laugardagur, október 22, 2005

*HNUSS!*Er búin að standa við eldavélina tímunum saman og afraksturinn bragðaðist eins og glerrúða með kóríanderbragði. Ég fór meira að segja í bæinn og keypti mortél til að steyta cummin fræin. Mýslan reyndi að vera voða almennileg við mömmu sína en viðurkenndi síðan að henni fyndist þetta ekkert gott. Það sem boðið var upp á var Dal (sem er svona indversk linsubaunakássa), kartöflumús með garam masala, chilli og kóríander og raitha sem er jógúrtsósa með agúrku og kóríander. Ég held að það liggi einhverjar annarlegar kóríanderhvatir að baki hjá konunni sem samdi þessa matreiðslubók.

Á endanum pantaði ég bara kínverskan - alveg án kóríanders

Síðan er það í fréttum að nú rennur upp sk. half-term eða haustfrí og leggjum við litla fjölskyldan land undir fót norður á bóginn á morgun til litla þorpsins fyrir utan Hull, þar sem mýslan verður skilin eftir í faðmi fjölskyldu Jozephs í nokkra daga á meðan við höldum áfram upp til Edinborgar. Þar mun ég m.a. taka viðtöl við fólk sem ég hef verið að spila með á netinu, allt í nafni vísindanna.

Komum aftur á föstudaginn og þá fáiði að heyra ferðasöguna :D

vá hvað þetta var leiðinlegt blogg - ætli ég geti fengið einhver verðlaun fyrir það??

miðvikudagur, október 19, 2005

Eftir síendurteknar kvartanir yfir biluðu kommentakerfi hef ég ákveðið að taka af þetta word verification. Það góða er að þá getið þið lesendur góðir nýtt ferðina í að versla af spömmurunum viagra og fleira sem þeir/þær hafa upp á að bjóða.

kv

spider-woman

þriðjudagur, október 18, 2005

Já maður ætti kannski að útskýra skapbræðisfærsluna aðeins betur. Það er nún reyndar þannig að þegar rauða þokan hverfur þá stendur eftir svona *hóst* maður ætti kannski aðeins að reyna að róa sig stundum. Það er bara ákveðin kona sem fer svooooo í taugarnar á mér og síðan nokkrar aðrar sem ég þarf að eiga samskipti við. Fyrir mér renna þær stundum saman í eina konu sem mig langar helst að henda í ánna hérna fyrir utan og hlæja hátt á meðan hún sekkur. Svo þegar ein "þessarra kvenna" er að bögga mig útaf einhverju smáatriði þá fær hún stundum að gjalda fyrir misgjörðir allra "hinna kvennanna" sem eru í þessum hóp.

Ég mun reyna hérna að útskýra af hverju ég þoli ekki þessa tilteknu konu með því að taka til nokkur dæmi, sem eru byggð á sannsögulegum atburðum en er breytt, bæði til að vernda einkalíf viðkomandi kvenna og gera frásögnina einfaldari.

Þetta er kona sem vinnur á skrifstofu, við tölvuna sína og á auk þess að aðstoða fólk sem á erindi á þessa ákveðnu skrifstofu. Hún sér fólkið sem leitar til hennar fyrst og fremst sem töf á því að útbúa dreifirit og borða vínber. Hún veit samt að hún á að vera almennileg og brosa (hún lærði það á námskeiði sjáiði til) en þegar hún brosir á meðan hún aðstoðar mann, veit maður samt alveg að hana langar mest að hefta hausinn á manni við borðið, svo hún komist aftur í að ljósrita dreifirit á pappír í allskonar litum.

Hún er alltaf æðislega jolly, þótt hún sé alveg að fríka af pirringi og talar niður til manns aðeins í leiðinni. Til dæmis ef maður er seinn þá segir hún, "bara svo að þú vitir það þá eiga fundirnir að byrja klukkan fjögur." Þá byrjar rauða þokan að leggjast fyrir augun á mér af því að ég veit að þeir eiga að byrja klukkan fjögur og ég sagði afsakið að ég er sein. Þessir fundir eru haldnir aðra hverja viku og ég hef mætt stundvíslega klukkan fjögur síðastliðin 4 ár á þessa fundi. Ég veit að þeir byrja klukkan fjögur.

Síðan ef maður biður um greiða þá er alltaf sagt nei ég get ekki leyft það þá fara allir að biðja um það sama. Sama hversu abstrakt og einstakur greiði þetta er sem ábyggilega engin mun nokkurn tíma biðja um aftur.

Síðan er hún búin að hengja upp blöð í sameiginlega kaffirýmið sem stendur á "mamma ykkar vinnur ekki hér, vinsamlega þvoið upp bollana ykkar sjálf" og sjáið til, hún lærði líka á námskeiðinu að setja alltaf "vinsamlega" á blaðið.... af hverju er hún ekki bara hreinskilin og setur á miðann.... "drullist þið til að þvo bollana ykkar sjálf eða ég hefta hausinn á ykkur við borðið"?

Ég gæti eflaust haldið áfram en þarf að fara að fiska mýsluna upp úr baðinu.

kv

spider-woman
Það var nú alveg kominn tími á nýtt netpróf var það ekki. Það er svo hressandi að öðlast nýja sýn á manns eigið sálar-líf.


Secretary
You must like to spank or be spanked, because your
romance is remeniscent of Secretary. A truly
modern love story, it shows that you don't need
to be conventional to be normal. You're
probably the type that owns a whole lot more
leather than what's upholstering your car or
sofa. Yeah, you know what I mean.

What Romance Movie Best Represents Your Love Life?


Kannski maður ætti að fá sér leðurbuxur...

spider-woman nonconventional but normal

mánudagur, október 17, 2005

Djöfull getur afspyrnu heimskt, leiðinlegt og smáborgaralegt fólk pirrað mig mikið..... *fnæs*
Það sorglegasta er samt hvað ég get látið það pirra mig - pjúra tímaeyðsla. Núna vantar mig boxpoka til að boxa úr mér gremjuna, þarf að athuga með það.

spider-woman - þarf að læra að stjórna skapsmunum sínum

sunnudagur, október 16, 2005




Ég var klukkud af advo og verð að skrifa niður 5 staðreyndir um sjálfa mig. Ég veit ekki hvort þær eiga að vera um eitthvað sérstakt en hérna koma nokkrar random:

1. Mér finnst Marilyn Manson og kærastan hans Dita von Teese rosa flott og kúl. Hef lesið og séð nokkur viðtöl við þau og einnig hlusta ég á Marilyn þegar þannig stendur á.

2. Mér finnst gaman að fara á goth skemmtistaði, klæði mig upp og mála mig þeim mun meira - tel mig vera frístunda-goth í lauslegustu þýðingu þessa orðs. Mundi samt aldrei fara í goth klæðnað á Íslandi.

3. Ég er rosalega spennt að fá Ásdísi systur í heimsókn svo ég geti eytt smá tima með henni. Við vorum nefnilega alltaf hálf upp á kant á yngri árum, enda báðar óttalegir þverhausar og svo fluttum við frá Íslandi í sitthvort landið og hittumst eiginlega bara á jólunum.

4. Ég er óttalega viðkvæm sál og má ekkert aumt sjá án þess að bresta í grát eða fá kökk í hálsinn. Þess vegna horfi ég eiginlega aldrei á fréttir lengur í sjónvarpi. Skoða bara mbl.is og bbc.co.uk og leita uppi á netinu það sem ég vil skilja betur.

5. Ég er mjög svag fyrir karlmönnum í einkennisbúningi. Einnig er ég hrifin af mönnum sem eru dálítið röff eins og t.d. Nick Cave og Aragorn. (Þeir eru kannski ekki alveg röff á sama hátt en...)

Jæja, veit ekki hvern ætti svo sem að klukka en reyni að klukka mótmælandann mikla en hugsa að hún mótmæli því bara og hnussi. Ætli ég klukki svo ekki hana systur mína.


spider-woman

laugardagur, október 15, 2005

Hérna er hann, eftir mikla baráttu við bloggerinn.

enjoy

spider-woman

ps setti aftur word verification á commentin, Día þú verður að slá stafina sem birtast inn í rammann eins og td : YXXYY og pósta síðan eins og venjulega

föstudagur, október 14, 2005

Vei!!! Ross Kemp er að koma aftur í Eastenders. Er alltaf dálítið svag fyrir honum enda mikið karlmenni og í júníformi er hann voða fínn. (Hann lék löggu í einhverjum þáttum sem ég sá á Íslandi fyrir nokkrum árum) Blogger vill ekki stilla upp mynd af honum, reyni aftur á morgun.

spider-woman

miðvikudagur, október 12, 2005

Í dag fór ég í nudd til sjúkraþjálfara og vegna slyss á A3 þurfti ég að bíða þónokkuð lengi þar sem að blessuð konan var bara “stuck in traffic” eins og reyndar fleiri hérna á leið til Guildford. Ég notaði tímann vel og skoðaði blöðin og eftir að hafa setið í í hálftíma og skoðað fullt af life and fitness blöðum og Marie Claire langaði mig mest bara að gefast upp á tilverunni. Mér finnst nefnilega stundum að það sé bara hin mesta furða að maður skuli ennþá vera á lífi.

Tilveran er nefnilega dálítið flókin þessa dagana því á hverjum degin færa vísindin okkur ný sannindi. Í öllum blöðunum var að finna litla fróðleiksmola sem byrjðu á “nýjar rannsóknir sýna að” eða “vísindamenn við ... háskóla” hafa uppgötvað að .... það er óhollt að hjóla og tyggja tyggjó í leiðinni, að hafa gaseldavél, að fara út að hlaupa í köldu veðri og eitthvað fleira.

Síðan eru tíundaðar ástæður þessa... og þær virka allar svo trúanlegar því að það er búið að tvinna inn í vísindaleg heiti á allskonar efnum, ensímum og efnasamböndum. Til dæmis gæti verið hættulegt að tyggja tyggjó og hjóla vegna þess að tyggjó veldur því að líkaminn framleiðir of mikið af anty-ah3 alpha sýrunni sem veldur því að kálfavöðvarnir fara að framleiða of mikið af ph3- alpha ensíminu sem flýtir fyrir hrörnun vöðvanna og eykur hættu á myoclissitisotis og er áætlað að um 3 milljónir manna muni þjást af árið 2067.
Þetta er auðvitað tilbúið dæmi en svona hljóma litlir fróðleiksmolar í allskonar blöðum og þetta einkennir líka fréttir í fjölmiðlum.
Það er nóg að klæða karl eða konu í hvítan slopp og setja á þau gleraugu og láta þau þylja yfir almúganum einhverja steypu með allskonar vísindaorðum og þá verður maður allt í einu var við að lífið er ekki neitt einfalt lengur og eitthvað sem maður hefði aldrei leitt hugann að er bara stórhættulegt. Þetta gerir lífið svo flókið og erfitt og mig langar helst stundum bara að vita ekki neitt því þá get ég hætt að hafa áhyggjur af því hversu mikið alpha-4 antifidelis sýrur ég er að éta á hverjum degi.

Ágætis dæmi um þessa tegund tilvistarkreppu sem er tilkomin af of mikilli vísindavitneskju er samtal sem ég átti við ágætan kollega minn þegar við skruppum í hádegisverð um daginn. Hann og konan hans höfðu ákveðið að fá sent heim til sín kassa af lífrænt ræktuðu grænmeti einu sinni í viku til að forðast öll eiturefnin sem er spreyjað út um allar trissur og eru að eyðileggja innviði okkar sem og umhverfið. Síðan á líka að vera voða hollt að borða vel af ávöxtum og grænmeti því í því eru öll þessi hollu efni. Þannig að það var bara ágætis ákvörðun til að byrja með en síðan kárnaði gamanið þegar hann komst að því að sumt af grænmetinu og ávöxtunum hafði flogið hingað til Bretlands langa leið og allir vita jú hvað þotur menga þegar þær fljúga þvers og kruss um heiminn. Þannig hann var bara dálítið miður sín yfir þessu öllu saman...

Það er vandlifað á þessum siðustu og verstu þegar vísindin virðast efla alla dáð og gott betur.

kv

spider-woman

þriðjudagur, október 11, 2005


Þá hefst annar hluti ferðasögu Austfjörð systra. Í bítið á laugardeginum eftir að búið var að borða morgunmat og blása á sér hárið var haldið af stað sem leið lá niður að strönd til Brighton. Ég ákvað að fara sveitavegina svo systurnar gætu séð enska sveit eins og í sjónvarpinu og þær voru alveg hæst ánægðar með það. Við stoppuðum einu sinni á leiðinni til að kíkja í antikverslun og kirkjugarð í litlu þorpi sem var auðvitað voða picturesque og við bjuggumst fastlega við því að sjá Ms Marple á röltinu með töskuna sína.
Við vorum mjög heppnar með veður, það var hlýtt og gott við ströndina og skv beiðni var stoppað aðeins í tívólíinu á bryggjunni og mýslan fór í 3 tæki. (þar hélt ég að lífi mínu væri lokið í kolkrabbanum, hann var sko ekkert eins og í hveragerði heldur miklu miklu hræðilegri)
Síðan voru heimsótt gallerí og minjagripabúðir eins og lög gera ráð fyrir. Við röltum um miðbæinn og enduðum á að kaupa sushi til að taka með okkur heim hjá Moshi Moshi, sem ég mæli hiklaust með fyrir þá sem eru að fara til Brighton. Það voru ánægðir ferðalangar sem skiluðu sér til Guildford um kveldið því Brighton er flott og skemmtileg borg. Á sunnudaginn var verslað aðeins meira og svo skutlaði ég þeim á flugvöllinn.

spider-woman

ps kæru systur, ljósakrónan er komin á sinn stað og er svo fín :D Sendi ykkur mynd í pósti - takk fyrir okkur litlu vinir - knús og kossar


mánudagur, október 10, 2005

Austfjörð systur (héreftir Austfjörð Group) lentu rjóðar og kátar á miðvikudagskvöld eftir þónokkur kaup í Saga Boutique. Ég og mýsla höfðum leigt bíl til að sækja þær á Heathrow og síðan lá leiðin heim til Guildford þar sem þær voru lagðar til hvílu (ekki hinstu samt) Hér var búið að þrífa hátt og lágt eins og maður gerir þegar mamma manns og móðursystir eru að koma. (gleymdi samt að henda gömlu jarðaberjunum úr ísskápnum og fann þau ekki fyrr en í gær og vona að þær hafi ekki séð þau og haldið að þetta væru enskir grænir loðávextir)

Þær vöknuðu svo glaðar og kátar daginn eftir og dálítið spenntar því móðurskipið, Debenhams, hafði víst kallað á þær í draumi og skríkti víst í Ingu Lóu hálfa nóttina. Þær ákváðu hins vegar að byrja á high street og um 2 klukkustundum eftir að þær lögðu af stað í bæinn var gefin út afkomuviðvörun (jákvæð viðvörun) af helstu verslunum í Guildford og hlutabréfamarkaðurinn í Bretlandi tók vægan kipp. Við fjölskyldan fórum ekki varhluta af góðærinu og mýsla var mjög nösk á að ræða við ömmu sína um hina ýmsustu hluti sem hana VANTAÐI, eins og til dæmis föt á hann Magga sel, kojur fyrir músaunga og bóndabæjartölvuleik. Um kvöldið eldaði ég fyrir þær hefðbundnar enskar pylsur með eplum, steiktum lauk og kartöflumús og síðan var sest niður og horft á 3 þætti af 4 seríu um Jack Bauer og félaga.

Á föstudaginn héldu þær í Debenhams og undu glaðar við sitt í þónokkurn tíma og héldu svo á high street aftur og þegar þær gengu yfir brúnna beið þeirra klapplið og skotið var upp nokkrum flugeldum þeim til heiðurs. Seinnipartinn vorum við farin að lýjast þónokkuð undan pokaburði þannig ég hljóp heim og sótti bílinn góða og sótti pokana og þær settust inn á krá og fengu sér hálfan hvor. Kvöldinu var svo eytt í að borða indverskan mat, spjall og auðvitað nokkra þætti af 24 yfir prínspólói og mjólk.

Ég læt hér staðar numið í bili og mun birta síðari hluta ævintýra Austfjörð systra í næsta bloggi. En vil nota tækifærið og þakka þeim innilega fyrir komuna, það var æðislega gaman að hafa þær og þær eru ávallt velkomnar.

Spider-woman

mánudagur, október 03, 2005

PPS
Ég tók word verification af commentunum því enginn kommentaði á allt fína bloggið og myndirnar þannig þetta hlýtur að hafa vafist eitthvað fyrir ykkur. Kommentið nú og látið mig vita hver er að lesa því það er svo gaman því þá er maður ekki eins einmana í stóra landinu...*sniff*

spider-woman með vasaklút
Já ég gleymdi að segja ykkur að ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að horfa á Íslenska bachelorinn á vefsjónvarpi skjás eins. Mér leið dálítið á svipaðan hátt og þegar ég horfði á The Office í fyrsta skipti. Nema að bacherlorinn var ekkert fyndinn bara pínlegur og þulurinn jós upp úr sér hverju gullkorninu á fætur öðru og minnti mig einmitt dálítið á David Brent.
Eitt þeirra var eitthvað á þessa leið "Sumir leggja upp í ferðalag en vita ekki hvert förinni er heitið". Þetta er alveg sérstakur hæfileiki að geta skrifað svona innihaldslausar línur sem eiga að vera ó svo djúpar. Held ég muni ekki horfa meira á það.

spider-woman
Nú fer að draga til tíðinda hér í Guildford því systurnar Austfjörð munu lenda hér á miðvikudagskvöld og dvelja í fínu íbúðinni fram á sunnudag. Ég lét Debenhams vita með von um að þau muni standa undir þessum auknu viðskiptum sem von er á að heimsóknin hafi í för með sér.

Á laugardaginn komu svo ferðalangarnir Atli og Anna Karen með stóru bakpokana sína og gistu á gólfinu áður en þau héldu heim á klakann. Það var voða gaman að sjá þau svona brún og hraustleg og svo fékk maður að heyra nokkrar sögur frá Kína og Mongólíu og þau á móti fengu allt slúðrið frá englandi - góð skipti það :D

lifið heil

spider-woman