föstudagur, maí 04, 2007

Nú eru, að mér skilst, nokkrar vikur þangað til reykingabann tekur gildi á veitingastöðum á Íslandi. Það kom nefnilega í ljós að fólki þótti ekki gott að láta blása reyk yfir sig í tíma og ótíma og núna verður það bráðum bara alveg bannað. Ég sem tómstundareykingakona hef aldrei látið reykingar fara mikið í taugarnar á mér en hinsvegar er önnur mengun sem getur gert mig alveg brjálaða og það er andleg mengun sem felst í því að þurfa að sitja undir röfli í fólki um útlendinga. Það virðist nefnilega vera að fólk sem hefur hvað mesta þörf fyrir að tjá sig um þessi mál á afar erfitt með að hugsa aðeins útfyrir allar klisjurnar og margtuggnu steypuna sem það hefur heyrt hjá öðrum skoðanasystkinum sínum.

Allra verst finnst mér það fólk sem heldur því fram að það hafi enga fordóma gagnvart (hér má setja 1 stk þjóðernishóp eða bara alla útlendinga ef því er að skipta) og sé ekki rasisti. Það sem er nefnilega mergurinn málsins er að fordómar og rasismi eru ekki bara 1 stk af hugmynd sem hefur haldist óbreytt í hundruð ára. Hvort tveggja er safn hugmynda sem breytast frá degi til dags og þess vegna er mikilvægt að: í fyrsta lagi að gera sér grein fyrir að allar manneskjur hafa fordóma og í öðru lagi að það er naudsynlegt að bera kennsl á og íhuga sína eigin fordóma með reglulegu millibili. Því um leið og fólk heldur að það sé algerlega fordómalaust þá er voðinn vís. Fordómar eru nefnilega svo "sneaky" og þeir láta á sér bera á ólíklegustu stundum.

Ég hef gengið með þennan pistil í maganum síðan ég var að las litla ritgerð sem fjallaði um rasisma. Í þessarri ritgerð fjallaði nemi um og fordæmdi þrælahald en tók síðan til við að alhæfa um að innflytjendur í Bretlandi að þeir rottuðu sig saman í hverfum, herjuðu á Breta með ghettovandræðum, væru allir á bótum og meinuðu konunum sínum að fara einar síns liðs út að versla.

Þessi höfundur virtist nefnilega þess fullviss að hann hefði enga fordóma, hann var jú ekki fylgjandi þrælahaldi og fannst sú grimmd sem viðgekkst varðandi blökkufólki á þeim tíma alger fjarstæða. Þess vegna hafði hann sofnað á verðinum og gleymt að íhuga þær hugmyndir sem hann hafði um annað fólk sem stóð honum nær í tíma og rúmi. Það sem hann var að telja upp í ritgerðinni hélt hann að væru staðreyndir því að fordómar voru það svo sannarlega ekki. Þess vegna fannst honum alveg rakið að láta þessar hugmyndir flakka. Síðan sé ég fyrir mér að ef spjallið berst einhvern tíma að innflytjendum þá geti þessi ágæti nemandi básúnað þessar hugmyndir yfir vini og vandamenn sem geta síðan komið þeim áleiðis lengra og lengra. En það er svo sem í lagi því enginn þeirra hefur neina fordóma.

Málið er hinsvegar að enginn er undanþeginn og þá meina ég enginn.
Hér koma nokkrar algengar ástæður fyrir því að fólk telur sig vera algerlega fordómalaust en ég verð að segja að þú ert ekki fordómalaus þótt þú:

Sért heimsforeldri
Hafir farið sem skiptinemi
Hafir farið erlendis í háskólanám
Sért háskólagenginn
Hafir unnið fyrir Rauða Krossinn í Malawi
Hafir farið í safarí um Afríku
Eigir erlenda vini
Eigir erlendan maka
Ættleiðir börn erlendis frá
Hafir farið til Singapour í 3 vikur
og svo mætti áfram telja....


Góða helgi

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Sammála eins og vanalega - góða helgi!

10:34 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Frábær pistill hjá þér Þórdís.
Gangi þér vel með yfirferð prófa í dag!!

Heyrumst

7:32 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Einhversstaðar og einhverntímann heyrði ég að grunur væri á því að eitthvað af genunum okkar réði því hvort við værum haldin fordómum og ég hugsaði bara OMG á nú að nota erfðafræðina til að afsaka heimsku okkar mannanna, allt er nú til. Góður pistill hjá þér frænka.

1:31 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home