laugardagur, júlí 09, 2005

Nú hef ég lesið á endalaust mörgum íslenskum bloggsíðum vangaveltur um af hverju okkur finnist hræðilegra að 50 manns deyi í London en í Írak. Auðvitað er það ekkert hræðilegra en það er nú einu sinni svo að fólk virkar aðeins öðruvísi en vasareiknar og öll umgjörð og samhengi sem þessi dráp eiga sér stað í skipta miklu máli í hvernig við hugsum um þau.

Fjarlægð skiptir öllu máli í þessu samhengi, ekki aðeins fjarlægð í kílómetrum heldur sú fjarlægð sem okkur hefur tekist að mynda í huga okkar. Írak er lengra frá Íslandi en London, sárafáir Íslendingar hafa farið til Írak og síðan ég man eftir mér hefur verið stríð einhversstaðar í Mið-Austurlöndum og við höfum enga möguleika á að upplifa þessi stríð öðruvísi en í gegnum fjölmiðla sem hefur löngu tekist að deyfa okkur fyrir þeirri staðreynd að þetta sé fólk eins og við. Fjölmiðlar nota hugtök eins og vígamenn, öfgasinnar og ofsatrúarmenn til að aðskilja þetta fólk frá okkur og þeim heimi sem við lifum í. Það eru engin “in-depth” viðtöl við fórnarlömb stríðs í Írak, núna eru þetta bara tölur um mannsfall á hverjum degi. Engin andlit, engar fjölskyldusögur- bara tölur.

London er nær okkur, bæði í huga og kílómetrafjölda. Langflestir Íslendingar hafa komið til London og þekkja einhvern sem býr hérna. Íslendingar flykkjast hingað í verslunarferðir og brölta upp og niður þessar sömu götur og taka þessar sömu lestir og sprengdar voru upp. Fólkið sem var sprengt í loft upp var bara fólk á leiðinni í vinnuna, þau voru ekki vígamenn eða öfgasinnar í augum fjölmiðla og þar afleiðandi ekki heldur í okkar augum. Í London er ekki stríð, hérna er bara gott fólk að drekka te og borða biscuits, rauðir tveggja hæða strætóar og voða fínar fatabúðir.

Stereótýpur eru sterkar í hugum okkar, eins og áðurnefndar bloggfærslur benda á. Við erum öll í sífellu að draga fólk í dilka, við og hinir, hverjir hinir eru fer eftir samhengi hverju sinni. Öll mannslíf eru sannarlega jafnmikils virði en við eigum ekkert að skammast okkar fyrir að bregða í brún og taka nærri okkur manndráp sem okkur finnst standa okkur nær. En látum það minna okkur á að þetta er allt sama stríðið og fólk er drepið á hverjum degi. Þetta er allt hluti af sama virðingarleysinu fyrir mannslífum og þetta á eftir að halda áfram þangað til að stríðsherrar sjá að sér og hætta þessarri andskotans vitleysu.

(Ég viðurkenni hér með að ég tók sprengingarnar í London meira nærri mér en fréttir af mannfalli undanfarið í Írak og þessi færsla er kannski mest skrifuð fyrir sjálfa mig til að sannfæra mig um að ég sé ekkert voða vond manneskja)

spider-woman

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þú ert voða góð manneskja - puss och kram.

2:06 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home