sunnudagur, júní 13, 2004

Óhætt er að segja að hér í landi ríki mikið fótboltafár. Allstaðar eru fánar, á húsum, bílum, í gluggum, úti á svölum, á andlitum, fatnaði og sumir hafa líka litað hárið til að sýna Beckham og félögum stuðning. Ég viðurkenni hér með að ég er lúmsk fótboltabulla, og hrífst alveg með í stemmingunni. Sérstaklega komst ég við þegar ég keyrði fram hjá Prinsinum og sá alla vini mína úti við að hengja upp fána og skreyta og gera fínt. Ég er viss um að þeir og rassaskorurnar þeirra hafa ekki séð sólarljós síðan í heimsmeistarakeppninni, sem var held ég fyrir tveimur árum, enda voru þeir ansi píreygðir. Þeir gerðust meira að segja svo framkvæmdaglaðir að koma upp stiga(þá sáust ófáar rassaskorur)til að hengja fánalengjur yfir í nærliggjandi ljósastaur, á meðan nokkrir félaganna sátu með bjórana og fylgdust með og gáfu góð ráð.
Ég og Joseph horfðum á leikinn og ég lærði að segja "go on my son" eins og innfæddur tjalli. Við reyndar héldum fyrir augun þegar Frakkarnir skoruðu mörkin sín tvö í lok leiksins en jöfnuðum okkur fljótt. Síðan kom lokahnykkurinn sem gladdi mig pínku en það var í leikslok þegar þeir fóru úr að ofan og skiptust á skyrtum. (mér finnst að það mætti gera meira úr þeim hluta leiksins)
Síðan komu fréttir sem sýndu tárvotar fótboltabullur stara í vantrú á stigatöfluna og endurtaka í sífellu "I just didn't see it coming". Greyin litlu. Vona bara að þeir fari ekki síðan að lumbra á hvor öðrum því þá þurfa þeir allir að fara heim.
Annars er bara allt gott að frétta litlu vinir.

kv
spider-woman

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home