mánudagur, nóvember 05, 2012

Elsku afi Halli - kvedja


Þann tuttugasta október síðastliðinn dó afi Halli.  Við fjölskyldan lögðum land undir fót til Akureyrar í jarðaförina og komumst klakklaust á leiðarenda í gegnum snjóstorm og byl, undir öruggri handleiðslu Sveins föður sem keyrði af mikilli snilld og Ásu móður sem kætti okkur í aftursætinu.

Mig langaði að rita hérna litla kveðju til Afa Halla en á í erfiðleikum með að segja eitthvað sem ekki hefur verið sagt margoft áður í minningargreinum sem birtust í Morgunblaðinu.  Ætli það sem á eftir komi mætti ekki flokkast sem  minningar afastelpu sem ólst upp vitandi það að þegar hún færi til Akureyrar mætti henni ekkert nema hlýja og hjálpsemi.  Afi vildi nefnilega allt fyrir alla  gera og var sá hjálpsamasti maður sem ég hef fyrirhitt, og ég ætti að vita það, enda er ég meðlimur í einni hjálpsömustu fjölskyldu (í bæði móður og föðurætt) norðan Alpafjalla.  Afi Halli var líka afskaplega kátur og það var alltaf stutt í hláturinn í Goðabyggðinni, ekki að undra að ég hafi alist upp haldandi að ég væri afskaplega fyndið barn.  Hann hafði hlýtt faðmlag sem mætti manni eftir langa bílferð og kvaddi mann þegar heim var haldið.  Hann var óendanlega þolinmóður og ég sá hann aldrei pirraðan eða reiðan. Hann hrósaði okkur öllum óspart og hafði mikla trú á öllum sínum ættmennum.  Hann var jafnaðarmaður mikill og er ég afar stolt af honum og ömmu Ninnu að hafa haldið í heiðri réttindum verkafólks og hugmyndafræði sem byggist á frelsi, jafnrétti og bræðralagi, eitthvað sem virðist á vanta á þessum síðustu og verstu tímum. 

Mig langar að enda þessa kveðju með þakkarorðum til afa Halla, ömmu Ninnu, afa Guðmundar og ömmu Eyju – takk fyrir allt sem þið hafið gert fyrir mig í gegnum tíðina, það veitti mér mikið öryggi að vita af ykkur öllum, ég vissi að ég gæti ávallt treyst á ykkur og ég hlakka til að hitta ykkur aftur.

Þórdís

 

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ofsalega falleg kveðjuorð hjá þér Þórdís mín.
Bestu kveðjur,
Anna Karen

11:05 f.h.  
Blogger londonbaby said...

Takk takk Anna Karen. Hlakka til ad heyra i ther a morgun.

8:21 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home