Einhversstaðar las ég, á meðan ég var á klakanum, að verið væri að ræða að taka upp skólabúninga í íslenskum skólum. Ása er núna búin að vera í skólabúningum í næstum 3 ár og eftir þá reynslu verð ég að segja að ég er því algerlega hlynnt. Það er bæði peninga- og vinnusparandi og á þessum síðustu og verstu tímum held ég að íslendingum veiti ekki af hvoru tveggja til að eiga fyrir öllum innanstokksmununum sem Vala Matt er sífellt að troða upp á landann með skipulagðri áróðursherferð í boði Má Mí Mó og fleiri verslana.
Hér í landi eru skólabúningar mjög ódýrir og endast von úr viti. Það er hægt að þvo þá sundur og saman án þess að það sjái á þeim. (ég held að það sé búið að vefa trefjum úr skriðdrekastáli saman við efnið) Og ef að fólk kennir börnunum sínum snemma að vera snyrtileg þá er hægt að nota skólabúninginn í nokkra daga samfellt. Þar sem það er alltaf verið að hafa áhyggjur af því að konur séu að vinna of mikið og séu allar á barmi taugaáfalls þá munar þetta miklu þegar kemur að heimilisþvottinum. Skólabúningana þarf heldur ekki að strauja sem er mjög vinnusparandi fyrir þá sem hafa hingað til lagt þá iðju fyrir sig.
Ekki þarf lengur að elta hvern einasta tískustraum og ekki þarf að raða saman nýju setti af fötum fyrir hvern einasta dag. Því krakkar eru alltaf að verða meira eins og fullorðnir og þurfa alltaf að eiga það nýjasta og flottasta og geta helst ekki vera í sömu fötunum meira en einu sinni, því þá eru þau komin úr tísku. Ég held að það yrði mjög erfitt fyrir mig peningalega séð ef skólabúningar væru ekki til staðar hérna, sérstaklega hér í Guildford þar sem fólk virðist eiga fullt af peningum. Maður fær smá nasasjón af klæðnaði barnanna tvisvar til þrisvar á hverju skólaári þegar það eru sk. “non-uniform day” og það er ekkert slor sem er verið að senda krakkana í í skólann skal ég segja ykkur. Það þýðir heldur ekkert að stunda blekkingar starfsemi og senda krakkana í eftirlíkingum því mörg hver þekkja flottustu merkin og geta níðst á þeim sem koma í “Hagkaups” fötum. Ég er ekki að segja að skólabúningar leysi öll vandamál barna þegar kemur að einelti og stríðni. Ég held þó að þeir geti lyft nokkurri byrði af litlu herðunum og ég held að það muni um hvert gramm á þessum síðustu og verstu tímum. Ég held það þurfi ekkert að óttast um að skólabúningar steypi alla í sama mót, því þeir hafa verið við lýði hér í milljón ár og Bretland virðist hafa alið af sér þó nokkra “einstaklinga” sem hafa farið eigin leiðir í lífinu þrátt fyrir að hafa klæðst skólabúningum í æsku.
Sincerely
spider-woman