fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Ég verð að segja að ég er ánægð með að þetta klámþing hafi verið blásið af því að ég tel að því felist ákveðin skilaboð til klámiðnaðarins, þ.e. að fólki sé ekki sama hvað gengur á innan þessa iðnaðar. Það væri óskandi að klámiðnaðurinn, þ.e. sá armur hans sem segist selja, sem mætti kannski nefna "free range", "organic", "fairtraide" og "no cruelty to...", erótík og klám, taki þetta til greina og noti tækifærið og taki aðeins til í bakgarðinum hjá sér.

Ég viðurkenni alveg að hugtakið klám og erótík eru sveigjanleg og alltaf verður til eitthvað sem heitir adult entertainment þar sem allir eru voða hamingjusamir og una glaðir við sitt, jafnt framleiðendur sem og starfsmenn. Það er bara þannig að það er svo stutt í hin dökku hlið klámiðnaðarins þar sem hreinlega er litið á fólk sem söluvöru fyrst og fremst og vanvirðing fyrir einstaklingnum er í hávegum höfð.

Þessi vegalengd er sérstaklega stutt á Internetinu og hver hefur ekki lent í því að hafa farið inn á síðu og þá fyllist skjárinn af pop-up gluggum með mis-fallegum skilaboðum. Og síðan eru svo kallaðar linkasíður þar sem hægt er að fylgja linkum umhverfis jörðina á 80 dögum án þess að verða nokkurn tíma stopp á sömu síðunni. Á þessum linkasíðum eru auglýsingar með þeim ógeðslegustu lýsingum sem ég hef nokkurn tíma séð (ég gerði pínu rannsókn á þessu) þar sem boðið er upp á nauðgunarklám, unglingaklám, dýraklám, ofbeldisklám og þar viðgengst ótrúleg hugmyndaríki í að finna sem mest niðurlægjandi orð yfir konur, karla, kynþætti, samkynhneigða og hvaða þjóðfélagshópa sem fyrirfinnast á jörðinni.

Þetta er meðal annars ástæða fyrir því að ég treysti klámiðnaðnum afar takmarkað í því sem hann segist gera að að markmiði, þ.e. að sjá til þess enginn hljóti skaða af því að starfa innan hans. Því ef þú hefur linka á síðunni þinni að einhverjum þeim viðbjóði sem ég nefni hér að ofan og ef þú kallar einstaklinga öllum illum nöfnum þá á ég mjög bágt með að trúa því að þú rekir viðskipti sem eru virðingarverð.

Þess vegna ætti klámiðnaðurinn að reyna að breyta þessu innan frá og segja nei við þessum linkum og gæta þess að virðingarverðar vefsíður hafi ekki þessar ógeðslegu lýsingar og efni á þeim. Það væri líka gott að koma þessum breytingum á framfæri við hinn almenna borgara og gera allt sem í valdi stendur til að sjá til þess að enginn sem starfar innan hans beri skarðan hlut frá borði. Klámiðnaðurinn þarf að taka ábyrgð á þessu ofbeldi og vanvirðingu sem viðhelst innan hans ef hann vill láta taka sig alvarlega sem skemmtiiðnað sbr. adult entertainment.

Það væri óskandi að klámiðnaðurinn tæki þessi viðbrögð Íslendinga sem eitthvað sem væri vert að skoða nánar og hægt væri að nota til að bæta ástandið, en afgreiddi þetta ekki einungis sem eitthvað kynkuldaraus í mussukerlingum eins og mér sýnist að sé reyndin, allavega á fremur mörgum bloggsíðum. Þetta er nefnilega ekki svo einfalt en auðvitað er alltaf auðveldast að afgreiða gagnrýni á þennan hátt.

með bestu kveðju

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hjartanlega sammála þér.
Kv.,
ILH.

8:20 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home