mánudagur, júní 28, 2004

Í Englandi er alltaf verið að hvetja alla til að kynna sér vel viðskiptahætti bankanna til að vera örugglega ekki í einhverjum heimskulegum banka sem er að okra á manni. Þess vegna lögðum við Jozeph land undir fót í dag til að kynna okkur Barclays banka og hvort þeir vildu bjóða okkur betri díl en HSBC bank sem við erum hjá í dag. Við tókum með okkur öll nauðsynleg skjöl, vegabréf, proof of address og bank statement og ég mitt ökuskírteini. Síðan byrjar ballið, þá þarf að setja þetta allt inn í kerfið og stúlkan byrjar á að spyrja Jozeph spjörunum úr og allt gengur vel. Síðan kemur röðin að mér og þá byrjar vesenið. "Af hverju stendur Pordis í vegabréfinu en Thordis á Bank statement?" Uuuuuuu..... hvað segir maður þá? Við reyndum að útskýra þetta fyrir konunni að Þ væri í raun og veru TH en þessi staðreynd batt enda á þetta bankaævintýri okkar og við erum dæmd til að vera að eilífu hjá HSBC bank. Því Thordis gæti til dæmis verið systir hennar Pordisar og þær tvær verið umfangsmiklar í fjárþvætti. Eftir fjöldamörg símtöl var tekin sú ákvörðun að ég gæti hreinlega ekki sótt um að verða viðskiptavinur Barclays vegna þessa stafarugls. Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu. Þeir hefðu geta sagt nei af því ég er námsmaður og þar afleiðandi aumingi á mælikvarða allra breskra stofnana en ekki datt mér í hug að íslenskur ritháttur gæti gert mér svona erfitt fyrir.
Sem dæmi um námsmannafordóma í Englandi þá er til dæmis dýrara fyrir mig að tryggja bílinn ef ég er skráð sem námsmaður en húsmóðir þannig að sú varð raunin að ég er skráð sem húsmóðir hjá tryggingafélaginu og keyri bílinn mér einungis til skemmtunar en ekki í og úr skóla sem er mun dýrara. Ég get stundum orgað yfir steypunni sem er í gangi í þessu landi........grrrrrrr. Og svona til að enda þetta röfl þá langar mig að spyrja hvers konar fólk horfir á Tennis í sjónvarpinu????? Nú er ekkert að marka sjónvarpsdagskrá lengur hér í landi út af Wimbledon... Tennis er nú nógu andskoti leiðinlegt 'up close and personal' en í sjónvarpi.. og svo ég tali nú ekki um golf en það er efni í heila röflsögu (bara svona fyrir pabba) !!!

spider-woman fúla

sunnudagur, júní 20, 2004

Jæja þá er helgin búin. Mest lítið gerðist nema hvað Ása fór í heimsókn til Söru vinkonu sinnar og saman fóru þær, ásamt foreldrum Söru, í 17. júní messu/hátíðarhöld inni í London. Ég held að þetta hafi verið fyrsta messan sem ungfrú Ása hefur farið í og grunaði mig að hún ætti eftir að vekja upp margar spurningar. Það fer nefnilega mjög lítið fyrir trúarlegu uppeldi á þessu heimili.
Eitthvað hefur ungfrúin þó lært í skólanum og hefur frætt mig um Jesú, Múhameð, Shiva og Brahma. Henni var mikið niðri fyrir þegar hún sagði mér með litla cockney hreimnum að "Shiva was the destroyer of life while Brahma was the creator of life" og að "Jesus and Muhammed were the two great religious leaders". Með þessum upplýsingum fylgdi svo að vinkona hennar í skólanum, Tuvana, "was a muslim and could not eat ham."
Þessar setningar eru beint úr munni Mýslu því hún er farin að blanda enskunni og íslenskunni.
Allavega, á leiðinni heim áðan sagði hún mér frá messunni og prestinum sem var í "hvítri demantapeysu" og kórnum, sem að hennar sögn, samanstóð af "16 manneskjum með bækur að syngja og einn var að stjórna." Svo sagði hún "mamma mér finnst að þú eigir að kenna krökkunum þínum meira um guð". Þar hafiði það. Mamman er núna hálf vandræðaleg að hugsa með sér hvað um guð hún eigi að kenna barninu, þar sem mamman er ekki voða trúuð sjálf. Er kannski best að setja þetta í annarra hendur... kannski til ömmu Ásu....? Tillögur eru vel þegnar...

bestu kveðjur

spider-woman

sunnudagur, júní 13, 2004

Óhætt er að segja að hér í landi ríki mikið fótboltafár. Allstaðar eru fánar, á húsum, bílum, í gluggum, úti á svölum, á andlitum, fatnaði og sumir hafa líka litað hárið til að sýna Beckham og félögum stuðning. Ég viðurkenni hér með að ég er lúmsk fótboltabulla, og hrífst alveg með í stemmingunni. Sérstaklega komst ég við þegar ég keyrði fram hjá Prinsinum og sá alla vini mína úti við að hengja upp fána og skreyta og gera fínt. Ég er viss um að þeir og rassaskorurnar þeirra hafa ekki séð sólarljós síðan í heimsmeistarakeppninni, sem var held ég fyrir tveimur árum, enda voru þeir ansi píreygðir. Þeir gerðust meira að segja svo framkvæmdaglaðir að koma upp stiga(þá sáust ófáar rassaskorur)til að hengja fánalengjur yfir í nærliggjandi ljósastaur, á meðan nokkrir félaganna sátu með bjórana og fylgdust með og gáfu góð ráð.
Ég og Joseph horfðum á leikinn og ég lærði að segja "go on my son" eins og innfæddur tjalli. Við reyndar héldum fyrir augun þegar Frakkarnir skoruðu mörkin sín tvö í lok leiksins en jöfnuðum okkur fljótt. Síðan kom lokahnykkurinn sem gladdi mig pínku en það var í leikslok þegar þeir fóru úr að ofan og skiptust á skyrtum. (mér finnst að það mætti gera meira úr þeim hluta leiksins)
Síðan komu fréttir sem sýndu tárvotar fótboltabullur stara í vantrú á stigatöfluna og endurtaka í sífellu "I just didn't see it coming". Greyin litlu. Vona bara að þeir fari ekki síðan að lumbra á hvor öðrum því þá þurfa þeir allir að fara heim.
Annars er bara allt gott að frétta litlu vinir.

kv
spider-woman

föstudagur, júní 11, 2004

Ásdís systir mín á afmæli í dag... hún lengi lifi, húrra, húrra, húrra, húrraaaaaa. Til hamingju og eigðu góðan dag litli vin....

kv

spider-woman og fjölsk.

fimmtudagur, júní 10, 2004

Ég fékk fyrir nokkru símtal frá "gamla landinu" þar sem ég var spurð um hvort ég væri hætt að blogga eða dauð! Ég er ekki dauð og hef ekki tekið meðvitaða ákvörðun um að hætta að blogga, ég hef barasta ekki nennt því. En svona til að gefa smá updeit þá eru maurarnir dauðir og dýnan er ekki komin, þar afleiðandi er búið að banna mér og Joseph að koma oftar í rúmabúðina að knúsa sýningareintakið.
Annars er bara allt rólegt hér á þessum vígstöðvum, það er búið að vera voða voða heitt og til þess að vera fín í sumarkjól með blómum ákvað ég að fara í smá matar-aðhald og leikfimi, matar-aðhaldið virkar þannig að síðan ég tók þessa ákvörðun hef ég aldrei borðað eins mikið þannig að það mætti segja að ég héldi mér meira að mat en hitt. Leikfimin gengur betur þannig að sumarkjóllinn verður kannski komin um miðjan júlí og skv fyrri reynslu verður ábyggilega byrjað að rigna þá.
Ég vil síðan vinsamlega benda á að ég kem heim þann 4 ágúst og verð til 25 ágúst, svo þarf ég að drífa mig aftur hingað til að flytja, sem er alltaf svo skemmtilegt. Öll aðstoð er vel þegin.

Bless bless

spider-woman... voða andlaus og boring aldrei þessu vant!