föstudagur, júní 13, 2003

Góðan dag góðan dag!

Ég vildi bara deila því með ykkur að ég er búin að setja útiblóm í pott í garðinum og reyta illgresi og geri aðrir betur. Við hérna númer fimm áttum nefnilega lúðalegasta garðinn í allri götunni og ég held meira að segja að allt grasið okkar sé dáið! Kannski lifnar það við ef það rignir pínu. Æðislegt veður í dag og ég held meira að segja að ég sé pínu brún eftir daginn. Ég og Ása fórum í Woolworths áðan að kaupa afmælisgjöf handa skólafélaga, en afmælið hans er á morgun og í þetta skipti er ég alveg viss. Það var pínu hátíð í Woolworths af því að þeir voru að breyta búðinn og gera hana flottari. Það sem pirraði mig alveg voða mikið var að núna eru stelpuleikföng sér merkt 'Girls Toys' og síðan strákaleikföng sér 'Boys Toys'. Það er svei mér þá bara hægt að fá bleik stelpuleikföng, í bleikum umbúðum í bleiku deildinni og síðan eins hjá strákunum nema þar er allt blátt. Nú finnst mér þetta bara svo gamaldags og halló að ég var alveg að rifna af pirringi þarna inni. Þetta var bara eins og í gamla daga, eða gömlu dagarnir eru kannski ekki svo gamlir eftir allt saman? Stelpur eiga að leika sér með dúkkur sem eru afmyndaðar af því að þær eru með svo stórar varir, stór augu, lítil nef og rauðar kinnar og strákar eiga að leika sér að því að setja saman vélmenni sem síðan skjóta önnur vélmenni. Síðan eru búningar fyrir stúlkurnar sem er hægt að kaupa, það eru Mjallhvít og Öskubuska sem gerðu aldrei neitt annað en að væflast eitthvað um og vera byrlað eitur og bjargað af prinsum. Drengirnir hafa skemmtilega búninga, t.d Spiderman sem bjargar fullt af fólki og er alveg rosakúl og Harry Potter sem kann að galdra. Þetta er barasta svindl!!!!
Það fer ekki mikið fyrir hugmyndaflugi í leikfangaframleiðslu finnst mér. Hnuss!!!


Sumar og sólarkveðjur frá Englandi


spider-woman

p.s. vð keyptum sem sagt litla sápukúluvél handa drengnum svona sem blæs margar sápukúlur í einu. Ása var alveg handviss um að hann hefði gaman af því en síðan tjáði hún mér á leiðinni heim að hún væri voða spennt að fara í afmælið til að fá að prófa gripinn, þannig ég hef hana grunaða um að setja sína hagsmuni aðeins ofar hagsmunum afmælisbarnsins.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home