Ég ætla hér í dag að tjá mig aðeins um lýtaaðgerðir svona til að vera með í umræðunni sem mér skilst að sé í gangi heima. Fyrst vil ég tilkynna að ég er hvorki með né á móti lýtaaðgerðum eða raunveruleikaþáttum. Hins vegar er eitthvað sem truflar mig ótrúlega mikið við þessa samsetningu. Ég er búin að vera að grufla í mér og reyna að finna út af hverju þetta truflar mig svona mikið og ástæðan er sú að mér finnst þetta vera frekar sorgleg framþróun hjá mannskepnunni.
Ég sá þátt hérna í breska sjónvarpinu sem fjallaði meðal annars um 14 ára stúlku í Bandaríkjunum sem fór í fitusog því hún átti enga vini, var strítt í skólanum og hafði ekkert sjálfstraust að eigin sögn. Eftir aðgerðina leið henni greinilega mjög illa, þó hresstist hún aðeins þegar mamma hennar kom og færði henni súkkulaði að rúmstokknum.
Þessi hræðsla við að passa ekki inn í normið og hræðsla við að fara í skólann hafði lagt enn eitt fórnarlambið að velli. Það er auðveldara að fara í fitusog heldur en að standa uppi í hárinu á hinni ógnarsterku innrætingu að allir eigi að vera mjóir. Ef það er einhver von til þess að maður komist í gegnum dag í skólanum þar sem manni er ekki strítt þá grípur maður tækifærið og hrekkjusvínin vinna enn einn sigurinn. Fórnarlambið gefst upp og vinnur sér inn smá frið á meðan hrekkusvínin finna upp á einhverju öðru til að stríða út af.
Það sorglega er að hrekkjusvínin eru allstaðar og þau eru alltaf að vinna stærri og stærri sigra. Við erum öll lögð í einelti á hverjum degi og við erum svo vön því að við tökum ekki eftir því lengur. Við erum í sífellu hrædd við að vera púkó, feit, loðin, horuð, brjóstastór, limalítil, illa lyktandi, andfúl, ófríð, tuskuleg, halló, bólótt og svo mætti lengi telja. Ótal lausnir eru í boði og við kaupum þær allar því það er auðveldara en að mæta fordómafullu hrekkjusvínunum sem leggja línurnar um hvernig fólk á að líta út og hugsa.
Málið er ekki svo einfalt að ég ætli núna að bera kennsl á hrekkjusvínin og koma fram með einhverja lausn á málinu, því það sorglega er að um leið og við erum öll lögð í einelti þá erum við um leið öll hrekkjusvín- að mismiklu leyti samt.
Það erfiða í málinu er að sum hrekkjusvín hafa meira völd en önnur til að koma kúgun sinni á framfæri og það sorglegasta er að sum þeirra græða peninga á því að hræða aðra. Sum eru í þeirri afbragðsgóðu aðstöðu að geta gert bæði í einu. Þau leggja í sífellu línurnar um hvernig allt á að líta út, jafnt menn sem húsmunir og línurnar breytast með ákveðnu millibili svo allir lendi aftur á byrjunarreit og þurfi að byrja upp á nýtt að kaupa og breyta því sem á vantar. Svo vel vill til að þau geta líka selt þér það sem þig vantar. Lítil brjóst eru inn þetta árið, stór brjóst næsta, lögulegur rass, flatur rass, litlar augabrúnir, loðnar augabrúnir.
Við náum aldrei fullkomnun en reynum að halda í við hópinn og sjálfstraustið fer sífellt lækkandi. Ég hef enga trú á að lýtaaðgerðir lagi lítið sjálfstraust, það þarf eitthvað meira til en það. Örugg langtímalausn er að láta ekki leggja sig í einelti og láta boðskap hrekkjusvína sem vind um eyru þjóta. Það er því miður erfiðara að framkvæma en að predika.
Þetta eru mín tvö pens inn í þessa umræðu.
spider-woman