Já maður ætti kannski að útskýra skapbræðisfærsluna aðeins betur. Það er nún reyndar þannig að þegar rauða þokan hverfur þá stendur eftir svona *hóst* maður ætti kannski aðeins að reyna að róa sig stundum. Það er bara ákveðin kona sem fer svooooo í taugarnar á mér og síðan nokkrar aðrar sem ég þarf að eiga samskipti við. Fyrir mér renna þær stundum saman í eina konu sem mig langar helst að henda í ánna hérna fyrir utan og hlæja hátt á meðan hún sekkur. Svo þegar ein "þessarra kvenna" er að bögga mig útaf einhverju smáatriði þá fær hún stundum að gjalda fyrir misgjörðir allra "hinna kvennanna" sem eru í þessum hóp.
Ég mun reyna hérna að útskýra af hverju ég þoli ekki þessa tilteknu konu með því að taka til nokkur dæmi, sem eru byggð á sannsögulegum atburðum en er breytt, bæði til að vernda einkalíf viðkomandi kvenna og gera frásögnina einfaldari.
Þetta er kona sem vinnur á skrifstofu, við tölvuna sína og á auk þess að aðstoða fólk sem á erindi á þessa ákveðnu skrifstofu. Hún sér fólkið sem leitar til hennar fyrst og fremst sem töf á því að útbúa dreifirit og borða vínber. Hún veit samt að hún á að vera almennileg og brosa (hún lærði það á námskeiði sjáiði til) en þegar hún brosir á meðan hún aðstoðar mann, veit maður samt alveg að hana langar mest að hefta hausinn á manni við borðið, svo hún komist aftur í að ljósrita dreifirit á pappír í allskonar litum.
Hún er alltaf æðislega jolly, þótt hún sé alveg að fríka af pirringi og talar niður til manns aðeins í leiðinni. Til dæmis ef maður er seinn þá segir hún, "bara svo að þú vitir það þá eiga fundirnir að byrja klukkan fjögur." Þá byrjar rauða þokan að leggjast fyrir augun á mér af því að ég veit að þeir eiga að byrja klukkan fjögur og ég sagði afsakið að ég er sein. Þessir fundir eru haldnir aðra hverja viku og ég hef mætt stundvíslega klukkan fjögur síðastliðin 4 ár á þessa fundi.
Ég veit að þeir byrja klukkan fjögur.
Síðan ef maður biður um greiða þá er alltaf sagt nei ég get ekki leyft það þá fara allir að biðja um það sama. Sama hversu abstrakt og einstakur greiði þetta er sem ábyggilega engin mun nokkurn tíma biðja um aftur.
Síðan er hún búin að hengja upp blöð í sameiginlega kaffirýmið sem stendur á "mamma ykkar vinnur ekki hér, vinsamlega þvoið upp bollana ykkar sjálf" og sjáið til, hún lærði líka á námskeiðinu að setja alltaf "vinsamlega" á blaðið.... af hverju er hún ekki bara hreinskilin og setur á miðann.... "drullist þið til að þvo bollana ykkar sjálf eða ég hefta hausinn á ykkur við borðið"?
Ég gæti eflaust haldið áfram en þarf að fara að fiska mýsluna upp úr baðinu.
kv
spider-woman