föstudagur, október 12, 2012

Millie

Mér finnst ég verði að kynna lesendur bloggsins fyrir henni Millie.  Ásdís, þetta verður eina færslan sem ég skrifa um Millie, ég lofa!

Millie er mikið gæðablóð sem hefur búið hjá okkur í næstum ár.  Þegar við fluttum í þetta hús þá kynntumst við hundinum honum Reebok sem er alveg ofsalega kátur og vinalegur, næstum eins og gangandi auglýsing fyrir hunda.  Eftir að hafa knúsað Reebok kannski aðeins of mikið fyrir smekk eigenda hans ( ég held að þau hafi haft smá áhyggjur af því að við ætluðum að stela honum frá þeim) þá ákváðum við að fá okkur hund.  Við ákváðum að fá okkur eldri hund frá dog rescue og byrjuðum að leita á Internetinu.  Hér kemur smá viðvörun, það eru óteljandi margir hundar í Dog Rescues hérna í Bretlandi og þeir eru allir voða sætir og mann langar að taka þá alla heim.  Hérna þurfti Joseph aðeins að skerast í leikinn því ég og Ása sátum kvöld eftir kvöld og skoðuðum vefsíður og sögðum awwwww eigum við að taka þennan og þennan og þennan. 

Síðan kynnti vinkona mín hún Lynne okkur fyrir Wiccaweys sem sérhæfir sig í að taka inn Fjárhunda (Border Collie og aðra Collie Hunda) og þar fundum við hana Millie. Við keyrðum síðan niður til Kettering og hittum hana og leist svona agalega vel á hana að hún kom með okkur heim.

Þegar heim var komið kom í ljós að Millie var um það bil hræddasti hundur sem ég hef nokkurn tíma komist í kynni við og það var næstum ómögulegt að fara með hana í göngutúr.  Hún var hrædd við fólk, hjól, bíla, ruslatunnur og bara allt sem varð á okkar vegi.  Þannig að draumurinn sem ég hafði séð fyrir mér að verða svaka hundakona sem skokkaði, labbaði og hjólaði með hundinn minn var pínu ónýtur.  Ég var í staðinn toguð í allar áttir, inn í garða, yfir götur og var orðin alveg uppgefin og tognuð í hægri hliðinni. 

Fólkið á Wiccaweys hafði látið í það skína að Millie hefði ekki átt sjö dagana sæla í sínu fyrra lífi en við leiddum það eitthvað hjá okkur af því að hún var svo róleg þegar við hittum hana.  Hún kemur frá Írlandi og hefur greinilega átt að verða fjárhundur af því að það er búið að klippa oddinn af vígtönnunum á henni.  Hún er heyrnarlaus og höld á vinstra framfæti þar sem hún hefur annað hvort flækst í vír eða lent í refagildru.  Hún er mjög hrædd við ókunnuga sem þýðir líklega að einhver hefur verið vondur við hana í den.

Núna er næstum ár síðan að við hittum Millie fyrst og hún er eins og allt annar hundur.  Hún er reyndar enn hrædd við skokkara og fólk á hjóli en er orðin bara svaka hugrökk og við röltum hérna um hverfið í ró og næði (svona oftast).  Við erum búnar að eignast fullt af hundavinumog mætum á hverjum morgni í hunda labb með 4 öðrum konum.  Þegar maður verður hundaeigandi þá lendir maður í því að verða meðlimur í félagi hundaeigenda og fer að spjalla við ókunnugt fólk með hunda og bjóða góðan daginn og svona - afar krúttlegt allt saman.

Þetta er stutt saga um hana Millie gæðablóð.  Hún er svo stór hluti af okkar daglega lífi að mér fannst ég þurfa að kynna hana fyrir ykkur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home