þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Jæja loksins hafa leiðbeiningarnar komist til skila og núna bíða mín voða mörg comment. Gaman að sjá alla ættingjana og vinina hópast inn á síðuna - verið öll velkomin skinnin mín.

Varðandi spurninguna um hvort við búum í öllu húsinu vil ég bara segja "Hnuss... ég set sko ekkert hring um minn glugga því í Netheimum 101 lærir maður að maður á ekki að skilja eftir persónulegar upplýsingar um hvar maður á heima og svona því þá hópast perrarnir að..... þannig að núna hef ég gert þeim mun erfiðara fyrir. Þeir þurfa núna fyrst að finna húsið og síðan að hringja á allar bjöllurnar til að finna mig" MUHAHHAAHAH...


kv

spider-woman


laugardagur, nóvember 27, 2004


Húsið okkar. Posted by Hello

föstudagur, nóvember 26, 2004

Nú er ég búin að setja upp teljara góðir lesendur og get séð að fólk hefur verið að læðast um síðuna án þess að skilja eftir komment þrátt fyrir ögrandi færslu hér að neðan og leiðbeiningar þar fyrir neðan. Jæja ... ef þið viljið eitthvað við mig tala þá getið sent mér póst litlu lúðar.

Ég er orðin rólegri í garð foreldrafélagsins... best að leyfa þeim bara að baka og sulta sig inni í litlu múrsteinshúsunum þá eru allavega engin læti á meðan. En nú er komið að sögustund:

Eins og allir vita þá er afgreiðslufólk í stórmörkuðum í England afskaplega gott og hjartahlýtt fólk sem vill allt fyrir mann gera og þar á meðal spjalla pínu við börnin og foreldrana. Það keyrði þó um þverbak í Sainsbury´s í gær þegar ég og Ása hittum fyrir spjalldrottningu dauðans. Þannig var að Ása var að syngja fyrir mig "Five little stars", lag sem hún er að æfa fyrir Nativity play í næstu viku í skólanum. Þá byrja þessar rokna samræður milli afgreiðslustúlkunnar og Ásu. Sú fyrrnefnda spyr Ásu spjörunum úr um Jólaleikritið, öll jólalögin sem hún kann, hvað hún vilji í jólagjöf o.s.frv.
Ég var orðin alveg rosalega óþolinmóð en vildi ekki vera ókurteis og leiðinleg en fannst helst til mikið þegar afgreiðslustúlkan hefur upp raust sína og byrjar að syngja "Away in a manger" (sem mér tekst ómögulega að muna hvað er á íslensku) og Ása byrjar að syngja með fyrsta erindið en stoppar svo og segir "I think we have to go now.... we can't stay here all day and there are loads of people waiting" og bendir á röðina.
Guð hvað ég hefði geta knúsað barnið fyrir að vera hreinskilnara en ég gat og ósköp varð ég fegin að komast út. Afgreiðslustúlkan varð hálf-kindarleg en tók þessu svo bara vel, flissaði aðeins og lét mig hafa afganginn.

Húrra fyrir Mýslu


spider-woman

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Djöfull get ég orðið pirruð á foreldrafélagskellingum sem hafa það eitt að leiðarljósi að bögga annað fólk um eitthvað rugl eins og íslenska jólarétti til að selja á Christmas Fayre í skólanum. Þetta eru svona konur sem gera ekkert annað en að halda foreldrakvöld, foreldramorgna, foreldrahádegisverði, mæðra og barnahópa, fjáröflunarkaffimorgna og eru alveg hneykslaðar á því að venjulegt fólk hafi eitthvað annað fyrir stafni en að sulta og baka allan liðlangan daginn.

Ein slík réðist á mig áðan í skólanum þegar ég fór að sækja mýslu og ég var alls óundirbúin að svara spurningum um íslenska jólarétti og sagði að ég væri voða lítil bökunarkona enda eyddi ég jólunum í faðmi móður minnar sem sæi um slíka hluti, (ég aðallega skralla kartöflur og smakka sósuna). Konukindinni fannst þetta augsjáanlega alveg hneykslanlegt og lagði til "í gríni" að við sendum eftir móður minni til að sjá um þetta fyrir mig og svo hló hún svona hlátri sem átti að sýna að hún væri að grínast en hún var það ekki, svona HA, HA, HA.... þar sem hún segir meira HA en að hlæja það.

Þetta er einmitt sama konan sem er svo einstaklega forvitin um hver raunverulegur faðir Ásu er að hún og vinkona hennar spurðu mig báðar ( í sitt hvoru lagi samt, með nokkura daga millibili) hvort að Jozeph væri íslenskur og svöruðu báðar þegar ég sagði nei.... " nei ég var einmitt að spá í því að hann lítur ekki út fyrir að vera norrænn því hann er svo dökkur og svo horfa þær stíft á ljósa kollinn á Ásu. Greinilega búnar að æfa þetta svar saman á einhverjum kaffimorgninum og grunar nú þar afleiðandi að hann sé ekki raunverulegur faðir Ásu heldur hafi ég hafi sofið hjá bréfberanum á Íslandi á meðan Jozeph var í vinnunni.

Nokkrum dögum síðar réðist þessi kökubrjálaða kona að Jozeph í skólanum og spyr hann " are you Asa´s father" og Jozeph gat ekki stillt sig um að svara bara látlaust "Yes I am.... can I help you?", þá kom smá fát á konuna og hún hafði greinilega ekki æft samtalið lengra og tautaði eitthvað um einhvern lista. Þar með styrktist grunur konunnar um að ég sé lauslætisdrós sem sef hjá norrænum bréfberum og nú í dag bættist svo við á syndalistann að ég kann ekki að baka neina sér íslenska jólarétti. Kannski fer hún núna að efast um að ég sé íslensk því ég er ekki heldur ljóshærð og þá verður mér ábyggilega boðið næst á ættleiðingarkaffimorgun og ég spurðu spjörunum úr um hvernig maður fer að því að ættleiða 1 stk íslenskt barn.


spider-woman

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Hæ hæ og hó hó

Ég hef verið beðin um að skilja eftir leiðbeiningar um hvernig skuli skilja eftir comment.
Það eru sem sagt 2 leiðir í stöðunni og það er að skilja eftir comment undir nafni og skrá sig inn en það er bara vesen og þá er seinni leiðin að skilja eftir Anonymous comment og það er linkur á það undir stóra bláa takkanum sem stendur á Sign in. Linkurinn ber nafnið Or post Anonymously. En ég vil biðja alla stóra sem smáa commenta höfunda að skrifa samt nafnið sitt undir færsluna svo ég viti hver er að rífa sig í það skiptið.

Bæjó í bili

spider-woman

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Þetta er góð grein og mér finnst að þið eigið að lesa hana góðir lesendur.

Það er að rofa til í þunglyndinu í Guildford. Í dag fór ég nefnilega í skólann og kenndi nokkrum óáhugasömum sálum um "Music, ethnic identity and youth cultures". Jamm greyin eru bara 18 ára og er þess vegna ómögulegt að vera áhugasöm um nokkurn skapaðan hlut nema að fara út að djamma. Kona man nú að hún sjálf var ekkert alveg að rifna af spenningi í MR í den.

Og svo næstu helgi er allsherjardjamm í Bournemouth með félagsfræðideildinni, vei vei... hér kem ég.

spider-woman

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Nei það er best að sökkva sér bara aftur niður í þunglyndi og volæði. Arafat er látinn og blessuð sé minning hans og ég vona að einhver sem ber velferð Palestínumanna fyrir brjósti taki við. Ég trúi því einnig að erfitt geti reynst að feta í fótspor hans þar sem hann var tákn palestínumanna sem og leiðtogi og það tvennt er ekki endilega til staðar hjá öllum stjórnmálamönnum. Minnir að það hafi verið kallað "charismatic power" eða náðarvald í stjórnmálafræðinni hérna í den. Tíminn mun leiða þetta í ljós...

Ég mun ekki fara á Nick Cave tónleika í kvöld þar sem ég er lasin og treysti mér ekki í að fara og er alveg miður mín yfir þessu öllu saman. Þetta er að vísu ekkert á við lát Arafats, bara svona microdrama í einu litlu lífi í Guildford. Samt leiðinlegt því ég sé ekki að það séu aðrir tónleikar með honum á næstunni.


spider-woman


miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Fliss fliss

Jæja best að rífa sig upp úr þunglyndinu fyrst maður er komin á stera og orðin voða hress og kát. Ég rakst á síðu þar sem verið var að rifja upp brandara af ákveðinni tegund sem voru voða vinsælir fyrir nokkrum árum. Ég læt mér nægja að setja hér inn nokkra sem ég er búin að vera að flissa yfir í allan dag. Svona er að vera svona veik og einangruð. Hér koma þeir bestu:

Öll börnin horfðu á kirkjuna brenna, nema Hermann. Það var verið að fermann.

Allir krakkarnir stoppuð við hengiflugið, nema Tindur. Hann var blindur.

Allir krakkarnir voru í Ku klux klan nema Bjartur - hann var svartur.

Alli krakkarnir fengu vasapening nema Þóra, hún var hóra

Nú hefur mér tekist að dónaleg við kristna, blinda, svarta og vændiskonur og flissa mikið í leiðinni. Ansi er maður illa innrættur. Gott að enginn les þetta blogg kannski.

kv

spider-woman á sterum

ps takk fyrir stuðningin lillesös, hlakka til að sjá þig :D

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Það eru bara leiðindi í fréttum, ég er veik í milljónasta skipti og finnst þetta vera orðið dálítið þreytt. Það eina skemmtilega er að ég og Jozeph erum að fara að sjá Nick Cave á tónleikum á fimmtudaginn ef ég verð orðin hress.
Það eru allir hættir að lesa þessa síðu að mér sýnist þannig kannski er best að fara bara að hætta þessu.

spider-woman lasna (AFTUR!!!!)

föstudagur, nóvember 05, 2004


Posted by Hello
Þetta kerti er fyrir Arafat sem nú liggur fársjúkur á spítala í París. Ég eiginlega má ekki til þess hugsa hvað gerist ef hann deyr núna. Megi allar góðar vættir vaka yfir honum og hans fólki.

kv

spider-woman

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Núna er ég að horfa á Touching the Void um tvo fjallaklifrara. Þeir eru búnir ad vera að klifra í 10 mín og ég er orðin voða þreytt bara á að horfa á þá. Ég skil ekki svona brölt?!?

spider-woman innipúki

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Í dag missti ég einn hlut af hverjum fjórum sem ég tók upp.
Í dag braut ég helminginn af uppvaskinu vegna áðurnefndrar ástæðu.
Í dag brenndi ég kvöldmatinn.
Í dag hrasaði ég 3svar á leiðinni í skólann.
Í dag gleymdi ég öllu sem ég ætla að gera.
Í dag þurfti ég að leita 2svar sinnum lengur að öllu sem ég ætlaði að nota.
Í dag velti ég fyrir mér hvernig svona vitlaus kona eins og ég komst inn í doktorsnám.
Í dag velti ég fyrir mér hvernig svona vonlaus móðir eins og ég getur átt svona einstakt barn.
Í dag stóð ég upp fyrir framan samnemendur mína og leita að glasinu sem ég held á í hendinni.
Í dag langar mig til að gráta bara undir sæng.
Í dag er ég feit og frekar ófríð.
Í dag samanstendur orðaforði minn af ooooohhhhhhhhh og andskotinn.


Það eru verðlaun fyrir hvern þann sem getur upp á því hvaða dagur er í dag!!

kv

spider-woman


þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Ég vildi bara nota tækifærið og linka á þessa síðu því þessi blómahugmynd er fyrirtakshugmynd að mínu mati. Ég vil líka hneykslast aðeins opinberlega á framferði þessarra friðargæslumanna að geta ekki aðeins staðist freistinguna um að fara í búðir. Ég veit þeir voru í útlöndum og það er erfitt að standast freistinguna því þeir eru jú Íslendingar en ég vil bara minna á að það er "a time and a place for everything" . Síðast en ekki síst þá eru þessir bolir þeirra fávitalegir og smekklausir.

spider-woman

ps. Hérna er síðan þar sem hægt er að lesa söguna í fullri lengd