. Auk myndar er stutt lýsing á afbroti, t.d var fullur og pissaði á götuna og er fólk vinsamlegast beðið um að hringja í lögregluna svo að hún geti komið og handtekið hann og stungið í steininn.

Ég á því miður mjög fá prenhæf orð til að lýsa því sem mér finnst um þetta. En vil þó segja það að mér blöskraði alveg hrottalega. Fyrir mér er þetta eitt skýrasta dæmi um gríðarlega skiptingu milli ríkra og fátækra í Bretlandi. Ógæfufólki er nú meinað að umgangast þá sem betur hafa það. Það á bara að vera heima hjá sér í fátækrahverfinu og þar má það pissa á götuna eins og það vill. Með þessum úthlutunum á ASBO er verið að takmarka rými þeirra sem eru með vesen og aðskilja frá þeim sem betur hafa það og reynt er að takmarka ferðir þeirra við hverfið sem þeir búa í. Með því getur vel efnaða og vel uppalda fólkið haldið áfram að lifa í sinni sápukúlu i fallega bænum sínum vitandi það að fátækrahverfin eru langt í burtu og enginn sem þar býr kemst út án þess að eiga á hættu að vera stungið í steininn.

Það er til fólk hérna í Bretlandi sem á svo ótrúlega erfitt og er í svo miklu rugli, kynslóð eftir kynslóð og býr í ömurlegum hverfum, með brotnar rúður og lekandi þök. Þar eru færri löggur, lélegri heilsugæsla, verri skólar, feður, mæður, bræður og systur í fangelsi, óléttar unglingsstúlkur og eiturlyfjavandi. Krakkar læra frá unga aldri að berja frá sér og allir standa saman sem einn maður gegn löggunni. Enginn hefur minnsta áhuga á að aðstoða þetta fólk eða reyna að koma á einhverjum samskiptum - bara skella á liðið ASBO, þ.e.a.s. alla yfir 10 ára og birtum svo myndir af þeim svo örugglega allir viti hver hefur gerst sekur um hvað. Barnaníðingar hafa nafnleynd og svo má segja um flesta aðra afbrotamenn en þeir sem gerast sekir um veggjakrot eiga ekki lengur rétt á einkalífi.
Það hefur enginn áhuga á að ráðast að rót vandans sem er áratuga gamall og á rætur að rekja til atvinnuleysis, fátæktar og vonleysis sem er ríkjandi hjá þeim sem skipa lægstu stéttir bresks samfélags. Þessi grein í Guardian útskýrir mjög vel óréttlætið í þessu - betur en ég því ég hreinlega of æst til að skrifa skipulega um þetta mál.


kv

spider-woman litla mannsins

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hvað ertu að hafa áhyggjur af svona smámunum. Merkilegri fréttir sá ég frá Englandi í fréttunum hér, að prins Charles er að fara að giftast og Tonly Blair var voða glaður yfir því. Það gengur heldur ekkert að vera með eitthvað antisocial behavior heima fyrir þegar verið er að berjast fyrir lýðræði of frelsi í öðrum heimsálfum. Ég meina ef menn fá bara að pissa á götuna, hvað er þá næst? Sprengja sig í loft upp í leikskóla?

1:19 e.h.  
Blogger londonbaby said...

Já ég sé þetta núna....úff var bara ekki búin að hugsa þetta til enda

6:52 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home