sunnudagur, ágúst 28, 2005


Þið verðið að afsaka bloggleysið að undanförnu. Ég hef nefnilega verið svo ánægð með nýja sófann að ég hef hreinlega ekki komist upp úr honum til að blogga.

kv

spider-woman

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Sófinn er kominn að kveðja burt snjóinn
Kveða burt leiðindi það getur hann :D

Nú er brosað hringinn hérna í fínu íbúðinn því sófinn sem pantaður var fyrir 2 mánuðum er kominn til síns heima. Þrefalt húrra fyrir því !!!

spider-woman

föstudagur, ágúst 12, 2005

Jæja þá er komið að IKEA sögunni sem margir (allavega Día Aust) hafa beðið spenntir eftir. Eins og nokkur ykkar vita þá átti sér stað ákveðinn hugmyndafræðilegur ágreiningur milli okkar hjóna um hvernig húsgögn ættu að vera í þessarri íbúð okkar. Hvorugt okkar átti húsgögn þannig ljóst var að byrja þyrfti frá grunni. Vegna þess að hér í Guildford býr bara ríkt fólk er lítið um búðir sem selja notuð húsgögn en mikið um búðir sem selja dýr og ljót húsgögn. Þar sem við erum ekki með bíl var ljóst að leit að notuðum húsgögnum yrði talsvert tímafrek og dýr þannig ákveðið var að kaupa bara allt í IKEA því hvorugt okkar nennti að standa í einhverju rugli.

Hasarinn byrjaði á því að Jozeph fann IKEA bækling í vinnunni sinni og eyddi einum degi í að raða í íbúðina okkar í huganum og skrifaði allt niður samviskusamlega niður í blokkina sína og kom heim eitt kvöldið hróðugur mjög því hann taldi sig hafa leyst lífsgátuna.
Konan hans Jozephs var ekki eins spennt því vægast sagt hafa þau hjónin ólíkan smekk á húsgögnum og þar sem konan getur verið dálítil dramadrottning gekk nokkuð á það kvöldið og ákveðið var að slíta þessum samræðum og geyma til betri tíma. Nokkrum dögum síðar var millivegurinn gullni fundinn og þá var ákveðið að fara af stað.

Að fara í IKEA í Bretlandi er EKKI eins gaman og að fara í IKEA á Íslandi og tók ferðin í allt 9 klst frá byrjun til enda. Við þurftum í fyrsta lagi að taka 2 lestir og einn sporvagn til Croydon og þegar inn var komið þurftum við að, berjast í gegnum mikið mannhaf, standa í alls 5 biðröðum til að fá lagernúmerið á húsgögnunum og síðan þurftum við að bíða í 1 klst og korter á lagernum ásamt haug af misþolinmóðu fólki. Þar sem búið var að skrifa allt niður fyrirfram sem átti að kaupa voru engin frávik leyfð þannig ekkert manntjón varð. Það munaði samt litlu að manntjón yrði hjá IKEA starfsfólkinu þegar ég komst að því að það var ekki allt til þannig við þurfum að fara aftur í gleðina miklu eftir 2 vikur eftir bókahillum, mýsluhúsgögnum og hjónarúmi.

Hnuss!!

spider-woman

þriðjudagur, ágúst 09, 2005


Útsýnið fína... vei!!

spider-woman

mánudagur, ágúst 08, 2005

Jæja þá er ég flutt og komin aftur í samband við umheiminn. Man ekki hvort ég var búin að tilkynna lesendum þessarar síðu frá fínu nýju íbúðinni niður við ánna.

Hún er sem sagt VOÐA fín og björt og ný, ólíkt hinni sem var ófríð og dimm og gömul. Í stofunni er stór gluggi sem veit út að ánni og þar sem við höfum ekki enn fengið sófann okkar þá sitjum við á gólfinu og horfum á fólk fljóta hjá. Það er ýmist í fljótabátum eða á kajökum eða árabátum. Síðan er stígur meðfram ánni þar sem fólk labbar, skokkar eða hjólar (já Helga það eru allir með hjálm!) og röltir með hundana sína. Síðan sér maður einstöku manneskju sem situr á kolli og er að veiða. Síðan er fullt af háum trjám og öndum og öðrum fiðurfénaði þannig þetta er bara alveg eins og að búa í Aldingarðinum Eden, nema það er enginn reiður Guð, snákur, aldintré eða nakið fólk (allavega ekki ennþá).

Og svo er þessi íbúð með baðkari sem gleður mig og mýslu mikið. Ég er samt að reyna að hemja mig í baðferðum því að ég er orðin svo meðvituð að þegar ég hleypi úr baðinu öllu þessu fína vatni, renna fyrir augum mér myndir af fólki sem á barasta ekkert vatn, visnuð uppskera og dauðir nautgripir og ég fæ ægilegt samviskubit.

Allavega það er ægileg hamingja í nýju íbúðinni..... og næsta færsla verður um för okkar í IKEA... þannig að "watch this space".... ég lofa að þið þurfið ekki að bíða lengi..

kv

spider-woman