fimmtudagur, júlí 14, 2005

Það eru ávallt miklar áhyggjur sem plaga eldri kynslóðirnar sem varða áhrif afþreyingarmenningar hverskonar á ungdóminn. Undir afþreyingarmenningu myndi ég flokka tölvuleiki, dægurtónlist, bíómyndir, sjónvarp, útvarp og tímarit. Þessir miðlar eru fullir af klámi, ofbeldi og almennri mannfyrirlitningu sem ungdómurinn étur upp og fer síðan og lemur gamlar konur niðri í miðbæ, nauðgar, myrðir og sprautar sig með eiturlyfjum. Allt ku þetta eiga rætur að rekja til fyrirmynda í áðurnefndum miðlum.
Þetta vekur viðbrögð af ýmsum toga, sumir vilja banna allt sem sem hefur neikvæð áhrif, aðrir vilja ritskoða og setja aldurstakmarkanir og aðrir láta sér nægja að hafa af þessu miklar áhyggjur og tjá þær reglulega í fjölmiðlum.
Fjórða leiðin sem mig langar að leggja til hér er að kenna í skólum fjölmiðlalæsi sem miðar að því að nota afþreyingarmenningu til að vekja umræður hjá ungdómnum um þau skilaboð sem í henni felast. Það þarf enginn að segja mér að ungdómurinn gleypi bara allt það rugl sem er beint að þeim í fjölmiðlum. Unga fólkið hefur eins góða möguleika á gagnrýnni hugsun og við gamla fólkið. (sumt eldra fólk hefur reyndar enga möguleika en það er efni í annan pistil)
Mér finnst um að gera að virkja ungdóminn í að hugsa um afþreyingarmenningu og ég er viss um að tímarnir gætu verið mjög skemmtilegir. Það væri til dæmis hægt að fjalla um kynímyndir, samkynhneigð og þjóðerni/litarhátt með tilvísun í sjónvarpsþætti, tölvuleiki og bíómyndir. Hvernig líst ykkur á það?
Ef menntamálaráðuneytið vantar einhvern til að hanna þennan kúrs þá er ég til.

laugardagur, júlí 09, 2005

Nú hef ég lesið á endalaust mörgum íslenskum bloggsíðum vangaveltur um af hverju okkur finnist hræðilegra að 50 manns deyi í London en í Írak. Auðvitað er það ekkert hræðilegra en það er nú einu sinni svo að fólk virkar aðeins öðruvísi en vasareiknar og öll umgjörð og samhengi sem þessi dráp eiga sér stað í skipta miklu máli í hvernig við hugsum um þau.

Fjarlægð skiptir öllu máli í þessu samhengi, ekki aðeins fjarlægð í kílómetrum heldur sú fjarlægð sem okkur hefur tekist að mynda í huga okkar. Írak er lengra frá Íslandi en London, sárafáir Íslendingar hafa farið til Írak og síðan ég man eftir mér hefur verið stríð einhversstaðar í Mið-Austurlöndum og við höfum enga möguleika á að upplifa þessi stríð öðruvísi en í gegnum fjölmiðla sem hefur löngu tekist að deyfa okkur fyrir þeirri staðreynd að þetta sé fólk eins og við. Fjölmiðlar nota hugtök eins og vígamenn, öfgasinnar og ofsatrúarmenn til að aðskilja þetta fólk frá okkur og þeim heimi sem við lifum í. Það eru engin “in-depth” viðtöl við fórnarlömb stríðs í Írak, núna eru þetta bara tölur um mannsfall á hverjum degi. Engin andlit, engar fjölskyldusögur- bara tölur.

London er nær okkur, bæði í huga og kílómetrafjölda. Langflestir Íslendingar hafa komið til London og þekkja einhvern sem býr hérna. Íslendingar flykkjast hingað í verslunarferðir og brölta upp og niður þessar sömu götur og taka þessar sömu lestir og sprengdar voru upp. Fólkið sem var sprengt í loft upp var bara fólk á leiðinni í vinnuna, þau voru ekki vígamenn eða öfgasinnar í augum fjölmiðla og þar afleiðandi ekki heldur í okkar augum. Í London er ekki stríð, hérna er bara gott fólk að drekka te og borða biscuits, rauðir tveggja hæða strætóar og voða fínar fatabúðir.

Stereótýpur eru sterkar í hugum okkar, eins og áðurnefndar bloggfærslur benda á. Við erum öll í sífellu að draga fólk í dilka, við og hinir, hverjir hinir eru fer eftir samhengi hverju sinni. Öll mannslíf eru sannarlega jafnmikils virði en við eigum ekkert að skammast okkar fyrir að bregða í brún og taka nærri okkur manndráp sem okkur finnst standa okkur nær. En látum það minna okkur á að þetta er allt sama stríðið og fólk er drepið á hverjum degi. Þetta er allt hluti af sama virðingarleysinu fyrir mannslífum og þetta á eftir að halda áfram þangað til að stríðsherrar sjá að sér og hætta þessarri andskotans vitleysu.

(Ég viðurkenni hér með að ég tók sprengingarnar í London meira nærri mér en fréttir af mannfalli undanfarið í Írak og þessi færsla er kannski mest skrifuð fyrir sjálfa mig til að sannfæra mig um að ég sé ekkert voða vond manneskja)

spider-woman

fimmtudagur, júlí 07, 2005


*Andvarp* Á svona degi er maður bara orðlaus. En ég skelli hérna inn mynd af Vivianne eins og ég var búin að lofa. Skrifa meira seinna.

mánudagur, júlí 04, 2005

Ég er enn á lífi en hef frá engu að segja held ég bara. Ég horfði á Live8 í sjónvarpinu og hafði nokkuð gaman að. Eitt sem ég skil reyndar ekki og það er þessi óendanlega gleði og snobb fyrir Paul McCartney. Mér finnst bara ekkert varið í hann, hann er með litla mýslurödd og þegar hann söng Helter Skelter þá var það bara voða sorglegt og gott ef hann var ekki bara falskur greyið. Fullt af skemmtilegri tónlistarmönnum á Live8 eins og td Velvet Revolver sem hann Slash sem var í Guns´n´Roses er núna í og þeir rokka vel og lengi í fatahengi, mun betur en vælukjóinn hann Paul.

Ég á afmæli í dag og í tilefni af því fékk ég morgunmat í rúmið og tvo pakka, 1 stk geisladisk með áðurnefndri Velvet Revolver og síðan þennan fína Joystick svo ég geti spilað Star Wars Galaxies: Jump to Lightspeed almennilega og skotið niður hyskið hans Darth Vader. Fyrir þau ykkar sem eruð ekki með á nótunum þá er Star Wars Galaxies leikurinn sem ég er að rannsaka og Jump to Lightspeed er geimleikur sem er viðbót við þann leik. Ég spila herlækninn Vivianne, þarf að skella inn mynd af henni við tækifæri svo þið sjáið hvað hún er flott.

Jæja hafið það gott greyin mín

spider-woman

ps Ég kem til Íslands 21.júlí og fer heim 26.júlí og ég vona að ég sjái sem flest ykkar.