laugardagur, janúar 24, 2004

Hnuss, hnuss og hneyksl!
Fólk kann sko ekki að skammast sín og ég er alveg yfir mig hneyksluð eins og línan fyrir framan gefur kannski til kynna. Horfði á þátt um daginn sem heitir Grand Designs sem er um fólk sem getur ekki látið sér nægja að gera upp venjuleg heimili heldur þarf að byggja/breyta mörg þúsund fermetra rými á mjög stílíseraðan hátt.
Umfjöllunarefni síðasta þáttar var fiðluverksmiðja ein í London sem hjón nokkur höfðu fest kaup á og hugðust gera upp. Þau eyddu sem sagt 1. milljón punda í að gera upp fiðluverksmiðju svo þau gætu hringlast þar ein í þessu agalega skemmtilega rými sem var á við 2 fjölbýlishús. Djöfull var ég pirruð á meðan ég horfði á þetta pakk sem velti sér upp úr peningum og eyddi í fánýta hluti eins og 7 fermetra eldavél og eldhúsinnréttingu sem kostaði 34.000 pund.
Konan var einstaklega óáhugaverður karakter en það var svo upp á henni trýnið og hún var agalega hróðug með allt rýmið og loftgluggana. Hún var hins vegar ekki eins ánægð með að hitastillingin á risaeldavélinni virkaði ekki.
Hún minnti mig mjög á fyrrverandi konuna hans Frasiers, Lilith. Með sama snobbsvipinn og montglottið á meðan hún og kallinni hennar leiddi þáttastjórnandann um allt þetta rými. Kallinn fékk aldrei að segja neitt og eina rýmið sem honum var ætlað var eins og hellir/bókakompa sem honum leið voða vel í að eigin sögn (ábyggilega ánægður að vera laus við röflið í henni)
Nú hugsa kannski margir sem lesa þetta blogg (það lesa það nefnilega fleiri en ég hélt) æi greyið hún er svona afbrýðissöm og kannski er ég bara lítil sál sem er alveg að rifna yfir því að eiga bara litla eldavél. (þ.e.a.s venjulega stærð og reyndar á ég hana ekki, bara með hana á leigu) En á meðan það er fólk sem á ekki fyrir salti í grautinn og til eru mannúðarsamtök sem eru að reyna að safna peningum fyrir tækjabúnaði sem er nauðsynlegur fyrir sjúkrahús og elliheimili þá á fólk ekki að montast með að eyða milljónum króna í vitleysu án þess að blikna. Hana nú það er mín skoðun. Þið megið gera það við hana sem ykkur líkar.

Bestu kveðjur

spider-woman

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home