mánudagur, mars 24, 2003

Alltaf jafn mikill blogg dugnaður hérna í Tanglewood eða þannig.
Ég gæti náttúrulega kennt góða veðrinu um af því að það er búið að vera æði. Ég og Ása eyddum helginni að mestu úti við. Á laugardag fórum við á hamborgarastaðinn og síðan lá leið á róló og þaðan í heimsókn til hennar Parm. Hún er með mér í skólanum og er afskaplega hrifin af Ásu (eins og reyndar allt heilvita fólk). Í gær keyrði um þverbak og eyddum við mestum tímanum í´garðinum, ég í sólbaði og Ása í hestaleiknum. Hestaleikurinn er ákaflega dramatískur leikur þar sem persónur skiptast á um að deyja, slasast eða fara í byrgið/fangelsi. Allir plástrar heimilisins eru notaðir í að hlúa að hinum slösuðu og mikið liggur á að koma réttlæti yfir þá sem gerast sakir um alls kyns krimmaskap. Þeir sem deyja eru sjaldan langt undan og geta þeir sem eftir lifa talað við þá því hinir látnu eru oftast uppi í himninum "eins og pabbi hans Simba" (Lion King). Eftir þetta lá leiðin inn í bæ þar sem við keyptum ís og spókuðum okkur í góða veðrinu.

Það fer ekki mikið fyrir fréttum af námi mínu á þessu bloggi og hér kemur smá updeit: Ég er sem sagt í Brunel University að leggja stund á MA nám í Media, Communication and Technology sem ég klára í september. Læt ykkur bara vita af þessu því mér hefur svona heyrst að það séu ekki allir með á því hvað ég er að læra sem er kannski ekki skrýtið þar sem ég hef verið orðuð við Stjórnmálafræði, Mannfræði, Hjúkrun og Kvennafræði. Ég er að melta það með mér hvort ég eigi ekki bara líka að klára MA í mannfræði þar sem ég á bara eftir að skrifa ritgerðina þar á bæ og þið sem viljið eitthvað um það segja endilega skrifið mér póst. Mig vantar svolítið pepp frá ykkur stuðningsmönnum og kannski smá pinch of reality frá ykkur sem haldið að ég sé ekki alveg í lagi að gera þetta allt í einu, húsmóðirin og móðirin!!!

Annars er bara allt gott að frétta nema náttúrulega stríðið sem getur gert alla heilvita einstaklinga afskaplega pirraða, hérna er ekkert annað í fréttum en bardagar, olíueldar og sprengjuflugvélar. Það sem stendur upp úr er náttúrulega viðbrögð Donald Rumsfeld við þeim Írakasið að birta myndir af stríðsföngum sínum í sjónvarpinu. Donald var afar óhress með þetta og þetta ku víst vera brot á Genfarsáttmálanum. Þetta er einmitt sá sami sáttmáli sem þeir kanar hafa alveg gleymt þegar kemur að því að fjalla um þeirra eigin stríðsfanga frá Afghanistan sem eru núna staðsettir á Kúbu og eflaust enn með bundið fyrir augun. Veit ekki hvort það er í Genfarsáttmálanum að allir stríðsfangar eigi alltaf að vera með bundið fyrir augun og í fangelsi án dóms og laga í lengri tíma en ár, en fyrst að Donald þekkir sáttmálann svona vel þá er þetta ábyggilega þar, kannski í smáa letrinu. Síðan var náttúrulega fréttaskot af bandarískum hermönnum að sprengja í sundur hús og hrópa WOOOHOOO!!!! allir í kór þegar eldflaugin lenti á réttum stað. Þeir hafa ábyggilega spilað of mikið af tölvuleikjum meðan þeir voru að bíða í Kuwait og hafa gleymt því að það gæti leynst lifandi fólk í nærliggjandi húsum. Afar óviðeigandi finnst mér en þetta macho hermannaandrúmsloft er nú einu sinni sérgrein þeirra kana og þetta gera þeir best!! Ég bíð núna spennt eftir myndinni !!!

Góðar stundir greyin mín
Spider-Woman

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home