Elsku fólk fjær og nær
Ég gerði mér allt í einu grein fyrir að ég gleymid alveg að segja ykkur frá þegar móðir mín var hérna og við ásamt Ásu tásu fórum í indverska Shikh brúðarveislu. Við reyndar fórum ekki í brúðkaupið sjálft heldur í veisluna sem var daginn fyrir brúðkaupið(brúðkaupið stendur í 3 daga nefnilega). Við fórum í Chura sem er einskonar brúðarveisla, þar sem fjölskylda móður brúðarinnar er að senda hana af stað í faðm mannsins.
Þannig er mál með vexti að systir Parm vinkonu minnar var að fara að gifta sig og þess vegna vildi Parm endilega bjóða okkur til að sjá traditional Shikh brúðkaup. Jozeph var að vinna þannig ´mamma kom bara með í staðinn. Við mæðgur vorum voða nervus þegar við vorum að nálgast húsið, ég var helst nervus yfir að gera kannski einhvern skandal í brúðarveislunni og skemma fyrir öllum með því að gera eitthvað sem ekki má. Einnig bjóst ég við allskonar hefðum og dagskrá og allt yrði voða stíft eins og er stundum í brúðkaupum heima og allt voða heilagt þangað til allir eru orðnir drukknir.
Ekki alveg.
Skömmu eftir að við mættum fór húsið að fyllast af fólki og búið var að tjalda yfir garðinn, þar sem voru borð og stólar og matur var framreiddur. Ég og mamma settumst náttúrulega þangað og gæddum okkur á indversku góðgæti ýmiskonar. Síðan vorum við á elífu flakki inn og út úr húsinu því það var alltaf eitthvað að gerast inni sem við vildum ekki missa af. Fyrst voru konurnar í móðurætt brúðarinnar að syngja við útidyrahurðina til að móðga karlmenn í föðurætt hennar og meina þeim inngöngu. Þegar þeir voru loks komnir inn með fullt af gjöfum settust þeir úti í tjald að borða og drekka og hreyfðust minnst þaðan.
Síðan byrja konur að strá marglitum sandi í mynstur á litla fjöl á gólfinu og brúðurinn settist þar og var nudduð með turmerik paste til að jafna húðlitinn á meðan konurnar sungu og héldu yfir henni efnisbút. Á meðan á öllu þessu stóð var líka DJ að spila bhangra danstónlist og fólk að borða, karlar að drekka og börn að hlaupa út um allt. Þetta var semsagt ekki eins heilagt og ég hélt heldur frekar óreiðukennt og við vissum minnst hvað var að gerast, ég og móðir mín.
Eftir nokkra stund reis brúðurin á fætur og síðan var farið að taka upp gjafir og dreifa á stofugólfið svo allir gætu séð hversu vel hún var búin til að flytja að heiman og á meðan á því stóð var fólk allstaðar að, inni og úti, ekkert endilega að fylgjast með þessu og aldrei hreyfðust kallarnir og konurnar sungu. Eftir þetta var gjöfunum komið fyrir einhversstaðar og nokkrar konur byrjuðu að dansa með kerti á höfðinu í einskonar vasa. Þær sungu og klöppuðu og skiptust á að dansa með kertin. Aldrei hreyfðust kallarnir fyrr en að því kom að setja á hina verðandi brúður armbönd sem hún á að bera fyrsta mánuð eftir brúðkaup. Síðan fóru þeir aftur út í tjald. Á meðan á þessu stóð var í sífellu verið að ota að okkur mat, DJ-inn spilaði nútíma indverska danstónlist og konurnar sungu. Ása hljóp um allt með krökkunum og heyrðist með ákveðnu millibili "excuse me!!!" inni í mannþrönginni og þar var ungfrú Ása að pota sér á milli alls fólksins.
Þetta var voða flott og fínt brúðkaup og við skemmtum okkur vel þó að við værum hálf týndar í hvað væri að gerast. Pabbi brúðarinnar var mjög duglegur við að koma okkur á besta stað til að ég gæti tekið myndir af öllu saman og ýtti þá bara syngjandi konunum frá og bjó til stað fyrir okkur.
Við mættum klukkan sex og vorum til tíu um kvöldið og ég borðaði á mig gat af allskonar réttum en þegar við vorum að fara sagði Parm okkur að nú væri þetta rétt að byrja og aðalrétturinn að koma á borðið. Við urðum hálf kindarlega yfir að fara svona snemma en hún sagði okkur að það væri fullt af fólki farið en aldrei minnkaði mannmergðin í húsinu, þvi alltaf bættist við. Það var sem sagt ekki endilega mæting stundvíslega klukkan sex eins og við héldum, heldur mátti bara droppa við þegar maður vildi.
Þetta var hin besta skemmtun og ég mun reyna að koma myndum á netið til að sýna ykkur dýrðina.
Góðar stundir
spider-woman