föstudagur, janúar 31, 2003

Hmmm...... nú er allt að verða vitlaust í Englandi yfir snjó.. sem að Íslensdingum þykir svolítið skrýtið. Af því að það er nefnilega ekkert mikill snjór og landið er allt á öðrum endanum, núna er til dæmis auka fréttatími þar sem er verið að tala við fólk um allt land sem er rafmagnslaust, fast á vegum úti eða vinnur við að moka snjó. Tony Blair er búin að commenta á þetta rosalega situation og það væru greinilega "lessons to be learned". Lestarkerfið er allt í rugli og allt út af 3 cm snjó (Uxbridge). Ég og Anna Karen fórum í gær og skráðum okkur í leikfimi, konunni fannst þetta rosalega sniðugt að við værum frá Íslandi og að það skýrði líklega að við værum úti í svona vondu veðri??? Síðan biðum við í hálftíma eftir strætó af því að þeir voru allir fastir einhversstaðar í traffic jams. Ég bara á ekki til orð! En sinn er siður í landi hverju eins og mannfræðingar segja voða oft og vegna þess ætla ég bara að vera voða open minded um þetta allt saman. Það snjóar nú víst ekki svo oft þannig þeir eru ekki vanir þessu blah blah blah eitthvað.
Ég fór í leikfimi í morgun eftir að vera búin að skutla Ásu tásu í skólann og var alveg hugfangin af þessari líkamsræktarstöð sem var voða fín og sturtan alveg til fyrirmyndar. Enskar sturtur eru nefnilega dálítið slæmar og eru meira svona leki heldur en sturta. Þessi sturta var alveg alvöru mér til mikillar ánægju og ég ætla mér að vera voða dugleg í leikfimi, húrra húrra húrra...
Eigið góða helgi

spider-woman

fimmtudagur, janúar 30, 2003

Jæja þá er komið að því!!! Ég er búin að eignast óvin í Uxbridge... sniff! Maðurinn í bankanum þolir mig ekki..
Ég lenti nefnilega í því um daginn að hraðbankinn gleypti kortið mitt, glænýja kortið sem ég fékk sent í pósti frá Íslandi án nýja PIN númersins. Ég hélt glöð í bragði niður í bæ til að eyða og spenna og eftir 3 tilraunir gleypti hraðbankinn kortið mitt. Ég varð svolítið æst, ekkert mikið samt og spjallaði mjög ákveðið við afgreiðslumanninn sem neitaði því að ég fengi þetta kort til baka, It will be destroyed sagði hann alltaf þangað til ég varð dálítið meira pirruð og sagði honum að það væri sko mynd af mér á þessu korti þannig að það væri augljóst að þetta væri mitt kort, nema ef ég ætti kannski svona evil twin. Hann gaf sig ekki þannig að ég fór út í fússi. Síðan þá hef ég þurft að biðja hann um að aðstoða mig við að fylla út umsóknir um hitt og þetta. Hann vildi alltaf til að byrja með fylla allt út sjálfur og ég átti að stafa allt saman. Hann gafst síðan upp á því eftir að ég stafaði fyrir hann Friðfinnsdóttir og núna lætur hann mig hafa öll eyðublöð og ég á bara að gera svo vel að fylla út sjálf. Í gær fór ég í bankann eins og vanalega og stend við afgreiðsluborðið og sé útundan mér að hann kemur gangandi en þegar hann sér mig snýr hann við og hættir við að vera afgreiðslumaður og fer að spjalla við einhverja aðra bankakonu. Þá átti ég voða bágt með mig af því ég veit, af smá bankareynslu, hvernig erfiðir viðskiptavinir eru. Ég hélt bara ekki að ég flokkaðist sem slík fyrr en í gær! Allavega... svo líður og bíður og röð byrjar að myndast fyrir aftan mig og hann drattast ekki fram fyrr en að önnur bankakona kallar í hann og spyr hann hvort hann ætli ekki að fara að afgreiða... þá kemur hann fram og lítur yfir gólfið og spyr hver sé næstur og þykist ekki sjá mig. MUHAHAHAH... ég tók hann traustataki og tróð í hann fullt af útfylltum eyðublöðum og hló allan tíman inn í mér dimmum og myrkum hlátri.
Annars er bara annað gott að frétta, ég er í smá skólafríi þannig að núna er ég full time húsmóðir og er bara ansi góð í því þó ég segi sjálf frá. Ég og Ása erum bara að snúllast eitthvað saman og ég er búin að horfa á allar Disney myndir sem hafa verið framleiddar held ég bara... annað eins uppeldi þekkist nú varla. Síðan leikum við hestaleikinn þar sem ýmsir karakterar koma við sögu og lenda í ýmsum hremmingum. Jozeph vinnur og vinnur og sama má segja um hana Önnu Karen og annað er ekki að frétta.

Góðar stundir

spider-woman

mánudagur, janúar 27, 2003

Góðan og blessaðan daginn á íslenska lyklaborðinu!
Já þessi orðrómur sem þið hafið verið að heyra undanfarið er sannur.... við erum komin með internettengingu heim í Tanglewood.. mikið var að beljan bar eins og maðurinn sagði. Við erum bara hress öll saman, Ása er alveg að brillera í skólanum og er byrjuð að gera heimatal eins og hún kallar það en það er að læra heima að skrifa stafi. Henni finnst það reyndar ekkert spennandi og frekar bara asnalegt. Ég er smátt og smátt að breytast í ofurhúsmóður, ég þríf, þvæ þvotta, elda mat, fer út með ruslið og dunda mér við að þurkka af og horfa á Bangsímon á meðan hinir tveir fullorðnu meðlimir húshaldsins eru að vinna. Jozeph er farinn að vinna á Heathrow og passar þar fólkið sem er að ferðast, svo það sé ekki að villast eða að stunda hryðjuverk á meðan það er að ferðast um heiminn. Ég skilaði af mér 4 stk ritgerðum um daginn en er ekki búin að fá neitt til baka þannig að allt er gott enn! Karenbeib segir ykkur eflaust frá sér síðar svo ég þegi bara yfir öllum hennar málum í bili.
Það er eitt sem er rosalega merkilegt hérna í Englandi og það er klæðaburður barna! Það virðist vera að það hafi alveg gleymst að kynna Englendingum þær mögnuðu uppfinningar sem húfa og rennilás eru. Í öllum kuldanum þar sem ég og Ása erum dúðaðar þannig það sést kannski rétt í nefbroddinn á okkur þá eru önnur börn og mæður þeirra bara hress, allt rennt frá og eyrun fá að fjúka frjáls um í vetrarvindinum. Stúlkurnar eru í litlum hvítum sokkum við pilsin sín, annars berleggjaðar og eru bara hressar. Okkur finnst þetta alveg magnað hérna í Tanglewood og það líður vart sá dagur að við værum ekki að hneykslast á börnum sem við sáum úti með enga húfu, í engum sokkum o.s.frv. Ég er með kenningu um þetta sem ég ætla aðeins að viðra hérna og hún tengist aðeins uppruna okkar Íslendinga. Þegar víkingarnir voru að brölta hérna í Englandi og taka allar konurnar með sér héðan og til Íslands þá tóku þeir náttúrulega þær sem þeir fundu heima á bæjunum. Þeir tóku sem sagt kuldaskræfurnar sem voru heima við eldinn en misstu af öllum kjarnakonunum sem voru uppi í fjöllum að gera það sem fólk á þessum tíma gerði uppi í fjöllum, finna kindur, höggva mann og annan og sitthvað annað. Þess vegna erum við algerar kuldaskræfur en enskt fólk er svona með afbrigðum hraust og kuldaþolið.
Þá er ég búin að koma því frá mér og núna líður mér betur, það er spurning að nota mannfræðina eitthvað í að kanna þessa kenningu betur, þarf aðeins að hugsa það!
Ása lærir sífellt meiri ensku og er alger draumur í skólabúningnum. Það er búið að festa þetta allt á filmu og þeir sem vilja geta fengið myndir sendar, látið mig bara vita. Ég vil ennfremur benda þeim á sem finnst ég og Ása skemmtilegar að þið getið fengið að hitta okkur í persónu þegar við komum heim til Íslands 15. apríl og verðum til 26.apríl. Ég hlakka til að sjá ykkur öll og nú lofa ég að við verðum duglegri að blogga.

Hafið það gott

Spider-Woman