föstudagur, nóvember 26, 2004

Nú er ég búin að setja upp teljara góðir lesendur og get séð að fólk hefur verið að læðast um síðuna án þess að skilja eftir komment þrátt fyrir ögrandi færslu hér að neðan og leiðbeiningar þar fyrir neðan. Jæja ... ef þið viljið eitthvað við mig tala þá getið sent mér póst litlu lúðar.

Ég er orðin rólegri í garð foreldrafélagsins... best að leyfa þeim bara að baka og sulta sig inni í litlu múrsteinshúsunum þá eru allavega engin læti á meðan. En nú er komið að sögustund:

Eins og allir vita þá er afgreiðslufólk í stórmörkuðum í England afskaplega gott og hjartahlýtt fólk sem vill allt fyrir mann gera og þar á meðal spjalla pínu við börnin og foreldrana. Það keyrði þó um þverbak í Sainsbury´s í gær þegar ég og Ása hittum fyrir spjalldrottningu dauðans. Þannig var að Ása var að syngja fyrir mig "Five little stars", lag sem hún er að æfa fyrir Nativity play í næstu viku í skólanum. Þá byrja þessar rokna samræður milli afgreiðslustúlkunnar og Ásu. Sú fyrrnefnda spyr Ásu spjörunum úr um Jólaleikritið, öll jólalögin sem hún kann, hvað hún vilji í jólagjöf o.s.frv.
Ég var orðin alveg rosalega óþolinmóð en vildi ekki vera ókurteis og leiðinleg en fannst helst til mikið þegar afgreiðslustúlkan hefur upp raust sína og byrjar að syngja "Away in a manger" (sem mér tekst ómögulega að muna hvað er á íslensku) og Ása byrjar að syngja með fyrsta erindið en stoppar svo og segir "I think we have to go now.... we can't stay here all day and there are loads of people waiting" og bendir á röðina.
Guð hvað ég hefði geta knúsað barnið fyrir að vera hreinskilnara en ég gat og ósköp varð ég fegin að komast út. Afgreiðslustúlkan varð hálf-kindarleg en tók þessu svo bara vel, flissaði aðeins og lét mig hafa afganginn.

Húrra fyrir Mýslu


spider-woman

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

húrra, húrra, húrra, húrra Ása. Hlakka til að sjá þig í desember. Tóta

11:25 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home