miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Jæja þá er það annar hluti umræða um tölvuleikjafíkn – fyrirvarinn er sá sami og við greinina hér að neðan. Var að enda við að horfa á seinni hluta umræðanna í Kastljósinu og datt eftirfarandi í hug:

Ég veit ekki alveg hvort það var vegna hraðrar yfirferðar og knapps tíma en mér fannst sálfræðingurinn sýna afar takmarkaðan skilning á því hvað dvöl á netinu þýðir fyrir fjölda einstaklinga. Ég snerti á þessu aðeins í spjallinu að neðan en fólk getur myndað mjög sterk tengsl sín á milli sem gæti skýrt ofsafengin viðbrögð þegar hreinlega tölvan* er tekin af fólki, eins og hann og þáttastýran spjölluðu aðeins um. Unglingsárin eru flókinn tími, unglingar eru misskildir og vita oft ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Eins og ég sagði áður þá eru netsamfélög yfirleitt mjög fordómalaus gagnvart nýjum meðlimum og taka þeim opnum örmum. Þannig að það kæmi mér ekki á óvart að blessuðum unglingunum fyndist oft auðveldara að spjalla við netfélagana en foreldra og skólafélaga. Það er nefnilega stundum gott að tala við “ókunnuga” þ.e. fólk sem þekkir þig ekki að öllu leyti.

Það er erfitt að skýra þetta fyrir fólki sem hefur ekki verið hluti af netleikssamfélagi en ég tel að ef foreldrar hafa af þessu áhyggjur þá er best að byrja á því að ræða við unglingana/krakkana. Það væri gott ef foreldrar gætu sýnt þessu sama áhuga og þeir sýna öðrum áhugamálum barna sinna. Það væru tildæmis tilvaldar samræður yfir kvöldmatnum milli krakka og foreldra að ræða um hvað gerðist í tölvuleiknum þann daginn. Ég held að því miður líti foreldrar á tölvunotkun sem eitthvað sem í besta falli þarf að þola og það þurfi ekki mikið til að þeir verði pirraðir ef notkunin er ekki eins og þeim líkar. Það getur komið því til leiðar að samskipti varðandi þennan þátt í lífi krakkanna verða afar stirð frá byrjun sem er auðvitað vandamál í sjálfu sér.

Sálfræðingurinn minntist á það að eitt hættumerkjanna sem leita þyrfti eftir væri að ungmennin vildu fara að borða við tölvuna. Þetta er nokkuð sem mjög auðvelt er að leysa ef viljinn er fyrir hendi og skilningur er sýndur á ástandinu. Látið krakkann vita með hálftíma fyrirvara að kvöldmaturinn sé á borðinu – það ætti að vera nægur tími til að hnýta lausa enda áður en “loggað er út”. Þetta á við um bæði fjölþáttökuleiki og fyrstu persónu skotleiki og í mörgum tilvikum spjallrásir. Fólki er nefnilega illa við að þurfa að logga snögglega út því þá þarf oft að skilja kunningjana eftir kannski niðri í dýpstu dýflissu sem þýðir á stundum að sendiförin er fyrir bí og allir þurfa að príla upp aftur. Ef nægur fyrirvari er gefinn er hægt að gera ráð fyrir því í skipulagningu hópsins ofl. Þetta er bara dæmi – ég veit ekki hvort þetta skilst... en það að krefjast þess að krakkinn komi á stundinni að borða er dálítið eins og að foreldri æði inn á fótboltaæfingu, æði inn á völlinn, og krefjist þess að barnið komi heim að borða á stundinni.
Fólk reynir að hliðra til svo að krakkar geti sinnt áhugamálum.....þetta er áhugamál þrátt fyrir að margir reyni að stilla þessu upp á móti íþróttaæfingum sem vont vs. gott. Þetta kom á daginn í viðtalinu þegar rætt var sem óæskilegt að krakkar misstu úr fótboltaæfingum vegna netspilunar. Ég held að oft vanti bara upp á að foreldrar sýni þessu áhuga og skilning þá kemur það af sjálfu sér að þeir geta betur komið auga á ef eitthvað er ekki eins og það á að vera í netleikjanotkun barnanna.


* Það verður að athuga hérna að það er oftast ekki tölvan sjálf sem einstaklingnum er illa við að missa heldur fólkið sem það hefur samband við í gegnum tölvuna. Í öllum þeim netleikjasamfélögum sem ég hef verið meðlimur í nýverið lætur fólk alltaf vita þegar það verður ekki við tölvuna í lengri tíma ef það er td að fara í frí. Ef einhver hverfur snögglega án þess að láta vita af sér þá hafa meðspilarar stundum áhyggjur að eitthvað hafi komið fyrir.

Það er eitthvað annað sem ég ætlaði að segja...jæja man það á morgun

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Fyrirvari: Eftirfarandi eru random hugsanir konu sem spilar mikið af net tölvuleikjum og hefur rannsakað þau í nokkur ár. Hún býr ennfremur með manni sem spilar all hressilega þegar sá gállinn er á honum.


Alltaf þegar ég hitti nýtt fólk sem spyr að því hvað ég er að gera og ég segi samviskusamlega...”Ég er að skrifa doktorsritgerð í félagsfræði um nettölvuleiki” þá hef ég annað hvort fengið svarið “fliss...það er nú hægt að fá gráður í öllu nútildags” eða “nú ertu þá að kanna vond áhrif á börn og unglinga?”. Eitt nýtt svar hefur þó bæst í hópinn nýverið og það er “ Ji!! Er það þetta sem allir verða bara háðir og hætt að hitta vini og kunningja?” Á þessu má sjá að fólk er mikið að spá í tölvuleikjafíkn þessa dagana og var nú bætt um betur þegar þessi nýja fíkn fékk mikla umfjöllun í Kastljósinu í gær.

Jamm.... fólk verður víst háð þessu eins og öðru, ég hef reyndar ekki hitt neinn sem gæti talist háður...allt er þetta fólk sem stundar sína vinnu/skóla, fer í frí, hugsar um börn og dettur í það um helgar og fer út að dansa eins og allt hraust fólk. En þetta fólk spilar mjög mikið...eins og ég og eins og Jozeph...því undirstaða þeirra samfélaga sem þarna eru staðsett er að fólk mæti á staðinn. Í staðin fær fólk fullt af hressilegum samskiptum við skemmtilegt fólk. Eftir öll mín ár í “bransanum” er ég með fullt af liði á msn contact listanum mínum sem ég hef spilað með og spjalla oft við þó svo að við spilum ekki sömu leiki lengur.

Í seinasta netleikjasamfélaginu sem ég rannsakaði og var meðlimur í fann ég hvað best hvað svona sýndarsamfélög geta skipt fólk miklu máli því ekki eiga allir því láni að fagna að hafa í kringum sig fullt af vinum og kunningjum. Því kom mér ekki á óvart að sálfræðingurinn í kastljósinu í gær segði að ákveðin prósenta þeirra sem væru greindir sem tölvuleikjafíklar ættu við kvíða og þunglyndi að stríða. Ég hef spilað með þunglyndis og kvíðasjúklingi sem átti mjög erfitt með að fara út á meðal fólks svo mest samskipti hans voru við okkur sem spiluðum með honum. Eins fékk hann fékk mjög mikinn stuðning frá samfélaginu og fólk bauð honum reglulega að hafa samband hvenær sem væri á msn, í síma, eða í leiknum ef hann þyrfti að spjalla.


Það eru nefnilega ekki allir sem spila netleiki einhverjar drápsvélar sem eiga ekki í neinum samskiptum við annað fólk. Allri netleikir hvort sem það eru fyrstu persónu skotleikir eða fjölþátttökuleikir byggja á samvinnu leikmanna og til þess að sú samvinna gangi sem snuðrulausast fyrir sig verða leikmenn að vera í stöðugum samskiptum. Hér áður fyrr var fólk mest í sambandi í gegnum vélritaðan texta og núna í gegnum teamspeak þar sem fólk talar við hvort annað í gegnum míkrafón. Á meðan ég skrifa þetta heyri ég einmitt karlmannsraddir úr svefnherberginu þar sem Jozeph er að spila með vinum sínum og tveimur bræðrum og það er mikið spjallað og hlegið. Þannig það er ekki að ástæðulausu að fólk tekur að eyða miklum tíma í þetta. Tölvuleikjasamfélögin eru líka einstök að því leyti að þar fá allir að vera með og enginn er skilinn útundan. Það skiptir engu máli hvor þú ert sæt/ur eða í fínum fötum.


Mér finnst að, svona svo að umræðan sé í jafnvægi, að það mætti líka fjalla um leiksamfélög og netleiki á jákvæðan hátt því flestir spila þessa leiki án þess að eiga í einhverjum erfiðleikum með þetta allt saman. Einnig vil ég nota tækifærið og óska öllum tölvuleikjafíklum góðs bata

miðvikudagur, ágúst 16, 2006


I nótt dreymdi mig ad ég var að kyssa Jack Bauer...hmmmm...hvað á það ad þýða? Og hvað á það að þýða ad vera að blogga á meðan maður á að vera að skrifa doktorsritgerð?

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Rölti í sakleysi mínu í bæinn og mitt í djúpum hugrenningum mínum um allt og ekkert var rekin framan í mig hljóðnemi og ég spurð af manni frá BBC hvað mér fyndist um að eitthvað council hefði sett upp vefsíðu þar sem borgarar geta sent inn myndir sem þeir hafa tekið af lýðnum sem stundar graffiti og skemmdarverk. Það vill svo vel til að ég hef á þessu miklar skoðanir en þegar maður er spurður svona "on the spot" þá man konan aldrei neitt og tafsar bara einhverja vitleysu á meðan hjartað berst um ótt og títt. En á ferð minni um bæinn þá náttúrulega mundi ég allt sem ég hefði átt að segja en þá var nú maðurinn bara horfinn. En þið lesendur góðir munuð nú njóta góðs af :

* Í fyrsta lagi finnst mér eitthvað ógeðfellt við þetta "klaga skalt þú nágranna þinn" viðhorf sem virðist vera að ryðja sér til rúms víða. Tony Blair kallar þetta að "involve the communities in the fight agains yob culture and vandalism". Þarna finnst mér farið fram hjá öllum þeim leiðum sem komið hefur verið upp til að eiga við þá sem eru með vesen og fólk (í þessu tilviki mest unglingskrakkar) er tekið úr umferð án dóms og laga bara af því nágranninn sagði það. Dómsvald er mikilvægara og vandmeðfarnara en svo að það eigi að vera í höndum fólks úti í bæ.

*Í öðru lagi finnst mér verið að koma ábyrgð yfir á borgarana - þessi ábyrð finnst mér að eigi að vera stjórnvalda. En stjórnvöld þessa dagana reyna að koma sér undan því að gera það sem þau eru kosin til- að sjá um að lögum og reglu sé framfylgt og að reka þjónustu við almenning s.s. menntastofnanir, heilbrigðiskerfi, samgöngukerfi ofl. Stjórnvöld þessa lands (UK) virðast einblína mest á það að fokka upp sem mest í öðrum löndum og eyða skattpeningum í það.

*Í þriðja lagi finnst mér fyrir neðan allar hellur að rekin sé opinber vefsíða með myndum af krökkum (því ég þori að veðja að meirihlutinn af þessum skemmdarvörgum eru krakkar.) Krakkar eiga rétt á einkalífi eins og aðrir og vefsíður af þessu tagi geta verið stórlega misnotaðar.

*í fjórða lagi finnst mér að allir hafi bara gefist upp á að spjalla við krakka fyrir löngu. Þeir eru mest bara fyrir og þegar þeir brjóta af sér þá er bara um að gera að taka mynd og skella á vefsíðu eða jafnvel skella á þau eins og 1-2 ASBO (anti social behaviour order) og málið er úr sögunni. Krakkar eru líka fólk og flest vilja að komið sé fram við þau af sömu virðingu og krafist er að þau sýni öðrum.


Ég veit ekki alveg hvað þessi vefsíða á að leysa en ég veit að mér finnst þetta afleit og heimskuleg hugmynd og þar hafiði það!!

Styttri og pínlegri útgáfu af þessari ræðu er hægt að heyra á BBC á morgun :D