þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Fyrirvari: Eftirfarandi eru random hugsanir konu sem spilar mikið af net tölvuleikjum og hefur rannsakað þau í nokkur ár. Hún býr ennfremur með manni sem spilar all hressilega þegar sá gállinn er á honum.


Alltaf þegar ég hitti nýtt fólk sem spyr að því hvað ég er að gera og ég segi samviskusamlega...”Ég er að skrifa doktorsritgerð í félagsfræði um nettölvuleiki” þá hef ég annað hvort fengið svarið “fliss...það er nú hægt að fá gráður í öllu nútildags” eða “nú ertu þá að kanna vond áhrif á börn og unglinga?”. Eitt nýtt svar hefur þó bæst í hópinn nýverið og það er “ Ji!! Er það þetta sem allir verða bara háðir og hætt að hitta vini og kunningja?” Á þessu má sjá að fólk er mikið að spá í tölvuleikjafíkn þessa dagana og var nú bætt um betur þegar þessi nýja fíkn fékk mikla umfjöllun í Kastljósinu í gær.

Jamm.... fólk verður víst háð þessu eins og öðru, ég hef reyndar ekki hitt neinn sem gæti talist háður...allt er þetta fólk sem stundar sína vinnu/skóla, fer í frí, hugsar um börn og dettur í það um helgar og fer út að dansa eins og allt hraust fólk. En þetta fólk spilar mjög mikið...eins og ég og eins og Jozeph...því undirstaða þeirra samfélaga sem þarna eru staðsett er að fólk mæti á staðinn. Í staðin fær fólk fullt af hressilegum samskiptum við skemmtilegt fólk. Eftir öll mín ár í “bransanum” er ég með fullt af liði á msn contact listanum mínum sem ég hef spilað með og spjalla oft við þó svo að við spilum ekki sömu leiki lengur.

Í seinasta netleikjasamfélaginu sem ég rannsakaði og var meðlimur í fann ég hvað best hvað svona sýndarsamfélög geta skipt fólk miklu máli því ekki eiga allir því láni að fagna að hafa í kringum sig fullt af vinum og kunningjum. Því kom mér ekki á óvart að sálfræðingurinn í kastljósinu í gær segði að ákveðin prósenta þeirra sem væru greindir sem tölvuleikjafíklar ættu við kvíða og þunglyndi að stríða. Ég hef spilað með þunglyndis og kvíðasjúklingi sem átti mjög erfitt með að fara út á meðal fólks svo mest samskipti hans voru við okkur sem spiluðum með honum. Eins fékk hann fékk mjög mikinn stuðning frá samfélaginu og fólk bauð honum reglulega að hafa samband hvenær sem væri á msn, í síma, eða í leiknum ef hann þyrfti að spjalla.


Það eru nefnilega ekki allir sem spila netleiki einhverjar drápsvélar sem eiga ekki í neinum samskiptum við annað fólk. Allri netleikir hvort sem það eru fyrstu persónu skotleikir eða fjölþátttökuleikir byggja á samvinnu leikmanna og til þess að sú samvinna gangi sem snuðrulausast fyrir sig verða leikmenn að vera í stöðugum samskiptum. Hér áður fyrr var fólk mest í sambandi í gegnum vélritaðan texta og núna í gegnum teamspeak þar sem fólk talar við hvort annað í gegnum míkrafón. Á meðan ég skrifa þetta heyri ég einmitt karlmannsraddir úr svefnherberginu þar sem Jozeph er að spila með vinum sínum og tveimur bræðrum og það er mikið spjallað og hlegið. Þannig það er ekki að ástæðulausu að fólk tekur að eyða miklum tíma í þetta. Tölvuleikjasamfélögin eru líka einstök að því leyti að þar fá allir að vera með og enginn er skilinn útundan. Það skiptir engu máli hvor þú ert sæt/ur eða í fínum fötum.


Mér finnst að, svona svo að umræðan sé í jafnvægi, að það mætti líka fjalla um leiksamfélög og netleiki á jákvæðan hátt því flestir spila þessa leiki án þess að eiga í einhverjum erfiðleikum með þetta allt saman. Einnig vil ég nota tækifærið og óska öllum tölvuleikjafíklum góðs bata

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Sæl, ég datt hér inn fyrir tilviljun og hafði gaman af þessari færslu um netleiki. Þannig er að dóttir mín er ein af þeim sem á ekki mikið af vinum, en er mikið í netleikjum og myndar tengsl við netvini sína, sem eru um allan heim.
Ég er fegin að heyra þitt álit á þessu því umræðan er oft svo neikvæð. Þetta er áhugaverður ,,heimur" og ég mun fylgjast með áfram.
Kveðja, Sigrún
K

10:03 f.h.  
Blogger londonbaby said...

Sæl Sigrún og takk fyrir innlitið og endilega ef þú vilt spyrja að einhverju láttu bara vaða. Gott að heyra að það eru ekki allir foreldrar sem láta hræðast af þessari neikvæðu umræðu :)

kv

Þórdís

8:42 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home