miðvikudagur, desember 29, 2004

Jæja þá er tími útsala runnin upp hérna í Guildford sem og annars staðar í Englandi og miðbærinn er fullur af fólki frá morgni til kvölds. Allir vinna markvisst að því að gera góð kaup og helst betri en náunginn.
Það virðast vera góðar útsölur hérna með miklum afslætti sem útskýrir kannski allan hamaganginn. Annað sem setur svip á bæinn er mikill fjöldi karlmanna sem standa niðurlútir fyrir utan búðirnar umkringdir pokum á meðan konurnar ganga berserksgang. Á næsta ári þá ætla ég að setja fram tillögu í Guildford council að komið verði upp kakó/súpu tjaldi fyrir mennina svo þeir geti nú hlýjað sér í kuldanum. Þar verði einnig gefin kostur á áfallahjálp og aðstoð við að greiða úr fjármálum heimilisins. Hvernig líst ykkur á það?

Annars verð ég nú að segja að ég öfunda pínu konurnar sem fá að versla í friði fyrir mönnunum sínum því Jozeph getur verið dálítið erfiður þegar ég er að versla og hann er með í för. Hann hefur miklar og flóknar skoðanir á öllu sem einkennast mest af því að hann sér eitthvað smáatriði sem honum líkar ekki og þá er það dæmt úr leik. Það er kannski saumur hér eða tala þar, eitthvað sem enginn tekur eftir því fólk er flest þeim eiginleikum gætt að sjá hlutina í heild sinni.
Þetta keyrði nú úr hófi fram þegar hann eyddi nokkrum mánuðum í að leita að nýjum gallabuxum sem væru ekki með gulum saumum og sérstöku sniði af vösum. Vegna þessa gekk hann í buxum sem voru að detta í sundur í MARGA mánuði.

með útsölukveðju

spider-woman


ps. Ég sjálf varð reyndar fyrir því "óláni" að hrasa í miðbænum, detta inn í nærliggjandi búð, flækjast í voða fínu pilsi og í öllum látunum datt kortið mitt í gegnum posann. Afgreiðslustúlkurnar voru voða almennilegar og leyfðu mér að taka pilsið með mér heim. Allt er gott sem endar vel.

þriðjudagur, desember 28, 2004

Hér eru blóm til systu sem að eigin sögn var númer 200. Enn er ósóttur blómvöndur þess/þeirrar sem var númer 100.


Posted by Hello

fimmtudagur, desember 23, 2004

Hæ litlu vinir.

Vildi bara segja gleðileg jól frá okkur í Guildfordi. Hér er búið að skreyta og kaupa lítið jólatré. Jólin verða haldin hátíðleg þ. 25. þar sem Jozeph er að vinna á aðfangadag.
Gleðileg jól allesammen og farsælt nýtt ár.


ps. Ég fór til Miami og sá systu útskrifast í fína dressinu og skemmti mér bráðvel. Þar sem dollarinn var mjög lágur borgaði sig að versla sem mest annarst átti maður á hættu að tapa hreinlega peningum og ekki gat ég verið þekkt fyrir það. Þess vegna kom ég heim nokkrum gjöfum og fötum ríkari. Það var ósköp gaman að hitta fjölskylduna þar sem ég missi af alvöru jólum þetta árið og ég vil nota tækifærið og þakka fyrir góða dvöl.

Faðmlög og kossar

spider-woman

mánudagur, desember 06, 2004

Hey! Hver var gestur númer eitthundrað? Sá/sú hinn/hin sami/sama (maður verður að vera kynjalega réttþenkjandi) ætti skilið að fá einn blómvönd.

vei vei

spider-woman

föstudagur, desember 03, 2004

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að skrifa um Kristján Jóhannsson en ég varð að horfa á Kastljóstið eftir að hafa heyrt orðróm um um hann vera að tala um rauð brjóst í sjónvarpi allra landsmanna. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum þar sem hann stóð alveg fyrir sínu í montpriks- og vindbelgingshætti og besta var þegar hann veifaði nýja disknum sínum á meðan hann dreifði fúkyrðum yfir þáttastjórnendurna. Ef það er ekki góð auglýsing þá veit ég ekki hvað. Gæti samt verið að þarna afsannaðist klisjan "There is no such thing as bad publicity"... það verður spennandi að sjá.

kv

spider-woman