sunnudagur, júní 15, 2003

'Old habits die hard'

Ég þjáist enn dálítið illa af góðaveðurssyndrominu sem þjáir margan íslendinginn sem lýsir sér í því að það þarf alltaf eitthvað mikið að gerast ef það er gott veður. Það þarf að fara í sund (helst ekki í sömu sundlaug og alltaf heldur kannski á Selfossi eða í Njarðvík), kaupa ís, fara og setjast á Austurvöll, gefa öndunum, fara í grasagarðinn, þvo bílinn, grilla eða eitthvað annað sem felst í því að sitja ekki bara inni. Það er búið að vera voða sólríkt hérna og heitt undanfarið og ákvað ég þess vegna í dag að ég og Ása skyldum fara á markað sem mig er mikið búið að langa að fara á síðan við fluttum hingað. Vandinn er sá að hann er í hinum hlutanum á London og felur í sér um klst. ferðalag með lest. En maður er náttúrulega ekki að hanga inni í svona góðu veðri. Úffff... þetta var dálítið erfitt því að ég gleymdi London hlutanum af þessu plotti. Það er sem sagt VOÐA heitt,VOÐA mikið af fólki að troðast, fólk að æpa ýmis tilboð, bílar að flauta, ekkert loft í neðanjarðarlestinni og sól sem reynir að stinga mann í höfuðleðrið. Þannig var það allavega á Petticoat Lane markaðnum sem var bara ekkert spes! Ferðinni var hins vegar heitið á Spitalfields markaðinn og ég mæli hiklaust með honum! Þar er ekkert svona túristadrasl og farsímahulstur með Justin Timberlake stemming í gangi. Þar er bara svona sniðugir og flottir hlutir sem fólk hefur búið til sjálft (föt, töskur og innanstokksmunir), grænmetisætumatur, lífrænt ræktað fræ, fótlaga skór, kitch dót mikið og flott og alger gleði. Síðan var hljómsveit að spila og fólk að chilla og drekka bjór. Og það besta var að þetta var inni í stóru vöruhúsi þannig að það var alveg mátulega heitt. Ég vil þess vegna nota tækifærið og mæla með þessum markaði við alla sem vilja heyra. Tube stöðvar eru Liverpool Street og Aldgate East ef einhver er á leiðinni!!
Við komum heim þreyttar, sveittar en sælar eftir góðan (pínku erfiðan) dag!!

Heyr Heyr

spider-woman

föstudagur, júní 13, 2003

Góðan dag góðan dag!

Ég vildi bara deila því með ykkur að ég er búin að setja útiblóm í pott í garðinum og reyta illgresi og geri aðrir betur. Við hérna númer fimm áttum nefnilega lúðalegasta garðinn í allri götunni og ég held meira að segja að allt grasið okkar sé dáið! Kannski lifnar það við ef það rignir pínu. Æðislegt veður í dag og ég held meira að segja að ég sé pínu brún eftir daginn. Ég og Ása fórum í Woolworths áðan að kaupa afmælisgjöf handa skólafélaga, en afmælið hans er á morgun og í þetta skipti er ég alveg viss. Það var pínu hátíð í Woolworths af því að þeir voru að breyta búðinn og gera hana flottari. Það sem pirraði mig alveg voða mikið var að núna eru stelpuleikföng sér merkt 'Girls Toys' og síðan strákaleikföng sér 'Boys Toys'. Það er svei mér þá bara hægt að fá bleik stelpuleikföng, í bleikum umbúðum í bleiku deildinni og síðan eins hjá strákunum nema þar er allt blátt. Nú finnst mér þetta bara svo gamaldags og halló að ég var alveg að rifna af pirringi þarna inni. Þetta var bara eins og í gamla daga, eða gömlu dagarnir eru kannski ekki svo gamlir eftir allt saman? Stelpur eiga að leika sér með dúkkur sem eru afmyndaðar af því að þær eru með svo stórar varir, stór augu, lítil nef og rauðar kinnar og strákar eiga að leika sér að því að setja saman vélmenni sem síðan skjóta önnur vélmenni. Síðan eru búningar fyrir stúlkurnar sem er hægt að kaupa, það eru Mjallhvít og Öskubuska sem gerðu aldrei neitt annað en að væflast eitthvað um og vera byrlað eitur og bjargað af prinsum. Drengirnir hafa skemmtilega búninga, t.d Spiderman sem bjargar fullt af fólki og er alveg rosakúl og Harry Potter sem kann að galdra. Þetta er barasta svindl!!!!
Það fer ekki mikið fyrir hugmyndaflugi í leikfangaframleiðslu finnst mér. Hnuss!!!


Sumar og sólarkveðjur frá Englandi


spider-woman

p.s. vð keyptum sem sagt litla sápukúluvél handa drengnum svona sem blæs margar sápukúlur í einu. Ása var alveg handviss um að hann hefði gaman af því en síðan tjáði hún mér á leiðinni heim að hún væri voða spennt að fara í afmælið til að fá að prófa gripinn, þannig ég hef hana grunaða um að setja sína hagsmuni aðeins ofar hagsmunum afmælisbarnsins.

mánudagur, júní 09, 2003

Nick Cave er snillingur mikill !!!
Þetta hef ég lengi vitað og reynt að telja öllum trú um, með mismunandi árangri samt. Ég fór loksins loksins loksins á tónleika þessa mæta manns í gærkvöldi og ég á bara ekki til orð!!! Ég á eftir að lifa lengi á þessari snilld og búin að taka fram alla diskana mína og hlustaði á þá í dag. Hann tók frábær lög eins og Christina the Astonishing, sem ég hef ekki hlustað á í mörg ár og The Mercy Seat sem er alger snilld. Svo er hann líka svo mikill fox á sviðinu í þröngu svörtu jakkafötunum með dimmu röddina og sígarettu í munnvikinu og spilar svona snilldarvel á píanó. Eins og þið sjáið þá er ég voða upprifin og gæti haldið áfram í allan dag að skrifa en ég held ég láti hér staðar numið... ég á hvort eð er aldrei eftir að koma þessu almennilega í orð!!! Skil hér eftir smá vers frá honum úr laginu Do you love me? af Let Love In.

I found her on the night of fire and noise
Wild bells rang in a wild sky
I knew from that moment on
I´d love her till the day that I died
And I kissed away a thousand tears
My lady of the Various Sorrows
Some begged,
some borrowed,
some stolen
Some kept safe for tomorrow



Hann lengi lifi!!!


spider-woman

mánudagur, júní 02, 2003

Halló halló. Ég var að koma inn frá því að hafa verið voða spræk og skellt mér út að skokka...rosa gaman að skokka svona úti í sólinni og góða veðrinu :) Var samt frekar uppgefin þegar ég kom inn móð og másandi og gat ekki alveg svarað Ásu litlu strax þegar hún spurði hvar ég hefði verið, af hverju ég hefði verið úti að skokka og af hverju ég væri svona móð.
Af mér er annars allt sæmilegt að frétta svona miðað við aðstæður. Ég ætla bara að láta ykkur sem viljið af því vita að ég kem heim föstudaginn 6. júní og verð til 15 :)

Jæja ég ætla að skella mér í sturtu
Bless í bili
Anna Karen
Jæja gott fólk!

Þá eru það fréttir úr Tanglewood sem endranær. Hér er orðið voða erfitt að búa enda hættur á hverju strái. Það hefur nefnilega verið svo heitt undanfarið að allt er hér galopið bæði gluggar og hurðir og þá berst ýmisskonar óhugnaður inn. Eins og flestir vita þá erum ég og Karenbeib ekki mjög sjóaðar í að umgangast skordýr (mest vegna þess hversu hratt við hlaupum og hátt við öskrum þegar við komumst í kynni við slík kvikindi). Við höfum hins vegar meðvitað tekið okkur á því að við viljum ekki færa þessa hræðslu yfir á barnið. Við erum þess vegna orðnar nokkuð sjóaðar í að drepa kvikindin án þess að mæla orð af vörum. Ása tása hinsvegar er hræddust af okkur öllum og ég veit í alvöru ekki af hverju, því við höfum passað okkur mjög... Í alvöru! Kannski er þetta meðfætt barasta!
Stúlkan er búin að vera í skólafríi undanfarna viku og er búin að tala á móður sína gat... mér skilst að þessi talgleði sé úr föðurættinni því hann ku hafa verið með eindæmum skrafhreifinn þegar hann var á hennar aldri. Mér varð nóg um í gær þegar ég bað hana hreinlega um að hætta að tala aðeins svo ég gæti hugsað hvað ég ætlaði að versla í Tesco í gær. Hún notaði það svo óspart á mig til baka í gærkvöldi þegar hún bað mig vinsamlegast um að hætta að tala svo hún gæti hugsað hvað hún ætti að teikna fyrir Karenbeib.
Við erum annars búnar að vera að spila tennis úti í garði en urðum að hætta sökum þess að báðir boltarnir enduðu í sitthvorum garði nágranna okkar og þau voru hvorug heima. Annars finnst mér hálf vandræðalegt að fara aftur í dag til þeirra, því ég fór í gær og lofaði að þetta myndi ekki koma fyrir aftur. Best að senda bara Jozeph þegar hann kemur heim !!!

Hafið það gott börnin mín
spider-woman