miðvikudagur, júlí 26, 2006

Verð á Íslandi til 7.ágúst nk. Hlakka til að hitta ykkur öll

kv

Þórdís

föstudagur, júlí 14, 2006

Hér í bæ er bókasafn eitt gott þar sem ég kem við endrum og eins og tek mér bækur og spólur. Það lokar hins vegar klukkan eitt á miðvikudögum og það bregst ekki að á miðvikudegi arka ég upp að safninu um þrjúleytið og pirrast mikið yfir þessari gleymsku minni og vitleysisgangi. Nú nýverið ákvað ég, í staðinn fyrir að pirrast og verða reið, að nota þennan hæfileika minn. Svo í staðinn fyrir að kaupa dagatal dýrum dómum get ég nýtt mér þetta ákvörðunartökuferli mitt til að vita hvaða dagur er. Til dæmis...ef mér dettur í hug að fara á bókasafnið þá er greinilega miðvikudagur og svo tel ég bara dagana síðan mér datt síðast í hug að fara á bókasafnið og bingó!...þá veit ég hvaða dagur er.

Mér finnst ég bara öll vera að vaxa og þroskast sem persóna...finnst ykkur það ekki?

fimmtudagur, júlí 13, 2006


Gleðin ríður ekki við einteyming hér á heimilinu. Fann þennan litla fjársjóð í charity búð í bænum og er búin að brosa hringinn síðan. Þetta eru salt, pipar og tannstönglakisur.

Og meðan ég man þá vil ég þakka fyrir öll kommmentin. Þar hefur frú Rannveig Jarðvegsfræðingur farið fremst í flokki og fær að verðlaunum þennan stein hér að ofan. Ég þykist vita að hún verði voða kát með hann.
Þá er ég búin að lita á mér hárið....var alveg búin að gleyma hvað það er skemmtilegt...rauðar slettur upp um alla veggi og eyrun á mér eru öll rauðskellótt sem og úlnliðir. En fátækir námsmenn verða víst að sníða sér stakk eftir vexti. Hárið varð allt of dökkt og ekki batnaði það eftir að ég litaði líka augabrúnirnar og núna bregður mér alltaf þegar ég lít í spegil. Þekki ekki þessa grimmu ófrýnilegu konu sem horfir á mig. Smá svona Morticia Addams í gangi hérna. Liturinn dofnar nú vonandi áður en ég kem til Íslands...vil ekki hræða alla upp úr skónum.

Er búin að vera á bloggrúntinum...fyndið hvað Íslendingar taka massív köst yfir einhverju - td Silvía Nótt, Eyþór og staurinn og núna er það einhver Magni sem allir eru í kasti yfir og hver bloggarinn á fætur öðrum er alveg að rifna yfir því að hann skuli vera í einhverri rokkkeppni. Ég bara kem þessum Magna ekki alveg fyrir mig....ætli þetta sé nokkuð Magni bróðir hans pabba?

þriðjudagur, júlí 11, 2006




Ég er gangandi fyrirtíðarspennu klisja. Gekk Guildford á enda til að redda mér Snickers og Kók í bol með risastórum pastasósubletti. Smart! Tókst eftir þónokkrar tilraunir að redda því, kom heim og nöldraði í Jozeph. Settist í sófann með gotteríið, náttbuxunum, til að horfa á CSI. Nú bíð ég í ofvæni eftir að Grissom skjóti að mér einhverjum fróðleiksmolum...eitthvað sem gæti nýst til dæmis næst þegar ég spila Trivial við Ásdísi væri voða gott.

Ég sé alveg fyrir mér ef að Grissom ætti konu sem þjáðist af PMS þá gæti hann sagt henni allt um fyrirtíðarspennu, af hverju hún orsakast, hvaða efni í heilanum valda henni og í hvaða gríska harmleik konan Menstra drap manninn sinn af því hann át öll vínberin og svona.... En eftir henni menstru er orðið menstruation dregið.... sé þessa senu alveg fyrir mér...

Jamm segiði svo að maður sé ekki eldhress hérna í sófanum

mánudagur, júlí 10, 2006

Maður hættir að horfa á Eastenders í nokkrar vikur og þá er bara komið fullt af nýju fólki...þá er bara eitt að gera og það er að búa til Royal súkkulaðibúðing...þá meikar þetta allt sens á ný :D


Ók á 162 km hraða með útrunnið ökuskírteini (mbl.is, 10.07.2006)

Ætli hann hafi verið að reyna að ná á lögreglustöðina fyrir lokun til að endurnýja...?

laugardagur, júlí 08, 2006

Nú verða sagðar fréttir:

Í dag var sk. summer fayre í skólanum hjá Ásu. Ofurmóðirin ég tók mig til og skellti í 20 rúllur af sushi (180 bita) sem var selt til fjáröflunar ásamt réttum frá hinum ýmsu heimshornum. Ég var beðin um að koma með eitthvað íslenskt en mér bara datt ekkert í hug og hryllti við tilhugsuninni að reyna að fara að búa til eitthvað nýtt því sálarlífið stendur á brauðfótum og þarf ekki mikið til að allt fari í bál og brand. (Ég minnist með hryllingi síðasta skiptis þegar ég reyndi að baka pönnukökur sem festust allar við pönnuna og duttu allar í sundur...grrrrr)

Á summer fayre var líka verið að selja allskonar dótarí og kom ég hróðug heim með 5 DVD myndir sem ég fékk á 10 pí hverja. Þetta voru allt myndir sem hafa einhvern tíma fylgt með einhverju af dagblöðunum hérna sem útskýrir hversu ódýrar þær voru. Myndirnar voru :

The Last Emperor
Paris, Texas
Fried Green Tomatoes
Metropolis
Howards End....

síðan kom ása heim með Willow og Prúðuleikarana á spólu. Þannig nú verður sko aldeilis horft.

Okkur hefur nefnilega, sem betur fer, tekist að losna við "samviskubitið yfir því að hanga inni í góða veðrinu" sem manni er innrætt frá unga aldri á Íslandi því okkur líður hvorugri neitt sérstaklega vel í hitanum sem hefur verið hérna undanfarið. Þess vegna erum við bara inni að dúlla okkur á meðan hitt liðið vesenast í grillveislum og sólböðum.

Man ekki meira í bili..