miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Jæja þá er það annar hluti umræða um tölvuleikjafíkn – fyrirvarinn er sá sami og við greinina hér að neðan. Var að enda við að horfa á seinni hluta umræðanna í Kastljósinu og datt eftirfarandi í hug:

Ég veit ekki alveg hvort það var vegna hraðrar yfirferðar og knapps tíma en mér fannst sálfræðingurinn sýna afar takmarkaðan skilning á því hvað dvöl á netinu þýðir fyrir fjölda einstaklinga. Ég snerti á þessu aðeins í spjallinu að neðan en fólk getur myndað mjög sterk tengsl sín á milli sem gæti skýrt ofsafengin viðbrögð þegar hreinlega tölvan* er tekin af fólki, eins og hann og þáttastýran spjölluðu aðeins um. Unglingsárin eru flókinn tími, unglingar eru misskildir og vita oft ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Eins og ég sagði áður þá eru netsamfélög yfirleitt mjög fordómalaus gagnvart nýjum meðlimum og taka þeim opnum örmum. Þannig að það kæmi mér ekki á óvart að blessuðum unglingunum fyndist oft auðveldara að spjalla við netfélagana en foreldra og skólafélaga. Það er nefnilega stundum gott að tala við “ókunnuga” þ.e. fólk sem þekkir þig ekki að öllu leyti.

Það er erfitt að skýra þetta fyrir fólki sem hefur ekki verið hluti af netleikssamfélagi en ég tel að ef foreldrar hafa af þessu áhyggjur þá er best að byrja á því að ræða við unglingana/krakkana. Það væri gott ef foreldrar gætu sýnt þessu sama áhuga og þeir sýna öðrum áhugamálum barna sinna. Það væru tildæmis tilvaldar samræður yfir kvöldmatnum milli krakka og foreldra að ræða um hvað gerðist í tölvuleiknum þann daginn. Ég held að því miður líti foreldrar á tölvunotkun sem eitthvað sem í besta falli þarf að þola og það þurfi ekki mikið til að þeir verði pirraðir ef notkunin er ekki eins og þeim líkar. Það getur komið því til leiðar að samskipti varðandi þennan þátt í lífi krakkanna verða afar stirð frá byrjun sem er auðvitað vandamál í sjálfu sér.

Sálfræðingurinn minntist á það að eitt hættumerkjanna sem leita þyrfti eftir væri að ungmennin vildu fara að borða við tölvuna. Þetta er nokkuð sem mjög auðvelt er að leysa ef viljinn er fyrir hendi og skilningur er sýndur á ástandinu. Látið krakkann vita með hálftíma fyrirvara að kvöldmaturinn sé á borðinu – það ætti að vera nægur tími til að hnýta lausa enda áður en “loggað er út”. Þetta á við um bæði fjölþáttökuleiki og fyrstu persónu skotleiki og í mörgum tilvikum spjallrásir. Fólki er nefnilega illa við að þurfa að logga snögglega út því þá þarf oft að skilja kunningjana eftir kannski niðri í dýpstu dýflissu sem þýðir á stundum að sendiförin er fyrir bí og allir þurfa að príla upp aftur. Ef nægur fyrirvari er gefinn er hægt að gera ráð fyrir því í skipulagningu hópsins ofl. Þetta er bara dæmi – ég veit ekki hvort þetta skilst... en það að krefjast þess að krakkinn komi á stundinni að borða er dálítið eins og að foreldri æði inn á fótboltaæfingu, æði inn á völlinn, og krefjist þess að barnið komi heim að borða á stundinni.
Fólk reynir að hliðra til svo að krakkar geti sinnt áhugamálum.....þetta er áhugamál þrátt fyrir að margir reyni að stilla þessu upp á móti íþróttaæfingum sem vont vs. gott. Þetta kom á daginn í viðtalinu þegar rætt var sem óæskilegt að krakkar misstu úr fótboltaæfingum vegna netspilunar. Ég held að oft vanti bara upp á að foreldrar sýni þessu áhuga og skilning þá kemur það af sjálfu sér að þeir geta betur komið auga á ef eitthvað er ekki eins og það á að vera í netleikjanotkun barnanna.


* Það verður að athuga hérna að það er oftast ekki tölvan sjálf sem einstaklingnum er illa við að missa heldur fólkið sem það hefur samband við í gegnum tölvuna. Í öllum þeim netleikjasamfélögum sem ég hef verið meðlimur í nýverið lætur fólk alltaf vita þegar það verður ekki við tölvuna í lengri tíma ef það er td að fara í frí. Ef einhver hverfur snögglega án þess að láta vita af sér þá hafa meðspilarar stundum áhyggjur að eitthvað hafi komið fyrir.

Það er eitthvað annað sem ég ætlaði að segja...jæja man það á morgun

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Kannski er ég svona græn en ég skil ekki hvernig fólk hefur tíma í þessa tölvuleiki, ég hef ekki einusinni tíma til að leggja kapal í tölvunni.

11:26 f.h.  
Blogger londonbaby said...

Halló Halla frænka...gaman að "sjá" þig..er ekki allt gott að frétta?

Ég skil hvað þú meinar...ég skil td ekki hvernig fólk hefur tíma til að ganga/keyra á fjöll, legga flísar og byggja sólpalla, fara í golf, baka, elda, laga til og sauma. Þetta er bara spurning um að forgangsraða rétt þá er alltaf nægur tími til að spila tölvuleiki ;)

4:55 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hæ skvísa,
var að lesa þessar færslur núna...var e-ð að þvælast erlendis þegar þetta var skrifað...

Vildi bara segja þér að mér finnst þetta rosa góð og áhugverð umræða hjá þér.

Alltaf gaman að lesa bloggið þitt.

Heyrumst síðar..
Anna Karen

12:46 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home