sunnudagur, júní 20, 2004

Jæja þá er helgin búin. Mest lítið gerðist nema hvað Ása fór í heimsókn til Söru vinkonu sinnar og saman fóru þær, ásamt foreldrum Söru, í 17. júní messu/hátíðarhöld inni í London. Ég held að þetta hafi verið fyrsta messan sem ungfrú Ása hefur farið í og grunaði mig að hún ætti eftir að vekja upp margar spurningar. Það fer nefnilega mjög lítið fyrir trúarlegu uppeldi á þessu heimili.
Eitthvað hefur ungfrúin þó lært í skólanum og hefur frætt mig um Jesú, Múhameð, Shiva og Brahma. Henni var mikið niðri fyrir þegar hún sagði mér með litla cockney hreimnum að "Shiva was the destroyer of life while Brahma was the creator of life" og að "Jesus and Muhammed were the two great religious leaders". Með þessum upplýsingum fylgdi svo að vinkona hennar í skólanum, Tuvana, "was a muslim and could not eat ham."
Þessar setningar eru beint úr munni Mýslu því hún er farin að blanda enskunni og íslenskunni.
Allavega, á leiðinni heim áðan sagði hún mér frá messunni og prestinum sem var í "hvítri demantapeysu" og kórnum, sem að hennar sögn, samanstóð af "16 manneskjum með bækur að syngja og einn var að stjórna." Svo sagði hún "mamma mér finnst að þú eigir að kenna krökkunum þínum meira um guð". Þar hafiði það. Mamman er núna hálf vandræðaleg að hugsa með sér hvað um guð hún eigi að kenna barninu, þar sem mamman er ekki voða trúuð sjálf. Er kannski best að setja þetta í annarra hendur... kannski til ömmu Ásu....? Tillögur eru vel þegnar...

bestu kveðjur

spider-woman

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home