sunnudagur, janúar 25, 2004

Jæja hugsa nú hinir fjölmörgu lesendur londonbaby vefmiðilsins. Nú hefur hún loksins afhjúpað sitt rétta eðli, hún er sem sagt bara fasisti sem vill ekki að fólk njóti þess að eiga peninga og eyða þeim í hvað sem er. Já ég gengst við því, enda hef ég aldrei haldið öðru fram. Kannski er þetta bara biturleiki sem veldur þessum blæstri mínum, sem orsakast af fjölmörgum árum á námslánum. Kannski þjáist ég af aldurskrísu, ég er að verða þrjátíu ára á þessu ári og á ekki neitt. Sniff.. ég á líklega aldrei eftir að eiga spennandi rými með ótakmörkuðum möguleikum á ótal spennandi lausnum. Fegin er ég því ég er með eindæmum hugmyndasnauð þegar kemur að innréttingum og innanhússhönnun. Heima hjá mér verða ábyggilega bara borð og stólar og hillur og svo eitthvað drasl úr charity búðinni sem mér finnst sætt en engum öðrum. Svo fer þetta ábyggilega versnandi með aldrinum og þegar ég loksins verð komin úr námi og get keypt mér rými þá verður það bara tómt nema með góðu rúmi. Ég er nefnilega mikil áhugamanneskja um rúm því ég er búin að sofa í brotnu rúmi í næstum ár núna og það er ekki gott fyrir sálina.

Allavega þá er allt gott að frétta eins og þið sjáið. Horfði á einstaklega spennandi þáttarbrot um karlmenn sem fara í getnaðarlimsstækkun og sögð var saga eins manns sem var með svo lítinn að hann þjáðist af búningsklefaheilkenni (e. locker room syndrome). Hann gat nefnilega aldrei farið í leikfimi og fótbolta þegar að hann var að vaxa úr grasi vegna stærðarinnar. Síðan var honum greyinu troðið inn í búningsklefa og hann lýsti tilfinningum sínum undir tilfinningaþrunginni tónlist og myndavélatækni var beitt óspart til að fá búningsklefann til að hringsnúast fyrir augunum á manni svo maður færi ábyggilega ekki á mis við að upplifa tilfinningar þess sem þjáist af þessu heilkenni. Ég horfði reyndar ekki á allan þennan þátt því ég fór bara að sofa þannig ég og þið lesendur góðir verðið að lifa í óvissu um afdrif þessa manns og hvort að hann sigraðist á þessu heilkenni. Ef ég frétti eitthvað skal ég láta ykkur vita.
Allt annars gott hér, barnið í baði, best að fara að fiska það upp og koma í rúmið.

Bestu kveðjur

spider-woman hin fasíska vinkona litla mannsins!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home